Hoppa yfir valmynd
20. desember 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hægt verði að greiða með kreditkortum hjá öllum ríkisstofnunum

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að fela fjármála- og efnahagsráðherra að gefa út tilmæli til allra ríkisaðila um að taka við greiðslum með kreditkortum. Með þessu batnar þjónusta við almenning og mögulegt verður að taka við greiðslum með sambærilegum hætti og almenningur þekkir í samskiptum við aðra þjónustuveitendur. Meðal þess sem verður skoðað er möguleiki á að greiða með kreditkortum hjá sýslumanni fyrir útgáfu vegabréfa.

Er þetta í anda markmiða úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um bættan rekstur ríkisins og einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Stefnt er að öflugri rafrænni stjórnsýslu og fjölbreyttum möguleikum á sjálfsafgreiðslu fyrir almenning, m.a. á miðlægu þjónustugáttinni Ísland.is.

Í samræmi við framangreint hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið, í samstarfi við embætti tollstjóra og Fjársýslu ríkisins, skoðað notkun kreditkorta fyrir greiðslu skatta og gjalda á vegum hins opinbera. Margar opinberar stofnanir taka við kreditkortum en t.a.m. sýslumannsembættin gera það ekki. Ýmis umbótaverkefni sem unnið er að og munu auka framboð af stafrænni þjónustu hins opinbera, til að mynda rafrænar þinglýsingar og leyfisveitingar, krefjast þess að hægt sé að greiða fyrir þjónustu með rafrænum hætti.

Á næstunni verður framkvæmd frumathugun á hagkvæmni sameiginlegs útboðs vegna greiðslumiðlunar fyrir ríkissjóð og ríkisaðila.

Markmið um bætta þjónustu á Ísland.is

Á vettvangi verkefnastofunnar Stafræns Íslands er unnið að því að öll samskipti við ráðuneyti, stofnanir ríkisins og sveitarfélög verði á einum stað í sérstöku pósthólfi inn á island.is sem verður aðgangsstýrt með rafrænum skilríkjum.

Eitt þeirra verkefna sem verkefnastofan vinnur að um þessar mundir er innleiðing greiðslu- og kröfuhluta Birtingakerfis Greiðsluveitunnar hjá hinu opinbera. Birtingakerfi Greiðsluveitunnar er þjónustukerfi tengt greiðslumiðlun og er nýtt í þágu þátttakenda og viðskiptavina þeirra til rafrænnar birtingar á skjölum í netbönkum. Innleiðing Birtingakerfisins yrði í samræmi við sett markmið ríkis um bætta stafræna opinbera þjónustu við almenning á vefnum island.is og að fyrir árið 2020 verði þjónustuleiðum gegnum stafræn samskipti fjölgað svo um munar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum