Hoppa yfir valmynd
9. júní 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sameiginlegt flugsvæði í Evrópu

Ísland hefur gerst aðili að nýjum samningi um sameiginlegt flugsvæði í Evrópu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undirritaði samninginn í dag í Lúxemborg en hann er grundvallaður á gagnkvæmum aðgangi að mörkuðum aðildarlandanna.

Aðild að samningnum eiga Ísland, Noregur, Albanía, Bosnía Hersegóvína, Búlgaría, Króatía, Makedónía, Serbía og Svartfjallaland, Rúmenía, borgaraleg stjórnsýsla Sameinuðu þjóðanna í Kosovo og aðildarlönd Evrópubandalagsins.

Með samningnum verður komið á flugsvæði sem byggist á frjálsum markaðsaðgangi, jöfnum samkeppnisskilyrðum og sameiginlegum reglum er lúta að flugöryggi, flugvernd, flugleiðsöguþjónustu, umhverfismálum og félagslegum þáttum. Samningurinn gildir jafnt um aðgang flugfélaga á Íslandi að flugmörkuðum á Evrópska efnahagssvæðinu sem og um reglur um flugvernd, flugöryggi og samkepnisreglur á sviði flugmála. Einnig tekur samningurinn til samskipta Íslands við aðildarríki hans í austanverðri Evrópu, þ.e. ríki sem ekki eru aðilar að EES samningnum og Ísland hefur ekki loftferðasamninga við. Samningurinn kemur til með að taka gildi í áföngum gagnvart þeim ríkjum sem ekki hafa innleitt tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins er lúta að flugsamgöngum.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir þennan samning geta skapað mikil tækifæri í flugmálum aðildarlandanna en samningurinn tekur alls til 35 ríkja. Hann kveðst binda vonir við að samningurinn muni enn auka á möguleika íslenskra flugrekenda til útrásar og styrkja þar með rekstrargrundvöll flugfélaga og ferðaþjónustu á Íslandi. Jacques Barrot, framkvæmdastjóri samgöngumála hjá Evrópubandalaginu, sagði undirritun samningsins vera sögulega stund sem ætti sér ekki fordæmi og myndi hafa í för með sér aukið flugöryggi.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira