Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 67/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 67/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110021

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. desember 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. nóvember 2018, um að afturkalla dvalarleyfi kæranda með vísan til 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara með gildistíma frá 22. mars 2018 til 27. febrúar 2019. Þann [...] 2018 var skráð í Þjóðskrá Íslands að kærandi og maki hans væru hjón ekki í samvistum og breyting á lögheimili kæranda, sem er nú annað en lögheimili maka hans. Þann 9. október 2018 sendi Útlendingastofnun kæranda bréf um hugsanlega afturköllun dvalarleyfis þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði um fasta búsetu með maka sínum skv. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Greinargerð frá kæranda barst stofnuninni þann 7. nóvember 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 28. nóvember 2018 var dvalarleyfi kæranda afturkallað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 4. desember sl. Þann 10. desember 2018 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en kæru fylgdu athugasemdir.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefði kæranda verið gert að sæta [...] gagnvart eiginkonu sinni í tvær vikur frá og með 19. júní 2018 og væri málið til meðferðar hjá lögreglunni.

Vísaði stofnunin til þess að ákvæði 59. gr. laga um útlendinga heimili stofnuninni að afturkalla dvalarleyfi sé skilyrðum fyrir veitingu leyfisins ekki lengur fullnægt. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laganna væri heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hygðist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Samkvæmt 7. mgr. ákvæðisins skuli makar og sambúðarmakar hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili en heimilt sé að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður séu fyrir hendi og vísaði stofnunin til lögskýringargagna með ákvæðinu. Ljóst væri að kærandi og maki hans væru skráð í Þjóðskrá Íslands sem hjón ekki í samvistum. Því væri ljóst að kærandi og maki hans hefðu ekki fasta búsetu í samræmi við ákvæði laga um lögheimili. Að mati stofnunarinnar væru ekki fyrir hendi sérstakar tímabundnar ástæður í skilningi 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og bæri að skýra þá undanþágu þröngt. Einnig lægi fyrir í málinu að sú ráðstöfun sem um ræddi hefði varað síðan í júní 2018. Væru forsendur fyrir leyfisveitingu kæranda hinn 22. mars 2018 því brostnar og var ákvörðun Útlendingastofnunar sú að afturkalla dvalarleyfi hans.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til þess að hann sé giftur íslenskum ríkisborgara. Þá liggi fyrir afrit af ráðningarsamningum. Hann sé því fullfær um að framfleyta sjálfum sér og sé sjúkratryggður hér á landi. Að öðru leyti vísar kærandi til þeirra gagna sem hann hafi lagt fram í málinu, þ.m.t. bréfs til Útlendingastofnunar, dags. 5. nóvember 2018. Í bréfinu kemur m.a. fram að ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga sé heimildarákvæði og verði því að meta hverju sinni í ljósi aðstæðna hvort heimildinni sé beitt. Þá beri sérstaklega að gæta meðalhófs. Þá sé einnig að finna heimild til að falla frá ákvæði um sameiginlegt lögheimili maka og sambúðarmaka skv. 7. mgr. 70. gr. laganna sé um tímabundnar ástæður fyrir hendi. Kærandi og maki hans hafi haldið sameiginlegt heimili þar til [...] 2018. Sé það von kæranda að um tímabundið ástand sé að ræða og sé rétt og eðlilegt að hann fái svigrúm til að vinna úr því ástandi gagnvart eiginkonu sinni.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 7. mgr. 70. gr. laganna kemur fram að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi.

Í athugasemdum við 7. mgr. 70. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að í ákvæðinu sé það skilyrði sett að hjón þurfi að búa saman og skuli halda saman heimili. Borið hafi á því að umsækjendur búi ekki saman en segist eigi að síður vera í hjúskap. Í sumum tilvikum geti það verið eðlilegt vegna atvinnu annars eða beggja hjóna. Þegar slíkt sé uppi sé heimilt að veita undanþágu frá því að hjón eða sambúðaraðilar búi saman ef einungis um tímabundið ástand sé að ræða, t.d. vegna náms eða vinnu. Undanþáguna skuli túlka þröngt líkt og aðrar undanþágur og eigi hún ekki við um tilvik þar sem aðstandandi hér á landi sæti eða muni sæta fangelsisrefsingu.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun m.a. heimilt að afturkalla dvalarleyfi útlendings ef ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis.

Samkvæmt gögnum málsins var þann [...] 2018 skráð í Þjóðskrá Íslands að kærandi og maki hans væru hjón ekki í samvistum og breyting gerð á lögheimili kæranda frá sameiginlegu heimili hans og maka. Kærunefnd tekur fram að umrædd breyting var gerð á skráningu lögheimilis í gildistíð eldri laga um lögheimili, nr. 21/1991. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð kæranda hafa kærandi og maki hans ekki haldið sameiginlegt heimili síðan [...] 2018. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um að hann skuli hafa fasta búsetu á sama stað og maki sinn, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Eins og áður er rakið er þó heimilt að víkja frá ákvæðinu ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi og maki hans hafi slitið samvistum. Að mati kærunefndar leiðir af eðli dvalarleyfa á grundvelli hjúskapar og fyrrnefndum athugasemdum við 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga að ekki er unnt að veita undanþágu frá skilyrði ákvæðisins um að hjón hafi fasta búsetu á sama stað þegar um samvistarslit er að ræða.

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki lengur skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar og er því heimilt að afturkalla leyfið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framansögðu er ákvörðun Útlendingastofnunar um afturköllun dvalarleyfis kæranda staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                     Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum