Hoppa yfir valmynd
18. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundi Evrópuráðsins lokið

Frá fundinum á Helsingjaeyri - myndUtanríkisráðuneytið

Árlegur ráðherrafundur Evrópuráðsins var haldinn í Helsingør í Danmörku í dag en Danir hafa farið með formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins síðastliðið hálft ár.

Fundurinn hófst með ávarpi Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur en síðan kynnti Thorbjörn Jagland aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skýrslu sína og formenn sendinefnda lýstu viðhorfi sínu til hennar. Skýrslan vekur athygli á þeim áskorunum sem Evrópuráðið stendur frammi fyrir eftir því sem pólitísk deilumál setja aukinn svip á starfsemi þess.

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands gagnvart Evrópuráðinu, fór fyrir sendinefnd Íslands. Í ávarpi sínu hvatti hann til að aðildarríkin standi við skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu og mannréttindavernd almennt. Með því móti tók hann undir ákall margra fleiri aðildarríkja til Rússlands um að standa skil á fjárframlagi sínu til Evrópuráðsins en Rússland hefur haldið eftir greiðslu síðan í maí 2017 vegna óánægju með samstarf sitt við Evrópuráðsþingið.

Íslenska sendinefndin á fundinum

Danmörk hefur á formennskutímabilinu meðal annars lagt áherslu á jafnréttismál. Af því tilefni tók Ísland höndum saman með Danmörku og stóð fyrir sameiginlegri rakarastofuráðstefnu í Evrópuráðinu 26. apríl sl. Þá var samþykkt í formennskutíð Dana svonefnd Kaupmannahafnaryfirlýsing um framtíð mannréttindakerfis Evrópu. Þessi merki áfangi náðist á fundi dómsmálaráðherra í Kaupmannahöfn 13. apríl síðastliðinn.

Fundurinn í Helsingør markar lok formennsku Danmerkur og upphaf formennsku Króatíu í Evrópuráðinu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira