Hoppa yfir valmynd
20. mars 2013 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra tilkynnir um smíði fyrsta sérútbúna skipsins til að þjónusta olíuleit

Utanríkisráðherra og Steingrímur Erlingsson.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tilkynnti í dag á opnum fundi í Fosnavaag í Noregi um samning um smíði fyrsta sérútbúna íslenska skipsins til að þjónusta olíuleit og eftir atvikum vinnslu á hafsvæðunum norður og austur af Íslandi. Skipið er hið dýrasta sem keypt hefur verið af íslensku fyrirtæki en kostnaðurinn nemur um 7,3 milljörðum íslenskra króna. Stefnt er að afhendingu skipsins til íslensku eigendanna, Fáfnis Offshore ehf., í júlí á næsta ári.

Utanríkisráðherra sagði Íslendinga reiðubúna að takast á við þau  tækifæri og áskoranir sem felist í breytingum á norðurslóðum og opnun hafsvæða þar „Ég fagna því frumkvæði sem Fáfnir Offshore sýnir og tel að smíði fyrsta íslenska skipsins til að þjónusta olíuleit marki tímamót í iðnaðarsögu okkar Íslendinga. Fyrstu leyfin til olíuleitar hafa verið gefin út og ég er sannfærður um þetta skip mun vera upphafið að happasælli nýrri atvinnugrein; þjónustu við olíuleit- og vinnslu.”

Skipið er sérstaklega byggt og styrkt fyrir aðstæður í Norður-Íshafi. Það er 88,5 metrar að lengd og 17,6 metra breitt. Á því verður m.a. þyrlupallur og sérstakur eldvarnar- og hreinsibúnaður ef óhapp verður. 

Aðaleigandi Fáfnis er Steingrímur Erlingsson en hann hefur starfað og fjárfest í sjávarútvegi í yfir tuttugu ár, m.a. í Kanada.

Heimahöfn skipsins á Íslandi verður í Fjarðabyggð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum