Hoppa yfir valmynd
14. desember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Metfjöldi verkefna fá styrk úr Tækniþróunarsjóði

Fulltrúum sextíu verkefna sem sóttu um styrk úr Tækniþróunarsjóði á haustmisseri hefur verið boðið að ganga til samninga um styrki en haustúthlutun sjóðsins var kynnt á Haustfundi hans fyrr í vikunni. 

Alls bárust í 246 umsóknir í flokkana Sproti, Vöxtur, Markaðssókn og Markaðsþróun. Flestar umsóknir, 114 talsins, bárust í Sprota sem er ætlað að styðja við verkefni á byrjunarstigi hjá ungum nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum. Árangurshlutfall styrktra verkefna sem hlutfall af innsendum umsóknum er 20% þegar allir flokkar eru taldir saman, en hæst er það í tilfelli flokks markaðsþróunar þar sem árangurshlutfall er 33%. Í þessari úthlutun er styrkveiting til nýrra verkefna 1.218 m.kr. í heild en stuðningur sjóðsins til verkefnanna getur verið frá einu ári til allt að tveggja ára.

Hlutverk Tækniþróunarsjóðs, sem heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, er að styðja við rannsóknir og þróunarstarf sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi en hann er opinn fyrir nýsköpunarverkefnum úr öllum atvinnugreinum. Sjóðurinn er samkeppnissjóður sem býður upp á fjölmarga styrktarflokka fyrir verkefna á mismunandi stigi þróunar. 

“Stuðningur við nýsköpunarsamfélagið skiptir samfélagið máli. Hlutfall þekkingarfyrirtækja í hagkerfinu hefur stóraukist og útflutningstekjur af hugverkaiðnaði hafa tvöfaldast síðan árið 2018. Við eigum að halda áfram. Fjárveitingar til Tækniþróunarsjóðs hafa aukist verulega sem hjálpar hugmyndum að verða að veruleika. Metfjöldi verkefna fá styrki í ár og er ánægjulegt að sjá að hlutur kvenna eykst og er betri en fyrri ár,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Nokkuð jöfn kynjahlutföll í styrktum verkefnum

Hlutfall karla sem skráðir eru verkefnisstjórar í innsendum umsóknum er 61% og hlutfall kvenna því 39%. Kynjahlutföllin eru þó öllu jafnari þegar kemur að styrktum verkefnum þar sem 54% verkefnisstjóra eru karlar og 46% konur. Þá er árangurshlutfal kvenna töluvert hærra en karla eða 23% á móti 17% þegar allir flokkar eru teknir saman. 

Verkefni á hugmyndastigi einnig styrkt

Auk Sprota, Vaxtar og markaðsflokks býður Tækniþróunarsjóður einnig fyrirtækjastyrkinn Fræ/Þróunarfræ. Fræ er undirbúningsstyrkur til ungra frumkvöðlafyrirtækja eða einstaklinga og er sniðinn að verkefnum á hugmynda- eða frumstigi í þróun afurðar. Þróunarfræ er svo forkönnunarstyrkur til ungra frumkvöðlafyrirtækja og einstaklinga til að ráðast í þróunarsamvinnuverkefni. Alls bárust 40 umsóknir í Fræ/Þróunarfræ á haustmisseri og er árangurshlutfall styrktra verkefna sem hlutfall af innsendum umsóknum 30% í þeim flokki.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum