Hoppa yfir valmynd
1. mars 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Áherslur í heilbrigðismálum og tiltekin forgangsverkefni

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur á grunni heilbrigðisstefnu til ársins 2030 ákveðið að setja nú þegar tiltekin verkefni í forgang þar sem þörf fyrir skýrar ákvarðanir og markvissar aðgerðir er mjög brýn. Ráðherra fjallar um þetta í blaðagrein í dag. Greinin er eftirfarandi: 

Heilbrigðismál snerta okkur öll og eru flestum hugleikin. Það er nauðsynlegt að framtíðarsýn og stefna stjórnvalda í jafn umfangsmiklum og mikilvægum málaflokki sé skýr til að tryggja hámarksgæði þjónustunnar og sem hagkvæmastan rekstur. Í upphafi þessa árs lagði ég fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd. Áhersla er lögð á  sjö grunnstoðir sem heilbrigðiskerfið byggist á og á við um alla heilbrigðisþjónustu sem veitt er. Þessar grunnstoðir lúta að stjórnun og forystu í heilbrigðiskerfinu, mikilvægi þess að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað, eflingu og uppbyggingu mannauðs, markvissum og hagkvæmum kaupum á heilbrigðisþjónustu, valdeflingu notenda, gæðakröfum til þjónustuveitenda og framtíðarsýn um menntun, vísindi og nýsköpun í heilbrigðiskerfinu.

Á grunni stefnunnar hef ég ákveðið að setja tiltekin verkefni í forgang nú þegar þar sem þörf fyrir skýrar ákvarðanir og markvissar aðgerðir er mjög brýn. Verkefnin eru:

Heilbrigðisþjónusta við aldraða, samhliða stórsókn í fjölgun hjúkrunarrýma verður lögð áhersla á markvissari heilbrigðisþjónustu við aldraða og aukið forvarnarstarf með heilsueflingu og endurhæfingu.

Þjónusta við fólk með heilabilun, vinna við stefnumótun á þessu sviði er hafin.

Áfengis- og fíkniefnamál  verða í forgangi með sérstakri áherslu á bætta þjónustu við ungt fólk með ávana og fíknisjúkdóma, meðal annars með stóraukinni aðkomu Landspítalans sem veiti börnum og ungmennum með neyslu- og fíknivanda, afeitrunarmeðferð, bráðameðferð og aðra tengda sjúkrahúsþjónustu. 

Innleiðing krabbameinsáætlunar, sem ætlað er að skerpa sýn, móta markmið og aðgerðir og stilla saman strengi allra hlutaðeigandi í baráttunni við krabbamein.

Uppbygging sjúkraflutninga, áhersla verður lögð á heildstætt skipulag allra sjúkraflutninga hvort sem þeir fara fram á landi eða með flugi.

Markvissari kaup á heilbrigðisþjónustu, meðal annars með breyttum fjármögnunarkerfum þar sem hagkvæmni, skilvirkni og gæði verða höfð að leiðaljósi.

Innleiðing gæðaáætlunar embættis landlæknis verður mikilvægt tæki í öllum framangreindum verkefnum þar sem  gerðar eru skýrara kröfur til þjónustuveitenda um aðgengileika, gæði og öryggi þjónustunnar.

Mönnun, síðast en ekki síst legg ég áherslu á að gripið verði til aðgerða til að bæta mönnun í heilbrigðiskerfinu. Horft verði til nágrannaþjóða í því sambandi og gerð mannaflaspá fyrir næstu ár.

Ég er sannfærð um að heilbrigðisstefnan verði okkur mikilvægur vegvísir næstu árin við að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og efla heilbrigðisþjónustu í landinu öllu, bæta gæði hennar og auka jöfnuð meðal notenda á skilvirkan og hagkvæman hátt.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 1. mars 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira