Hoppa yfir valmynd
28. október 2004 Utanríkisráðuneytið

Öryggisráðið beiti sér fyrir aukinni þátttöku kvenna í friðaruppbyggingu

Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, ávarpaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á opnum fundi þess um ályktun öryggisráðsins nr. 1325 (2000) um konur, frið og öryggi, 28. október sl.

Ályktunin mælir fyrir um að öryggisráðið skuli beita sér markvisst fyrir aukinni þátttöku kvenna í að koma í veg fyrir vopnuð átök, í friðarferli og friðaruppbyggingu að loknum vopnuðum átökum. Umræða öryggisráðsins um ályktunina nú var tileinkuð ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Fastafulltrúi sagði m.a. að samþykkt ályktunar 1325 (2000) hafi reynst afar mikilvægt skref til aukinnar þátttöku kvenna í friðarferli. Nú þegar hafi hún komið til framkvæmda að hluta, en ennþá sé töluvert starf óunnið.

Þá fjallaði fastafulltrúi um erfiða og viðkvæma stöðu kvenna og stúlkna á átakatímum, sem krefjist þess að sérstakar ráðstafanir verði gerðar þeim til verndar. Mikilvægt sé að bregðast skjótt við vísbendingum um slíkt ofbeldi. Hann lagði áherslu á skyldu ríkja til þess að draga til ábyrgðar þá sem brjóta gegn fólki með þessum hætti, en sagði jafnframt að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn og stríðsglæpadómstólar hefðu mjög þýðingarmiklu hlutverki að gegna þegar ríki bregðist þeim skyldum sínum. Þá lýsti fastafulltrúi áhyggjum íslenskra stjórnvalda af fregnum um kynferðislega misnotkun af hálfu friðargæsluliða á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Hann sagði að lokum að Ísland hefði haft sérfræðing í jafnréttismálum starfandi hjá UNIFEM í Kósóvó frá árinu 2000. Jafnframt hefðu þau styrkt landsnefnd UNIFEM á Íslandi til að halda ráðstefnu í Reykjavík á síðasta ári um konur, stríð og frið þar sem Elisabeth Rehn, fyrrum varnarmálaráðherra Finnlands og síðar aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefði flutt ávarp.


Ræða fastafulltrúa fylgir hjálagt

.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum