Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi kynnt

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, kynnti í gær fyrstu aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í netöryggi. Aðgerðaáætlunin byggir á Netöryggisstefnu Íslands fyrir árin 2022-2037 sem gefin var út í febrúar. Mótun aðgerða á grunni Netöryggisstefnunnar og framkvæmd aðgerða er í höndum ýmissa ráðuneyta og stofnana eftir því sem við á en sem ráðuneyti netöryggismála hefur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið leitt vinnuna.

,,Netöryggismál ná til alls samfélagsins og verða sífellt flóknari og víðtækari með tilkomu t.d. gervigreindar. Við viljum að Íslendingar búi við öryggi á Netinu sem byggir á öflugri öryggismenningu, traustum netvörnum og löggæslu, virku samstarfi innanlands og alþjóðlega og traustri löggjöf sem stuðlar jafnframt að nýsköpun og framþróun í þjónustu á Netinu,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.  ,,Til að uppfylla þetta höfum við lokið við metnaðarfulla aðgerðaráætlun sem samanstendur af 64 aðgerðum.”

Traust og öruggt netumhverfi á Íslandi

Aðgerðaáætlunin stefnir að tveimur megin markmiðum, annars vegar að hér á landi sé afburða hæfni og nýting á netöryggistækni og hins vegar að hér sé öruggt netumhverfi.

Aðgerðir sem stuðla að fyrrnefnda markmiðinu snúa m.a. að traustri netöryggismenningu og netöryggisvitund, öflugri menntun, rannsóknum og þróun, þjónustu og nýsköpun. Þá leggja aðgerðir sérstaka áherslu á netöryggisvitund og vernd barna og er t.a.m. stefnt að því að þróað verði fjölbreytt námsefni um netöryggi á öllum skólastigum. Aðgerðir sem stuðla að markmiði um öruggt netumhverfi á Íslandi snúa að miklu leyti að öflugri löggæslu, vörnum og þjóðaröryggi ásamt skilvirkum viðbrögðum við atvikum og traustu lagaumhverfi. Til að mynda fela aðgerðir í sér greiningu og endurmat á valdheimildum stjórnvalda vegna alvarlegra netárása og hvort ákvæði almannavarnalaga þarfnist endurskoðunar með tilliti til þróunar í stafrænni tækni. Þá stendur til að endurskoða regluverk um starfsemi hýsingaraðila með staðfestu á Íslandi til að koma í veg fyrir brotastarfsemi í skjóli nafnleyndar.

Hægt er að fylgjast með stöðu aðgerða hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum