Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frestur fyrirtækja og stofnana til að öðlast jafnlaunavottun framlengdur um 12 mánuði

Jafnlaunamerkið, sem er vinningstillaga Sæþórs Arnars Ásmundssonar - mynd

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið að framlengja um 12 mánuði frest fyrirtækja og stofnana til að öðlast jafnlaunavottun samkvæmt ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Framlengingin tekur til fyrirtækja og stofnana, óháð stærð þeirra. Reglugerð ráðherra þessa efnis tók gildi í dag.

Reglugerðin felur í sér viðbótarákvæði við reglugerð nr. 1030/2017 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85. Með ákvörðun sinni nýtir ráðherra heimild sína til frestunar sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði VI samkvæmt breytingu á fyrrnefndum lögum sem samþykkt var á Alþingi 1. júní 2017.

 

Framlengdur frestur nær þó ekki til allra

Aukinn frestur samkvæmt ákvörðun ráðherra nær ekki til opinberra stofnana, sjóða og fyrirtækja sem eru að hálfu eða að meiri hluta í eigu ríkisins með 25 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli. Framantaldir aðilar skulu hafa öðlast vottun á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, eða staðfestingu samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar, eigi síðar en 31. desember 2019.

Aukinn frestur nær heldur ekki til Stjórnarráðs Íslands sem skal hafa öðlast vottun eða staðfestingu á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess samkvæmt lögum, eigi síðar en 31. desember 2018.

Ákvörðun ráðherra um aukinn frest, líkt og kveðið er á um í reglugerðinni sem tók gildi í dag var unnið í samráði við helstu hagsmunaaðila.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum