Hoppa yfir valmynd
18. júní 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Undirritun samnings um hjúkrunarheimilið Mörk

Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra og Guðrún B. Gísladóttir forstjóri Grundar undirrituðu í dag samning um rekstur á nýju og glæsilegu 110 rýma hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut 66 í Reykjavík. sem hlotið hefur nafnið Mörk –  hjúkrunarheimili.

Árni Páll Árnason , félags- og tryggingamálaráðherra, segir að með opnun Markar sé orðin að veruleika sú stefna sem mörkuð hefur verið til framtíðar um gjörbreyttar og bættar aðstæður aldraðra á hjúkrunarheimilum með áherslu á sjálfstæði og virðingu aldraðra og rétt þeirra til heimilis og einkalífs.

Á hjúkrunarheimilinu verða 70 almenn hjúkrunarrými fyrir aldraða, auk fjögurra sérhæfðra eininga með 10 rýmum hver, ein fyrir hjúkrunarsjúklinga yngri en 67 ára, ein fyrir fólk með heilabilun sem er yngra en 67 ára og ein ætluð til hvíldarinnlagna fyrir heilabilaða. Jafnframt verður ein eining ætluð fólki með geðræn vandamál. Rekstur slíkrar sérhæfðrar einingar er nýmæli hér á landi.

Mörk mun leysa af hólmi hjúkrunarheimilin Víðines og Vífilsstaði og flytja heimilismenn þaðan inn á nýja heimilið í ágúst næstkomandi auk 18 einstaklinga sem nú dvelja á Landspítalanum. Að öðru leyti munu nýir íbúar verða teknir inn samkvæmt formlegu mati á vistunarþörf. Meiri hluti starfsfólks Víðiness og Vífilsstaða hefur þegið boð um að starfa á hjúkrunarheimilinu Mörk.

Heimilið verður rekið með Eden hugmyndafræðina að leiðarljósi en hún miðar að því að einstaklingurinn haldi sjálfræði sínu sem lengst með aðstoð starfsfólksins en búi jafnframt við það öryggi sem fylgir því að búa á hjúkrunarheimili. 

Heimilinu er skipt niður í 11 heimiliseiningar og búa tíu heimilismenn á hverju heimili.  Hver þeirra hefur til umráða rúmgott herbergi með snyrtingu og síðan er í sameiginlegu rými björt setustofa, gott eldhús og stórar svalir. Heimilismenn koma með það sem þeir kjósa að heiman, s.s. húsgögn, myndir, gluggatjöld og þess háttar þannig að hvert herbergi ber þeim einstaklingi vitni sem þar býr. Ákvarðanir um daglegt líf heimilisfólks tekur fólkið sjálft með aðstoð starfsfólksins. Máltíðir eru að nokkru leyti útbúnar inni á heimilunum og bakað þar með kaffinu. Andrúmsloftið er frjálslegt og heimilislegt og lögð áhersla á að aðstandendur taki virkan þátt í heimilishaldi. 

Ýmiskonar virkni verður inni á heimiliseiningunum en einnig á fyrstu hæð hjúkrunarheimilisins. Þar verður m.a. notalegt kaffihús, lítil verslun með nauðsynjavöru, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, kapella, hársnyrtistofa, fótaaðgerðarstofa og aðstaða fyrir snyrtifræðing og nuddara. Á fyrstu hæðinni verður einnig boðið upp á námskeið og ýmiskonar fræðslu. Til stendur að vera með yfirbyggða göngugötu að íbúðarhúsunum sem standa við hlið heimilisins og þar gefst heimilismönnum tækifæri til að ganga sér til þjálfunar og heilsubótar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum