Hoppa yfir valmynd
27. mars 2025 Forsætisráðuneytið

1263/2025. Úrskurður frá 27. mars 2025

Hinn 27. mars 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1263/2025 í máli ÚNU 25020010.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 16. febrúar 2025, kærði […] ákvörð­un Ríkisútvarpsins ohf. að synja honum um aðgang að gögnum.
 
Með erindi til Ríkisútvarpsins, dags. 7. febrúar 2025, óskaði kærandi eftir ákveðnum upplýsing­um um tekjur félagsins. Erindinu var svarað 13. febrúar 2025 og kæranda afhent sundurliðun á tekjum félagsins árin 2022 og 2023. Tilgreint var að aðrar tekjur en af almannaþjónustu og samkeppnis­rekstri hefðu numið um 25 milljónum kr. árið 2022 og 75 milljónum kr. árið 2023. Að stærstum hluta væri um að ræða tilfallandi styrki af ýmsu tagi en á árinu 2023 hefðu einnig verið tekjufærðar tjóns­bæt­ur sem ekki féllu undir almannaþjónustu eða samkeppnisrekstur. Kærandi brást við svar­inu samdæg­urs og óskaði eftir sundurliðun á öðrum tekjum en af almannaþjónustu fyrir árin 2022 og 2023, þ.e. þeim 25 og 75 milljónum kr. sem tilgreindar væru í svarinu, þar sem nafn greiðanda kæmi fram. Í svari Ríkisútvarpsins daginn eftir kom fram að ekki væri unnt að senda slíka sundur­lið­un niður á einstakar færslur og greiðendur úr bókhaldi félagsins.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Ríkisútvarpinu með erindi, dags. 17. febrúar 2025, og félaginu gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að félagið afhenti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál þau gögn sem kær­an varðar. Að beiðni Ríkisútvarpsins féllst úrskurðarnefndin á að framlengja frest til að bregðast við erindinu til 11. mars.
 
Umsögn Ríkisútvarpsins barst úrskurðarnefndinni 10. mars 2025. Í umsögn­inni kemur fram að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Sú sundurliðun sem kær­andi óski eftir sé ekki til sem samantekt eða gagn heldur sé um að ræða upplýsingar sem einungis séu aðgengilegar með verulegri vinnu upp úr grunngögnum í bókhaldi félagsins. Þannig megi sem dæmi nefna að árlega tekjufæri félagið styrki sem geti hafa verið greiddir fyrir nokkrum árum en reikningshaldslega séu þeir ekki tekjufærðir fyrr en kostnaður fellur til, t.d. við gerð myndefnis. Í slíkum tilvikum þyrfti að rekja uppruna hverrar færslu í bókhaldi til styrkveitanda. Félagið þyrfti þar af leiðandi að útbúa slíkt gagn eða gögn, eftir því sem hægt væri, með því að vinna þau úr bók­haldsgögnum og/eða eftir atvikum málaskrám.
 
Umsögn Ríkisútvarpsins var kynnt kæranda með erindi, dags. 12. mars 2025, og honum gefinn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Þær bárust 26. mars 2025. Í þeim er vís­að til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, þar sem segi að félagið eigi að stuðla að lýðræðislegri umræðu, ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dag­skrár­gerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast og vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeð­ferð og ritstjórnarákvörðunum. Kærandi segir að taki Ríkisútvarpið við styrkjum frá hags­muna­aðil­um verði ekki með góðu móti séð hvernig óhæði félagsins í dagskrárgerð sé hafið yfir vafa. Í raun ætti það að vera sérstakt kappsmál að eyða mögulegri tortryggni í garð dagskrárgerðar félags­ins með því að birta lista yfir styrkveitendur þess.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að sundurliðun á öðrum tekjum Ríkisútvarpsins ohf. en af al­mannaþjónustu fyrir árin 2022 og 2023, þar sem nafn greiðanda komi fram. Ríkisútvarpið kveður að ekki liggi fyrir gagn með þeirri sundurliðun sem kærandi óski eftir og að félaginu sé samkvæmt upplýsingalögum óskylt að útbúa slíkt gagn í tilefni af beiðni kæranda.
 
Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í beiðni kæranda sem hin kærða ákvörðun varðar, að hann óski eftir gagni sem inni­haldi framangreinda sundur­liðun tekna, þ.e. gagn sem innihaldi sundur­liðun á þeim 25 og 75 milljónum kr. sem tilgreindar voru í svari Ríkisútvarpsins til kæranda frá 13. febrúar, þar sem nafn greiðanda komi fram, og tekur eftirfarandi niðurstaða mið af því.
 
Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er mælt fyrir um að upplýsingaréttur almennings nái til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Í athugasemdum við 5. gr. í greinargerð með frum­varpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að skilyrði þess að gagn sé undirorpið upplýsingarétti sé að það liggi fyrir hjá þeim sem fær beiðni um aðgang til afgreiðslu. Þá segir enn fremur að réttur til aðgangs að gögnum nái þannig aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.
 
Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa þá fullyrðingu Ríkisútvarpsins að tiltekið gagn með um­beðnum upplýsingum sé ekki fyrirliggjandi hjá félaginu. Þá er ljóst að ekki væri unnt að kalla fram gagn með þeim upplýsingum sem óskað er eftir með tiltölulega einföldum hætti, svo sem með nokkr­um einföldum skip­unum í gagnagrunni, heldur þyrfti að sögn félagsins að ráðast í vinnu sem væri meiri að umfangi en sem því nemur. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga þær skýringar í efa. Að því virtu og með vísan til 1. mgr. 5. gr. upp­lýs­inga­laga verður lagt til grundvallar að gagn með umbeðnum upplýsingum liggi ekki fyrir hjá Ríkisútvarpinu.
 
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum sam­kvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þar sem gagn með umbeðnum upplýsingum liggur ekki fyrir hjá Ríkisútvarpinu er ljóst að ekki er um að ræða synjun beiðni um afhendingu gagna í skiln­ingi 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga. Verður því staðfest hin kærða ákvörðun Ríkisútvarps­ins.
 
 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf., dags. 14. febrúar 2025, að synja beiðni kæranda, […], um aðgang að sundurliðun á öðrum tekjum Ríkisútvarpsins en af almanna­þjón­ustu fyrir árin 2022 og 2023.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta