Hoppa yfir valmynd
19. október 2012 Dómsmálaráðuneytið

Sýnishorn af kjörseðli við þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012

Hér að neðan má sjá sýnishorn af kjörseðli sem notaður er við þjóðaratkvæðagreiðsluna á morgun, 20. október.

Sýnishorn af kjörseðli við þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012:
synishorn
Kjörseðillinn við þjóðaratkvæðagreiðsluna er á margan hátt frábrugðinn venjulegum kjörseðli sem kjósendur þekkja að því leyti að á honum eru sex mismunandi spurningar. Þannig var hann settur fram í þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 24. maí síðastliðinn.

Á kjörseðlinum koma fram spurningar um hvort kjósandi samþykki þær tillögur sem bornar eru upp og gefnir tveir möguleikar á svari í hverju tilviki: „Já“ eða „Nei“. Kjósandi hefur einnig val um að sleppa því að svara einstökum spurningum. Fyrir framan hvorn svarmöguleikann „Já“ og „Nei“ er ferningur og til þess að greiða atkvæði markar kjósandi með ritblýi kross í annan hvorn ferninginn.  Mikilvægt er að kjósandi gæti að því að fylgja þessum leiðbeiningum til að varast að atkvæðið verði metið ógilt.

Í 100. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 segir til um hvernig skuli meta gildi atkvæðis. Við þjóðaratkvæðagreiðsluna nú ógildist kjörseðillinn ekki þótt einhverri eða einhverjum spurningum sé ekki svarað (ferningur hafður auður). Auður ferningur við spurningu ógildir því ekki seðilinn eins og almennt er í kosningum. Í þessu liggur því meðal annars munurinn á t.d. kjörseðli í alþingiskosningum og þjóðaratkvæðagreiðslunni nú. Það er sem sagt hægt að greiða atkvæði í kosningunni með ósvaraðri spurningu/spurningum án þess að kjörseðilinn verði þess vegna metinn ógildur að öðru leyti ef einhverri spurningu er svarað.

Kjósendur verða samt að hafa í huga að körseðill getur verið metinn ógildur ef áletrun á honum er fram yfir það sem fyrir er mælt í lögunum eða einhver merki sett á seðilinn sem ætla má að séu gerð til að auðkenna hann.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira