Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2011 Dómsmálaráðuneytið

Fimmtíu ára afmælisráðstefna embættis ríkissaksóknara

Embætti ríkissaksóknara fagnar í dag 50 ára afmæli og var Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra meðal ræðumanna á afmælisráðstefnu embættisins. Fjallað var á ráðstefnunni um þróun ákæruvaldsins, norrænt samstarf og stjórnarskrána.

Frá afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara
Frá afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara

Í ræðu sinni sagði innanríkisráðherra meðal annars að þjóðfélagið allt væri á hreyfingu og á öllum sviðum yrði það sífellt flóknara og krefðist endurmats og aukinnar sérfræðiþekkingar, einnig á sviði réttarfars. Hann sagði landið öfgafullt dæmi um örar og ágengar breytingar.

Ráðherra sagði lýðræðislegt vald búa við stöðugan þrýsting af hálfu hagsmuna stórfyrirtækja og sterkra hagsmunahópa og sagði ófyrirsjáanlegar afleiðingar fordæmisgefandi dóma hafa haft æ róttækari áhrif á sjálfa samfélagsgerðina. Síðan sagði ráðherrann:

Lýðræðið dregið í efa

,,Ég minnist þess að þegar þjónustutilskipun Evrópusambandsins (Social service directive)  var samþykkt fyrir fáeinum árum eftir áralangt tog á milli félagshyggjufólks og frjálshyggjumanna þá fögnuðu báðar fylkingar sigri því báðar höfðu þær fundið syllu til að standa á í málaferlum framtíðarinnar um túlkun tilskipunarinnar. Á þennan heim erum við Íslendingar minntir þessa dagana þegar fulltrúar Efta-dómstólsins segja okkur nú í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum að til standi að dómstóllinn kanni hvort það standist lög og regluverk hins Evrópska efnahagssvæðis að almeninngur sem á orkufyrirtækin á Íslandi hefði haft rétt á því að veita fjármagni úr opinberum sjóðum inn í fyrirtæki sín. Áhöld séu um að þetta standist markaðslögmál Evrópusambandsins! Lýðræðið – vilji almennings – er þannig dreginn í efa. Ég spyr: Hvert erum við eiginlega að halda?” sagði ráðherrann.

Frá afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara

Hann vék síðan að embætti ríkissaksóknara og sagði það ekki hafa farið varhluta af hræringum undangenginna ára og missera. ,,Við höfum þurft að endurskoða og endurskipuleggja ýmsa þætti og nú síðast vegna mögulegra fjármálamisferla sem komið hafa til rannsóknar í kjölfar hruns fjármálakerfisins og grunsemda um misferli í tenglsum við það.” Síðan ræddi hann embætti sérstaks saksóknara og þær breytingar sem eru framundan með því að færa verkefni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til embættis sérstaks saksóknara.

Frá afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara

Aðrir ræðumenn á ráðstefnunni voru Eiríkur Tómasson lagaprófessor sem fjallaði um þróun ákæruvaldsins og framtíðarhorfur, Norman Aas, ríkissaksóknari Eistlands, ræddi um ákæruvald fyrir og eftir sjálfstæði landsins, Tor-Aksel Busch, ríkissaksóknari Noregs, talaði um gildi norræns samstarfs ákæruvalds og Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ og fulltrúi í stjórnlagaráði, ræddi um ákæruvaldið og stjórnarskrána. Í lok fundar voru síðan pallborðsumræður.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum