Hoppa yfir valmynd
28. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgengi allra að bólusetningu er mikilvægt

Aðgengi allra að bólusetningu er mikilvægt - myndWHO / Christopher Black

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lagði áherslu á aðgengi allra að bóluefni í ávarpi sínu á 74. Alþjóðaheilbrigðisþinginu sem nú stendur yfir í Genf í Sviss.  „Jafnt aðgengi og dreifing á bóluefni gegn COVID-19 er Íslandi afar mikilvægt og við munum halda áfram að bæði tala fyrir og taka þátt í að fjármagna aðgengi og dreifingu á bóluefni. Árið 2020 studdi Ísland ACT-A hraðalinn (e. Access to COVID-19 Tools Accelerator) sem er alþjóðlegt samstarf til að flýta fyrir þróun, framleiðslu og jöfnum aðgangi að skimunarbúnaði, meðferðum og bóluefni gegn COVID-19, um tæpar 550 milljónir króna, með áherslu á bóluefnastoðina (COVAX). Við stefnum á að gera enn betur árið 2021,“ sagði ráðherra.

Hún sagði bólusetningu ganga vel á Íslandi og að stefnt sé að því að 75% þjóðarinnar hafi verið bólusett í byrjun júlí.

Efling WHO jákvæð

Svandís sagðist ánægð með þær tillögur sem hafi verið lagðar fyrir þingið og sagði Ísland styðja við eflingu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), þar með talið að  styrkja viðbúnað og viðbragðsáætlun við heilsuvá.  Þá fagnaði ráðherra áformum um fimm ára framkvæmdaáætlun um heilsueflandi vinnumarkað.

Hið árlega Alþjóðaheilbrigðisþing stendur yfir dagana 24. maí – 1. júní, 2021. Þingið er ákvörðunaraðili alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) en yfirskrift þess í ár er Endum faraldurinn og komum í veg fyrir þann næsta: Sköpum saman heilbrigðari, öruggari og jafnari heim.

Hægt er að fylgjast með þinginu í beinu streymi á vef stofnunarinnar: www.who.int

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum