Hoppa yfir valmynd
8. mars 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 369/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 369/2016

Miðvikudaginn 8. mars 2017

Dánarbú A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. september 2016, kærði B, f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. júlí 2016, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

A fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2015. A lést X 2016 og tók þá kærandi við öllum réttindum og skyldum hans. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. júlí 2016, var A tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum til hans á árinu 2016 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 73.644 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfinu var hann krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Með bréfi, dags. 28. júlí 2016, var niðurstöðunni andmælt og var andmælunum svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 24. ágúst 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. september 2016. Með bréfi, dags. 27. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. október 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að tekjur að fjárhæð 362.806 kr. frá lífeyrissjóði skerði ekki tekjutengd bótaréttindi A frá Tryggingastofnunar ríkisins vegna ársins 2015.

Í kæru segir að A hafi fengið metinn endurhæfingarlífeyri frá 1. janúar 2015. Í sama mánuði hafi lífeyrissjóður greitt honum uppsöfnuð réttindi fyrir tímabilið 1. júní 2014 til 31. desember 2014 að fjárhæð 362.806 kr., þ.e. áður en endurhæfingarlífeyrir hafi tekið gildi. Hefði lífeyrissjóðurinn afgreitt umsókn hans á árinu 2014 og greitt þá hefði aldrei komið til ofgreiðslu/skerðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna þeirrar upphæðar.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 um hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun ríkisins greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laganna. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni sé svo ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreiking og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að fjármagnstekjur umfram 90.000 kr. á ári skuli teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu samkvæmt 17.-19. gr. og 21.-22. gr. laganna. Sé um hjón að ræða skiptist tekjur samkvæmt 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Ekki skipti máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreiking í reglugerð nr. 598/2009. Stofnunin hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram skylda Tryggingastofnunar ríkisins til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

A hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur allt árið 2015. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 73.644 kr. að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu.

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar úr skattframtali 2016 vegna tekjuársins 2015 hafi farið fram, hafi komið í ljós að tekjur A hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Endurreikingur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega lögum samkvæmt.

A hafi skilað inn ítrekuðum tekjuáætlunum vegna ársins 2015. Fyrsta tekjuáætlun hafi borist 4. febrúar 2015. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir 1.248.440 kr. í launatekjur, 2.484.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 113.107 kr. í fjármagnstekjur og 106.770 kr. í aðrar tekjur á árinu 2015.

Önnur tekjuáætlun hafi borist 1. júlí 2015. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir 2.760.440 kr. í launatekjur, 2.484.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 113.107 kr. í fjármagnstekjur og 106.770 í aðrar tekjur á árinu 2015.

Þriðja tekjuáætlun hafi borist 25. ágúst 2015. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir 2.900.900 kr. í launatekjur, 2.484.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 113.107 kr. í fjármagnstekjur og 106.770 í aðrar tekjur á árinu 2015.

Fjórða tekjuáætlun hafi borist 6. nóvember 2015. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir 2.377.760 kr. í launatekjur, 2.484.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 113.107 kr. í fjármagnstekjur og 106.770 í aðrar tekjur á árinu 2015.

Við bótauppgjör ársins 2015 hafi komið í ljós að A hafi verið með 2.377.760 kr. í launatekjur, 2.841.296 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 294.602 kr. í fjármagnstekjur og 106.770 kr. í aðrar tekjur. Hann hafi því verið með nokkuð hærri lífeyrissjóðstekjur en gert hafi verið ráð fyrir og einnig hærri fjármagnstekjur. Þessi mismunur hafi leitt til þess að tekjutengdar greiðslur hafi verið ofgreiddar í bótaflokknum tekjutrygging og orlofs- og desemberuppbót.

Stofnuninni sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Stofnuninni sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og einnig fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2015 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu 604.371 kr. en hafi átt að fá 486.917 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 73.644 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Rétt sé að vekja athygli á því að kærandi hafi óskað eftir því að tiltekinn hluti lífeyrissjóðsgreiðslna yrði fluttur af árinu 2015 til ársins 2014. Eins og fram hafi komið sé stofnuninni ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á skattframtali bótaþega og hafi það ítrekað verið staðfest og meðal annars reynt á það fyrir dómstólum.

Kærandi geti leitað til skattyfirvalda til þess að fá skattframtalið leiðrétt. Berist stofnuninni skattbreyting sé hægt að gera kæranda upp á nýjan leik.

Með vísan til ofanritaðs telji stofnunin ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

Vakin sé athygli á því að kæranda sé heimilt að sækja um niðurfellingu endurkröfunnar á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum ársins 2015.

A fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árinu 2015. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluárs til grundvallar við bótaútreikning hvers mánaðar. Í 7. mgr. sömu greinar segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Samkvæmt gögnum málsins gerði upphafleg tekjuáætlun A fyrir árið 2015 ráð fyrir 1.248.440 kr. í launatekjur, 2.484.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 106.770 kr. í aðrar tekjur og 113.107 kr. í fjármagnstekjur. Tekjuáætlun var breytt í þrjú skipti, þ.e. 1. júlí 2015, 25. ágúst 2015 og 4. nóvember 2015 þar sem áætlaðar launatekjur voru fyrst hækkaðar í 2.760.440 kr. síðan í 2.900.000 kr. og að lokum lækkaðar í 2.377.760 kr. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2015 reyndust lífeyrissjóðstekjur hins vegar hærri eða 2.841.296 kr. og fjármagnstekjur reyndust einnig hærri eða 294.602 kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2015 leiddi því í ljós að tekjutrygging hefði verið ofgreidd, auk orlofs- og desemberuppbótar um samtals 73.644 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt tilkynningu um greiðslu lífeyris frá Greiðslustofu lífeyrissjóða fékk A greiddan örorkulífeyri frá C lífeyrissjóði 30. janúar 2015 að fjárhæð 362.806 kr. Í skýringu um greiðsluna er tekið fram að um sé að ræða örorkulífeyri vegna tímabilsins júní 2014 til desember 2014. Kærandi fer fram á að þessar tekjur hafi ekki áhrif á endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótaréttindum hans vegna ársins 2015 þar sem um sé að ræða uppsöfnuð réttindi frá árinu 2014.

Í 22. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutryggingu og segir þar í 4. málsl. 1. mgr. að um útreikning á tekjutryggingu gildi 16. gr., 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. Í 2. málsl. 2. mgr. nefndrar 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar teljast til tekna samkvæmt III. kafla laganna tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur í 7. gr. og fellur lífeyrir þar undir 1. tölul. A-liðar.

Samkvæmt 2. málsl. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er bótagreiðsluár almanaksár. Við úrlausn þessa máls horfir úrskurðarnefnd til þess að umræddar tekjur voru greiddar kæranda í janúar 2015 og tilheyra því ári samkvæmt skattframtali kæranda vegna þess árs, þrátt fyrir að um sé að ræða örorkulífeyri vegna tiltekins tímabils á árinu 2014. Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, en úrskurðarnefnd velferðarmála tekur undir ábendingu stofnunarinnar um að mögulegt sé að leita til skattyfirvalda til þess að fá skattframtalinu breytt, ef forsendur eru til þess. Þá lítur úrskurðarnefndin til þess að um er að ræða tekjustofn sem skerðir tekjutryggingu samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd ekki á kröfu kæranda um að tekjurnar skerði ekki tekjutengd bótaréttindi frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2015.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum ársins 2015 staðfest.

Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags segir að þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á. Úrskurðarnefnd velferðarmála bendir kæranda á að hann geti óskað eftir niðurfellingu endurkröfunnar hjá Tryggingastofnun ríkisins, telji dánarbúið skilyrði reglugerðarákvæðisins uppfyllt í tilviki sínu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör vegna tekjutengdra bótagreiðslna A, á árinu 2015 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum