Hoppa yfir valmynd
2. september 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 422/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 2. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 422/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060025

 

Kæra […] og barns hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 11. júní 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. júní 2021, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda og barns hennar, […] (hér eftir nefndur A), ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda og barni hennar verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæra fyrir lok kærufrests.

  1. Málsmeðferð

    Eiginmanni kæranda og föður A var veitt alþjóðleg vernd á Íslandi hinn 9. ágúst 2011. Í kjölfarið var kæranda og A veitt alþjóðleg vernd og dvalarleyfi sem maki og barn flóttamanns á grundvelli þágildandi 4. mgr. 46. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 2. mgr. 45. gr. núgildandi laga um útlendinga nr. 80/2016. Hinn 13. ágúst 2013 barst Útlendingastofnun beiðni um upplýsingar um kæranda og syni hennar frá sænsku útlendingastofnuninni á grundvelli þess að þau hefðu sótt um alþjóðlega vernd þar í landi hinn 4. desember 2012. Í kjölfarið sendi Útlendingastofnun beiðni til Þjóðskrár Íslands hinn 15. ágúst 2013 um að skrá kæranda og syni hennar úr landi. Hinn 12. september 2016 óskaði eiginmaður kæranda eftir ferðaskilríkjum fyrir fjölskyldu sína. Þeirri beiðni var synjað þar sem þau voru ekki með gild dvalarleyfi hér á landi en þau höfðu ekki sótt um endurnýjun áður en dvalarleyfi þeirra runnu út hinn 8. september 2014.

    Hinn 14. desember 2016 bárust Útlendingastofnun umsóknir um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir kæranda og þrjá syni hennar. Útlendingastofnun hringdi í kæranda hinn 26. maí 2017 til að fá frekari upplýsingar svo hægt væri að komast að niðurstöðu í málinu. Útlendingastofnun sendi kæranda tilkynningu hinn 8. júní 2017 um að verið væri að skoða hvort tilefni væri til að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í símtalinu, þ.e. að hún hafi snúið aftur til heimaríkis og búið þar í tvö ár. Með ákvörðunum, dags. 9. október 2017, var alþjóðleg vernd kæranda og A afturkölluð. Beiðni þeirra um endurnýjun á dvalarleyfum á Íslandi var synjað. Þá var þeim einnig synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanirnar voru kærðar til kærunefndar útlendingamála hinn 30. október 2017. Hinn 25. janúar 2018 felldi kærunefnd ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi á þeim grundvelli að á meðan fjölskyldutengsl þau sem kveðið væri á um í 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga væru enn til staðar væri grundvöllur verndar þess ákvæðis enn til staðar. Lagt var fyrir stofnunina að taka umsóknir kæranda og A um endurnýjun dvalarleyfis til nýrrar meðferðar. Kærandi og A fengu útgefið dvalarleyfi hinn 25. janúar 2018 með gildistíma til 25. janúar 2022. Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 7. september 2019, var kæranda tilkynnt um hugsanlega afturköllun alþjóðlegrar verndar og dvalarleyfis hennar og sonar hennar. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun vegna málsins hinn 28. október 2020. Hinn 26. maí 2021 var föður A og fyrrum eiginmanni kæranda birt ákvörðun Útlendingastofnunar um að alþjóðleg vernd hans og dvalarleyfi væri afturkölluð á grundvelli a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Þá tók Útlendingastofnun ákvörðun hinn 1. júní 2021 um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda og A ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

  2. Ákvörðun Útlendingastofnunar

    Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að stofnuninni hefði borist upplýsingar frá lögreglunni í Kaupmannahöfn hinn 7. október 2019 um ferð kæranda og sonar hennar til heimaríkis hinn 16. september 2019. Hafi þau notað íslensk ferðaskilríki og íröksk vegabréf til að ferðast en kærandi hafi áður greint Útlendingastofnun frá því að hún hafi týnt vegabréfum þeirra. Þá kom fram að stofnuninni hefði borist þær upplýsingar að kærandi hefði skilið að borði og sæng við fyrrum eiginmann sinn hinn 27. júlí 2020 og hafi það fengist staðfest hjá Þjóðskrá. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 28. október 2020, hafi kærandi ítrekað neitað því að hafa ferðast til heimaríkis ásamt A. Þá greindi kærandi frá því að hún væri skilin við fyrrum eiginmann sinn og að þau ættu í takmörkuðum samskiptum við hann. Fram kemur að alþjóðleg vernd föður A og fyrrum eiginmanns kæranda hafi verið afturkölluð á grundvelli a. liðar 48. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds hafi það verið mat Útlendingastofnunar að kærandi og A uppfylli ekki lengur þau skilyrði sem sett séu fyrir fjölskyldusameiningum flóttafólks við maka og börn samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

    Tók Útlendingastofnun því næst afstöðu til þess hvort kærandi og sonur hennar ættu rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að synja bæri þeim um dvalarleyfi á þeim grundvelli.

  3. Málsástæður og rök kæranda

    Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar um að afturkalla dvalarleyfi kæranda og barns hennar hér á landi. Sú ákvörðun hafi fyrst og fremst verið tekin á þeim grundvelli að hún hafi ferðast til heimaríkis og dvalið þar um stundarsakir. Virðist það hafa verið túlkað á þann veg að kærandi hafi sjálfviljug notfært sér vernd heimaríkis á ný, en ljóst sé að slík ákvörðun skuli ávallt byggjast á heildstæðu mati á aðstæðum viðkomandi einstaklings. Að mati kæranda hafi ekki verið tekið tillit til almennra og sérstakra aðstæðna við meðferð málsins, með tilliti til heilsufars og félagslegra þátta, eins og áskilið sé í 74. gr. laga um útlendinga.

    Þá byggir kærandi á því að sonur hennar hafi, vegna ungs aldurs hans, ekki farið sjálfviljugur til heimaríkis. Ferðin hafi verið að frumkvæði kæranda og sonur hennar hafi ekki aldur til að átta sig á því hvaða réttaráhrif ferðin gæti mögulega haft. Um sé að ræða ráðstöfun sem sé afar íþyngjandi í garð sonar kæranda og beri að líta til þess að hann hafi ekki náð sakhæfisaldri. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi hvorki kannað einstaklingsbundnar aðstæður sonar hennar í heimaríki né hér á landi. Hagsmunum hans væri auðsjáanlega best borgið hér á landi, fjarri þeim átökum sem eigi sér stað í heimaríki þeirra. Hann hafi aðlagast íslensku samfélagi vel, eignast vini og þrái að fá tækifæri til þess að búa og mennta sig hér á landi. Í athugasemdum við 74. gr. laga um útlendinga komi fram að sérstakt tillit skuli tekið til barna. Þá komi fram í ákvæðinu að minni kröfur séu gerðar til að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Allt að einu hafi Útlendingastofnun tekið afstöðu til kröfu kæranda og sonar hennar um dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins í einu lagi.

    Kærandi vísar til þess að samkvæmt 4. mgr. 48. gr. laga um útlendinga skuli stjórnvöld taka til athugunar hvort 42. gr. laganna um bann við að senda fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu eigi við þegar ákvörðun sé tekin um afturköllun alþjóðlegrar verndar. Í hinni kærðu ákvörðun sé aðeins stuttlega vikið að þessum mikilvæga hluta heildarmats á aðstæðum kæranda og barns hennar. Fullyrt sé að kærandi hafi dvalið í heimaríki sínu um stundarsakir og þannig dregin sú órökstudda ályktun að hún hafi enga ástæðu til að óttast um öryggi sitt og barns síns í heimaríki. Hvergi í hinni kærðu ákvörðun sé gerð tilraun til þess að meta núverandi ástand Íraks eða hvernig ástandið þar í landi hafi breyst frá því að kærandi og sonur hennar hlutu alþjóðlega vernd hér á landi.

    Kærandi áréttar að afturköllun alþjóðlegrar verndar sé ákaflega íþyngjandi ákvörðun fyrir hana og son hennar. Í 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga sé sérstaklega kveðið á um aukna rannsóknarskyldu í málum sem varði alþjóðlega vernd, en samkvæmt ákvæðinu beri Útlendingastofnun skylda til að eiga samráð við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áður en ákvörðun sé tekin. Ekki fáist séð af gögnum málsins að það hafi verið gert.

    Að framangreindu virtu telur kærandi að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar við meðferð málsins og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. og rökstuðningsreglu 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Viðurkennt sé að veruleg vanræksla á rannsókn máls geti leitt til þess að ákvörðun teljist ógildanleg.

  4. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afturköllun alþjóðlegrar verndar

Í 48. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um afturköllun alþjóðlegrar verndar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar ef flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur fellur ekki lengur undir skilyrði 37. og 39. gr. ef hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Í athugasemdum við 48. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið eigi sér stoð í C-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Útlendingastofnun taki ákvörðun um afturköllun alþjóðlegrar verndar og skuli túlkun ákvæðisins fara fram í samræmi við leiðbeiningar í handbók flóttamannastofnunar.

Líkt og kærunefnd fjallaði ítarlega um í úrskurði sínum nr. 49/2018 í máli kæranda og A, dags. 25. janúar 2018, var þeim veitt vernd hér á landi árið 2011 vegna fjölskyldutengsla við flóttamann, sbr. 4. mgr. 46. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, sem er í grundvallaratriðum samhljóða 2. mgr. 45. gr. núgildandi laga um útlendinga nr. 80/2016. Grundvöllur verndar skv. 2. mgr. 45. gr. er í veigamiklum atriðum annars eðlis en skv. 37., 39. og 44. gr. laga um útlendinga. Slík vernd er þannig ótengd þeim ástæðum sem tilgreindar eru í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Af því leiðir að grundvöllur þeirrar alþjóðlegu verndar sem veitt er skv. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga tengist aðeins óbeint þeim skilyrðum afturköllunar sem útlistuð eru á tæmandi hátt í 1. mgr. 48. gr. laganna. Þá er ekki vísað sérstaklega í grundvöll verndar skv. 2. mgr. 45. gr. í 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga eða í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi.

Í ljósi orðalags 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga og samræmis milli ákvæða laganna telur kærunefnd ekki unnt að túlka ákvæðið með þeim hætti að afturköllun verndar skv. 2. mgr. 45. gr. geti verið byggð á ákvæðum 48. gr. laga um útlendinga.

Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða að ákvörðunin er ógildanleg. Umboðsmaður Alþingis hefur talið að stjórnvöldum sé einnig heimilt að afturkalla ákvarðanir sínar á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttarins um afturköllun, sbr. m.a. álit hans frá 13. júlí 2011 í máli nr. 6073/2010 og 22. janúar 2019 í máli nr. 9730/2018. Getur afturköllun verndar því að mati kærunefndar verið heimil ef forsendur verndarinnar, þ.e. þau fjölskyldutengsl sem þar eru tilgreind við útlending sem nýtur alþjóðlegrar verndar, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, eru ekki lengur fyrir hendi , aðili hefur notfært sér vernd heimaríkis og uppfyllt eru önnur skilyrði almennra reglna stjórnsýsluréttar um afturköllun stjórnvaldsákvarðana.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi skilið að borði og sæng við eiginmann sinn hinn 27. júlí 2020. Þá hafi alþjóðleg vernd hans verið afturkölluð hinn 26. maí 2021 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Kærandi og sonur hennar uppfylla því ekki lengur skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga fyrir fjölskyldusameiningum flóttafólks við maka og barn.

Þá kemur í gögnum málsins fram að kærandi og A hafi yfirgefið Ísland árið 2013, eða um sex mánuðum eftir að þeim var veitt alþjóðlega vernd hér á landi, og dvalið í heimaríki allt til ársins 2019. Þá hafi þau ferðast til heimaríkis að nýju hinn 16. september 2019 og verið stöðvuð á flugvellinum í Kaupmannahöfn hinn 7. október 2019 með íslensk ferðaskilríki og íröksk vegabréf. Að framangreindu virtu telur kærunefnd ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en að kærandi og A teljist hafa sjálfviljug notfært sér á ný vernd heimalands síns í skilningi a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga.

Af öllu framangreindu er ljóst að kærandi og A notfærðu sér vernd sína hér á landi í afar takmarkaðan tíma og voru búsett í heimaríki sínu að miklum meirihluta þess tíma sem hún var í gildi, að því er virðist án erfiðleika. Með vísan til framangreinds eru að mati kærunefndar forsendur til  að afturkalla þá alþjóðlegu vernd sem kæranda og A var veitt hér á landi árið 2011 sem og dvalarleyfi þeirra á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga, sbr. 59. gr. sömu laga, enda eru skilyrði þess ekki lengur uppfyllt og er sú niðurstaða reist á ólögfestum afturköllunarheimildum stjórnsýsluréttarins.

 

 

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 4. mgr. 48. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef veiting alþjóðlegrar verndar er afturkölluð skuli stjórnvald taka til athugunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. eða hvort 42. gr. eigi við.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væri ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Samkvæmt gögnum málsins voru kærandi og sonur hennar búsett í Kúrdistan héraði í heimaríki áður en þau komu hingað til lands. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 28. október 2020, greindi kærandi frá því að hún hafi glímt við ótilgreind veikindi. Kærandi, sem hefur notið liðsinnis löglærðra talsmanna við meðferð málsins, hefur ekki lagt fram nein heilsufarsgögn. Hefur því ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að hún eða sonur hennar séu í meðferð sem sé óforsvaranlegt að rjúfa eða glími við heilsufarsvandamál sem gætu leitt til þess að þeim yrði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Að því er varðar almennar aðstæður heimahéraði kæranda í Írak hefur kærunefnd meðal annars kynnt sér eftirfarandi skýrslur:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
  • Country of Origin Information Report - Iraq - Security Situation (EASO, Október 2020);
  • Country Policy and Information Note - Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 19. febrúar 2019);
  • Country Policy and Information Note - Iraq: Medical and healthcare provision (UK Home Office, janúar 2021);

Að mati kærunefndar benda framangreindar skýrslur ekki til þess að aðstæður í heimaríki kæranda og A séu með þeim hætti að veita beri þeim dvalarleyfi á grundvelli alvarlegra almennra aðstæðna á svæðinu. Þá kemur í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 fram að ríkisborgurum Íraks sé tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfi landsins og að aðstæður innan heilbrigðisþjónustunnar séu betri í Kúrdistan en annarstaðar í landinu.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem nái því alvarleikastigi að hún eða A teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barns hennar í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Sem fyrr segir hafa kærandi og sonur hennar dvalið meirihluta síðustu ára í heimaríki. Í ljósi þess og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki þeirra telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu þeirra þangað.

Frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt framangreindu hafa kærandi og sonur hennar ekki dvalarleyfi hér á landi. Þeim er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi. Gögn málsins benda ekki til annars en að þau séu við góða heilsu og með hliðsjón af atvikum málsins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef þau yfirgefa ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa þeim, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda og barn hennar að hverfa af landi brott. Kæranda og barni hennar er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant and her child have 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum