Hoppa yfir valmynd
17. september 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 312/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 312/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060029

Beiðni [...] um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 28. maí 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 16. janúar 2020 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 8. júní 2020. Þann 18. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar sem og beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hans. Þann 1. júlí 2020 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust þann 14. september 2020.

Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar nr. 270/2020, dags. 27. júlí sl. Kærandi fer fram á endurupptöku í máli hans á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik og að atvik í málinu séu verulega breytt.

Kærandi byggir beiðni sína m.a. á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi við töku ákvörðunar um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hvorki fylgt ákvæðum laga um útlendinga nr. 80/2016 né ákvæðum stjórnsýslulaga, einkum rannsóknarreglu 10. gr. síðarnefndra laga. Þá byggir kærandi á því að hann hafi ekki fengið þá réttarvernd sem tryggð sé samkvæmt 9. gr., 11. gr. og 12. gr. sömu laga. Auk þess byggir kærandi á því, með vísan til heildarmats á almennum aðstæðum í Palestínu og einstaklingsbundnum aðstæðum hans þar, að endursending hans til heimaríkis myndi leiða til brots gagnvart 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds telur kærandi að sú málsmeðferð sem að umsókn hans hafi fengið hafi ekki verið í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti.

Um brot stjórnvalda á rannsóknarreglunni byggir kærandi á því að ófullnægjandi mat á aðstæðum hans hafi leitt til þess að stjórnvöld hafi ranglega komist að því að hann sé jórdanskur ríkisborgari. Kærandi telur að stjórnvöld hafi ekki tekið tillit til stöðugs framburðar hans um að hann hafi misst jórdanskt ríkisfang sitt og greinargóðra skýringa vegna umsóknar hans um vegabréfsáritun hjá norska sendiráðinu í Jórdaníu. Þá gerir kærandi athugasemd við að hvorki Útlendingastofnun né kærunefnd hafi aflað upplýsinga um ríkisfang hans hjá palestínskum og/eða jórdönskum yfirvöldum. Leitað hafi verið upplýsinga í svokölluðu Visa Information System (VIS) og samband haft við norska sendiráðið í Jórdaníu en það geti ekki talist ígildi þess að leita til fyrrgreindra stjórnvalda. Rík sönnunarkrafa hafi verið lögð á kæranda og hafi hann gert allt sem í valdi hans hafi staðið til að afla gagna frá Jórdaníu og Palestínu til stuðnings framburði sínum. Hafi kærandi verið í góðri trú um að gögnin væri ófölsuð og mótmæli hann því staðhæfingu kærunefndar að hann hafi reynt að villa um fyrir stjórnvöldum í þeim tilgangi að hafa áhrif á úrlausn umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd.

Þá byggir kærandi á því að rannsókn Útlendingastofnunar á samfélagsmiðlinum Facebook geti ekki talist uppfylla rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. m.a. niðurstöðu Héraðsdóms í máli nr. E-3890/2019 frá 12. júní 2020. Einnig byggir kærandi á því að stjórnvöld hafi ekki getað byggt ákvarðanir sínar á viðtölum við hann hjá Útlendingastofnun þar sem að túlkunarörðugleikar hafi leitt til þess að margar spurningar hafi ekki komist til skila.

Hefði fullnægjandi mat á aðstæðum hans verið framkvæmt telur kærandi að stjórnvöld hefðu réttilega komist að þeirri niðurstöðu að hann sé ríkisfangslaus Palestínumaður sem hafi raunverulegan og ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur í heimaríki, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þá óskaði kærandi eftir því, með tölvupósti dags. 3. júlí 2020, að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016. Kærandi telji að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt, enda hafi meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd staðið yfir í tæpa 18 mánuði.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 28. maí 2020 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda 8. júní 2020. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda kemur fram að nefndin hafi byggt á því að kærandi væri jórdanskur ríkisborgari. Var það mat að miklu leyti byggt á gögnum sem nefndinni barst frá norska sendiráðinu í Jórdaníu. Af þeim gögnum má sjá að kærandi hafi, við nýlega umsókn um vegabréfsáritun til Íslands, borið því við að vera jórdanskur ríkisborgari sem hafi verið búsettur í Amman borg ásamt fjölskyldu sinni. Því til stuðnings hafi kærandi m.a. lagt fram jórdanskt vegabréf, jórdanskt ökuskírteini, vottorð um að hann eigi íbúð og bifreið í Jórdaníu og upplýsingar af jórdönskum bankareikningi. Að teknu tilliti til framangreindra gagna taldi kærunefnd ekki ástæðu til þess að óska eftir upplýsingum frá jórdönskum og/eða palestínskum stjórnvöldum um ríkisfang kæranda. Í úrskurðinum kemur jafnframt fram að kærunefnd hafi metið frásögn kæranda um að jórdanskur ríkisborgararéttur hans hafi verið afturkallaður ótrúverðuga með öllu og var hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Var það mat að miklu leyti byggt á villandi upplýsingagjöf til stjórnvalda og skorts á trúverðugum gögnum til stuðnings frásagnar kæranda.

Í greinargerð sinni vísar kærandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3890/2019 frá 12. júní 2020 þar sem dómari taldi að kærunefnd hefði átt að afla upplýsinga hjá heimaríki aðila um ríkisfang hans. Kærunefnd telur aðstæður þess máls ólíkar því máli sem hér er til umfjöllunar. Í málinu sem áðurnefndur dómur tekur til lágu ekki fyrir gögn um ríkisfang aðila heldur réðist niðurstaða um ríkisfang á mati á trúverðugleika aðila og framburði hans í öðrum Evrópulöndum. Í þessu máli liggur hins vegar fyrir, líkt og að ofan er rakið, að kærandi er handhafi jórdansks vegabréfs. Þá hefur nefndum dómi verið áfrýjað til landsréttar. Af þessu leiðir að dómsmálið hefur því ekki þýðingu fyrir niðurstöðu beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar.

Við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar í máli kæranda lágu samkvæmt framangreindu fyrir gögn og upplýsingar sem sýndu fram á að kærandi væri ríkisborgari Jórdaníu. Þrátt fyrir það, og umfram þær lagaskyldur sem á nefndinni hvíla skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, óskaði kærunefnd eftir umboði frá kæranda þann 4. ágúst 2020 til að afla frekari upplýsinga og gagna um stöðu hans þar í landi. Undirritað umboð barst kærunefnd loks þann 12. ágúst sl. Þann 8. september sl. fékk kærunefnd upplýsingar frá jórdönskum yfirvöldum í gegnum tengilið í norska sendiráðinu í Jórdaníu, sent til Íslands í gegnum stoðdeild ríkislögreglustjóra. Í svarinu kemur fram að kærandi, [...], [...], sé jórdanskur ríkisborgari og handhafi palestínsks auðkennisskilríkis. Geti hann því ferðast aftur til beggja ríkja án vandræða.

Kæranda var gefinn kostur á að koma með athugasemdir um ofangreindar upplýsingar. Í athugasemdum kæranda, dags. 10. september sl., byggir kærandi enn á því hafa misst jórdanskt vegabréf sitt eftir að hafa fengið útgefið palestínskt vegabréf. Í því sambandi vísar kærandi til samskipta sem hann kveður vera við jórdönsk yfirvöld sem hann telji renna stoðum undir frásögn hans. Þá vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna, þ. á m. skýrslu Human Rights Watch, þar sem hann kveður að komi m.a. fram að jórdönsk yfirvöld hafi af geðþótta svipt aðila af palestínskum uppruna jórdönsku ríkisfangi. Með hliðsjón af tilvísuðum skýrslum, framlögðum gögnum og greinargerð telur kærandi að umrædd tölvupóstsamskipti milli fulltrúa stoðdeildar ríkislögreglustjóra og tengslafulltrúa í norska sendiráðinu í Jórdaníu um að hann sé með tvöfalt ríkisfang séu ótrúverðug. Þá telur kærandi að upplýsingaöflun á grundvelli ofangreinds umboðs hafi hvorki verið í samræmi við gildissvið umboðsins né 23. gr. laga um útlendinga. Jafnframt gagnrýnir kærandi að óskað hafi verið eftir upplýsingum um hvort hann geti ferðast til Palestínu í gegnum Jórdaníu, enda telji hann að brottvísun til Palestínu myndi brjóta í bága við 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga (e. secondary refoulement). Kærandi telji ljóst að hann eigi nú frekari hættu á að verða fyrir ómannúðlegri meðferð af hálfu jórdanskra yfirvalda, enda sé þeim kunnugt um að hann sé umsækjandi um alþjóðlega vernd hérlendis. Af þeim sökum hafi aðstæður kæranda hafi breyst og sé hann því sur place flóttamaður í samræmi við 96. gr. handbók Sameinuðu þjóðanna. Að lokum áréttar kærandi kröfu sína um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd telur skýringar kæranda ekki vera til þess fallnar að ofangreindar upplýsingar um jórdanskt ríkisfang hans verði dregnar í efa. Þá er þess að geta að skýrsla Human Rights Watch, sem kærandi vísar til í athugasemdum sínum, er dags. 1. febrúar 2010 og vísa aðrar tilvísaðar skýrslur í athugasemdum kæranda í þá skýrslu. Líkt og kemur fram í úrskurði kærunefndar frá 28. maí sl. benda nýlegri heimildir sem nefndin kynnti sér ekki til þess að sviptingar á ríkisborgararétti hafi beinst að almennum borgurum í Jórdaníu síðasta áratuginn. Vegna athugasemda kæranda við upplýsingaöflun í málinu bendir kærunefnd á að kærandi veitti heimild fyrir því að upplýsinga yrði aflað frá jórdönskum yfirvöldum um stöðu hans þar í landi. Þá liggur fyrir að lögreglu er heimilt, skv. 17. gr. laga um útlendinga, að miðla upplýsingum er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd til kærunefndar. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi kunni að eiga á hættu ofsóknir eða illa meðferð í heimaríki sínu vegna þeirra upplýsinga sem miðlað var til þarlendra yfirvalda á grundvelli heimildar kæranda.

Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram ýmis gögn, þ. á m. gagn þann 7. ágúst sl. sem hann kveður að sé endurrit af símtali sem hann hafi átt við tengslafulltrúa jórdanskra yfirvalda í Palestínu þann 1. júlí 2020. Í endurritinu kemur fram að fyrrgreindur tengslafulltrúi hafi greint kæranda frá því að jórdanskt ríkisfang hans verði afturkallað, snúi hann aftur til landsins með palestínskt vegabréf, enda heimili jórdönsk yfirvöld ekki tvöfalt ríkisfang ef um Arabíuríki er að ræða.

Kærunefnd telur að hin nýju gögn leggi ekki frekari grunn að málsástæðum kærandi eða gefi til kynna að þær upplýsingar sem nefndin byggði á þegar hún kvað upp úrskurð sinn þann 28. maí 2020 hafi verið ófullnægjandi eða rangar. Kærunefnd telur þvert á móti ljóst, að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna, þ. á m. nýtilkominna upplýsinga frá tengiliði í norska sendiráðinu í Jórdaníu, að umrætt endurrit byggist ekki á samtali við tengslafulltrúa Jórdaníu í Palestínu heldur sé útbúið af kæranda eða einhverjum á hans vegum í því skyni að reyna að villa um fyrir íslenskum stjórnvöldum. Í skjalinu koma m.a. fram fullyrðingar sem ekki standast og er skjalið afar ótrúverðugt að öðru leyti. Að mati kærunefndar hefði talsmanni kæranda mátt vera framangreint ljóst af lestri þess og öðrum gögnum málsins. Er það mat kærunefndar að eðlilegt sé að ætlast til að talsmenn útlendinga gangi úr skugga um að þau gögn sem lögð eru fram til kærunefndar eigi við einhver rök að styðjast og þeir taki ekki, með aðgæsluleysi sínu, þátt í að villa um fyrir íslenskum stjórnvöldum. Kærunefnd gerir því athugasemd við vinnubrögð talsmanns að þessu leyti.

Í greinargerð kæranda gætir einnig grundvallar misskilnings um þær réttarreglur sem heimild til endurupptöku byggir á. Kærunefnd hvetur talsmann kæranda til að halda sig við þær málsástæður sem máli skipta fyrir slíka beiðni en ekki endurtaka málsástæður sem kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til, án þess að leggja fram eða vísa til nýrra gagna.

Kærandi hefur einnig lagt fram gögn sem bera með sér að hann glími við vandamál í baki og kveðst kærandi þurfa á sjúkraþjálfun að halda. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að kærandi getur leitað sér aðstoðar í heimaríki vegna þessa.

Kærandi vísar jafnframt til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, en í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 2. janúar 2019 og var úrskurður kærunefndar í máli hans birtur honum þann 8. júní 2020. Kærandi fékk því endanlega niðurstöðu í máli sínu, hvað varðar umsókn hans um alþjóðlega vernd, á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 28. maí 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærunefnd að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í ríkinu, sem vísa á kæranda til, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins.

Samkvæmt framansögðu eru því ekki forsendur til að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum