Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 180/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 180/2021

Miðvikudaginn 25. ágúst 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 8. apríl 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. janúar 2021 um útreikning á greiðslum vegna frestunar á töku ellilífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvubréfi 15. desember 2020 óskaði kærandi eftir sundurliðun á útreikningum skerðinga á ellilífeyri vegna ársins 2020. Með tölvubréfi Tryggingastofnunar ríkisins 22. desember 2020 var erindi kæranda svarað. Með tölvubréfi 11. janúar 2021 fór kærandi fram á skriflegan rökstuðning fyrir útreikningi skerðinga á frestunarálagi ellilífeyris. Með tölvubréfi Tryggingastofnunar 12. janúar 2021 var umbeðinn rökstuðningur veittur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. apríl 2021. Með bréfi, dags. 12. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. maí 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. maí 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kæran varði skerðingar á frestunarálagi ellilífeyris.

Kærandi hafi í góðri trú frestað töku ellilífeyris í 59 mánuði í trausti þess að geta notið ávinningsins síðar. Fljótlega eftir að kærandi hafi byrjað á ellilífeyri hafi hann séð að ekki væri allt með felldu með útreikning Tryggingastofnunar og því hafi hann óskað eftir skýringum á aðferðum stofnunarinnar við útreikning á skerðingum vegna tekna.

Gerð sé athugasemd við reikniaðferð Tryggingastofnunar sem feli í sér grófa mismunun. Þess sé óskað að þetta verði leiðrétt á þeirri forsendu að reglugerð sú sem Tryggingastofnun styðjist við standist ekki lög. Einnig sé farið fram á að fá endurgreitt það sem hafi verið ranglega dregið af ellilífeyri kæranda.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé útreikningur á hækkun vegna frestunar á töku ellilífeyris.

Kærandi hafi í tölvubréfi 15. desember 2020 óskað eftir að fá sundurliðun á útreikningum skerðinga á ellilífeyri vegna ársins 2020. Kæranda hafi verið svarað í tölvupósti 22. desember 2020 og aftur í tölvupósti 12. janúar 2021 eftir að kærandi hafi óskaði eftir skriflegum rökstuðningi fyrir þeim heimildum sem liggi að baki aðferðum sem notaðar séu við útreikning skerðinga á frestunarálagi ellilífeyris.

Í 2. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um að heimilt sé að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins, sbr. 3. mgr. 23. gr. Heimildin sé bundin því skilyrði að viðkomandi hafi ekki fengið greiddan ellilífeyri frá almannatryggingum eða skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. þó 4. mgr. Umsækjanda skuli þó vera heimilt að draga umsókn sína til baka innan 30 daga frá afgreiðslu umsóknar, án þess að það hafi áhrif á rétt til hækkunar lífeyris. Hafi greiðsla lífeyris átt sér stað sé full endurgreiðsla forsenda afturköllunar.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar segi að eftir að greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar hafi verið reiknaðar út skuli hækka fjárhæð ellilífeyrisins samkvæmt tryggingafræðilegum forsendum fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hafi verið frestað samkvæmt 1. gr. reglugerðar þessarar. Á sama hátt skuli lækka fjárhæð ellilífeyris fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hafi verið flýtt samkvæmt 2. gr. reglugerðar þessarar.

Í bráðabirgðaákvæði nr. 19 í lögum um almannatryggingar segi að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 17. gr. gildi heimild til að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs aðeins um þá sem fæddir séu árið 1952 eða síðar. Þeir sem fæddir séu árið 1951 eða fyrr hafi heimild til að fresta töku ellilífeyris til 72 ára aldurs samkvæmt þeim reglum sem hafi verið í gildi fram að gildistöku laga þessara.

Kærandi hafi þann 1. apríl 2020 hafið töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun og hafi þá fengið 29,5% hækkun á lífeyrinn vegna frestunar á töku hans. Kærandi hafi orðið 67 ára í apríl 2015 og hafi því frestað töku lífeyris um 59 mánuði.

Í dag sé fjallað um frestun á töku lífeyris í 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, en því ákvæði hafi verið breytt með lögum nr. 116/2016 sem hafi tekið gildi 1. janúar 2017. Þar segi að heimilt sé að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins. Í bráðabirgðaákvæði nr. 19, sem hafi komið inn með lögum nr. 116/2016, segi að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 17. gr. gildi heimild til að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs aðeins um þá sem fæddir séu árið 1952 eða síðar. Þeir sem séu fæddir árið 1951 eða fyrr hafi heimild til að fresta töku ellilífeyris til 72 ára aldurs samkvæmt þeim reglum sem hafi verið í gildi fram að gildistöku laga þessara.

Kærandi sé fæddur 1948 og því sé ljóst að heimild núgildandi 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar um frestun töku lífeyris til allt að 80 ára aldurs eigi ekki við um hann. Það beri að reikna hækkun vegna frestunar töku ellilífeyris kæranda í samræmi við ákvæði laga um almannatryggingar eins og þau hafi verið fyrir breytingu sem hafi tekið gildi 1. janúar 2017 með lögum nr. 116/2016.

Samkvæmt þágildandi lögum um almannatryggingar hafi verið heimilt að fresta töku lífeyris til 72 ára aldurs, sbr. 1. mgr. 23. gr. laganna. Eftirfarandi hafi komið síðan fram í 2. mgr. 23. gr.: „Eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út skal hækka ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót, sbr. 17. og 22. gr. laga þessara og 8. gr. laga umfélagslega aðstoð, um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%.“

Kærandi hafi því fengið 0,5% hækkun fyrir hvern frestunarmánuð eða samtals 29,5% hækkun sem samkvæmt ákvæðinu reiknist eftir að bótaréttur kæranda hafi verið reiknaður út. Það þýði að lífeyrir kæranda sé hækkaður um 29,5% eftir að búið sé að gera ráð fyrir öllum skerðingum vegna tekna.

Sú reikniregla, sem komi fram í ákvæði 2. mgr. 23. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, eigi því ennþá við um kæranda vegna útreiknings á hækkun vegna frestunar á töku lífeyris, þ.e. lífeyrir kæranda sé hækkaður um 29,5% eftir að búið sé að gera ráð fyrir öllum skerðingum vegna tekna. Tryggingastofnun fari því eftir skýrum lagafyrirmælum og lagaákvæðum sem eigi við um kæranda.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um útreikning á hækkun vegna frestunar á töku lífeyris kæranda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar útreikning á hækkun greiðslna vegna frestunar á töku ellilífeyris.

Kærandi varð 67 ára í apríl 2015 og frestaði töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins þar til 1. apríl 2020 og fékk hann þá 29,5% hækkun á lífeyrinn vegna frestunar um 59 mánuði. Þegar kærandi frestaði töku ellilífeyris var 23. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar svohljóðandi:

„Þeir sem eiga rétt á ellilífeyri skv. 17. gr. en hafa ekki lagt inn umsókn eða fengið greiddan ellilífeyri geta frestað töku lífeyris til 72 ára aldurs. Frestunin tekur til bóta skv. 17., 20. og 22. gr.

Eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út skal hækka ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót, sbr. 17. og 22. gr. laga þessara og 8. gr. laga um félagslega aðstoð, um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%.

Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.”

Með lögum nr. 116/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, var framangreindu ákvæði 23. gr. laga um almannatryggingar breytt. Í 2. og 4. málsgrein ákvæðisins er annars vegar fjallað um frestun á töku ellilífeyris og hins vegar heimild til að setja reglugerð. Ákvæðin eru svohljóðandi:

„Hafi töku ellilífeyris verið frestað, sbr. 2. mgr. 17. gr., skal fjárhæð ellilífeyris hækka hlutfallslega til frambúðar, byggt á tryggingafræðilegum grunni, reiknað frá ellilífeyrisaldri skv. 17. gr. fram til þess tíma er taka lífeyris hefst.

Ráðherra skal setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessarar greinar, m.a. um breytingar á hlutfalli vegna frestunar eða flýttrar töku lífeyris sem byggjast skulu á tryggingafræðilegum forsendum.“

Með heimild í 70. gr., sbr. 7. mgr. 17. gr. og 5. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar, sbr. einnig 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007, var sett reglugerð nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar.

Með lögum nr. 116/2016 var sett ákvæði til bráðabirgða í lög um almannatryggingar, sbr. ákvæði nr. 19, sem er svohljóðandi:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 17. gr. gildir heimild til að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs aðeins um þá sem fæddir eru árið 1952 eða síðar. Þeir sem fæddir eru árið 1951 eða fyrr hafa heimild til að fresta töku ellilífeyris til 72 ára aldurs samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi fram að gildistöku laga þessara.“

Kærandi er fæddur árið 1948 og því er ljóst að heimild núgildandi 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar um frestun töku lífeyris til allt að 80 ára aldurs á ekki við um hann. Það ber því að reikna hækkun vegna frestunar töku ellilífeyris í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar eins og það var fyrir breytingu sem tók gildi 1. janúar 2017 með lögum nr. 116/2016. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 23. gr. laganna skulu umræddur bætur hækka um 0,5% fyrir hvern frestmánuð eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út. Í því felst að lífeyrir kæranda skal hækkaður eftir að búið er að gera ráð fyrir öllum skerðingum vegna tekna. Kærandi frestaði töku lífeyris um 59 mánuði og á því rétt á 29,5% hækkun. Með hliðsjón af framangreindu gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemdir við hvernig Tryggingastofnun hefur staðið að útreikningi á hækkun greiðslna vegna frestunar á töku lífeyris í tilviki kæranda. 

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum vegna frestunar á töku ellilífeyris.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á hækkun greiðslna vegna frestunar A á töku ellilífeyris, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum