Hoppa yfir valmynd
2. desember 2015 Innviðaráðuneytið

Ísland hvatti ríki IMO til að staðfesta Höfðaborgarsamkomulagið um öryggi sjómanna

Ráðsfundur Alþjóða siglingamálastofnunarinnar, IMO, stendur nú yfir í London og sækja hann á annað þúsund fulltrúar aðildarríkja. Á fundinum sem haldinn er á tveggja ára fresti er fjallað um verkefni stofnunarinnar, kosið í 40 manna ráð sem fer með yfirstjórn stofnunarinnar og á fundinum í ár var staðfest skipan nýs framkvæmdastjóra.

Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, flutti ávarp á fundinum þar sem hann gat meðal annars um framfarir sem orðið hefðu í öryggismálum sjófarenda gegnum árin með margs konar aðgerðum og reglum IMO. Sigurbergur sagði í ávarpi sínu að þrátt fyrir góðan árangur í öryggismálum á kaupskipaflotanum hefði athygli ekki verið beint nógsamlega að fiskveiðiflotanum. Margir fiskimenn færust á ári hverju og samkvæmt tölum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna væru fiskveiðar talin ein hættulegasta atvinnugreinin í dag. Á þessu þyrfti að taka. Hann benti á að banaslysum meðal íslenskra sjómanna hefði fækkað umtalsvert síðustu fjóra áratugina. Þannig hefðu um 35 fiskveiðimenn farist að meðaltali á ári fyrir nokkrum áratugum en á síðari árum, t.d. 2008, 2011 og 2014 hefðu engir fiskveiðimenn beðið bana. Þetta mætti þakka margháttuðum aðgerðum og endurskoðun á laga- og regluverki í siglinum og hönnun skipa, tilkynningaskyldu fiskiskipa, öryggisfræðslu fyrir sjómenn og vitundarvakningu meðal stéttarinnar.

Sigurbergur sagðist telja að önnur lönd gætu tekið upp hliðstæðar reglur með tilstyrk IMO. Hann sagði Ísland hafa tekið virkan þátt í umræðum og umfjöllun um reglur IMO í gegnum árin, meðal annars við undirbúning á Torremolinos samþykktinni og Höfðaborgarsamkomulaginu um öryggi sjómanna. Sagði hann brýnt að ríki staðfestu Höfðaborgarsamkomulagið svo það öðlaðist gildi enda væri það mikilvægur liður í auknu öryggi sjómanna á fiskiskipum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum