Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 397/2018 - Endurupptekið

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 397/2018

Miðvikudaginn 22. apríl 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með beiðni, dags. 18. janúar 2020, krafðist A, endurupptöku máls nr. 397/2018 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 20. febrúar 2019 og máls nr. 107/2019 sem lokið var með bréfi úrskurðarnefndarinnar 16. október 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 1. febrúar 2007 til 30. september 2008. Þá fékk kærandi greiddan örorkulífeyri frá 1. október 2008. Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 19. september 2017, að í ljósi breytinga á lögheimili hans frá Íslandi til B þann 4. janúar 2017 væri fyrirhuguð stöðvun allra greiðslna til hans. Kærandi andmælti ákvörðun stofnunarinnar með tölvupósti 21. september 2017 en ákvörðunin var látin standa og var kæranda tilkynnt með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2017, um stöðvun greiðslna frá 1. febrúar 2017 og kröfu að fjárhæð 2.210.618 kr. með 15% álagi.

Með umsókn, dags 4. október 2018, sótti kærandi um örorkulífeyri. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. október 2018, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að hann væri enn með skráð lögheimili á B og samkvæmt 4. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar væri búseta á Íslandi eitt af skilyrðum fyrir greiðslum almannatrygginga nema annað leiði af milliríkjasamningnum.

Með erindum, dagsettum 16. og 18. október 2018, fór kærandi fram á greiðslu örorkulífeyris og tengdra bóta tvö ár aftur í tímann fyrir töku örorkulífeyris, auk dráttarvaxta að viðbættu 25% álagi. Með bréfi, dags. 29. október 2018, var beiðni kæranda synjað á þeim grundvelli að ekki væri fyrir hendi heimild í lögum um almannatryggingar til að greiða örorkulífeyri fyrir tímabil þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði örorkulífeyris.

Með tölvupósti til úrskurðarnefndar velferðarmála 2. nóvember 2017 kærði kærandi til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar frá 26. október 2017 um stöðvun og endurkröfu ofgreiddra bóta. Með tölvupósti úrskurðarnefndar sama dag var kærandi upplýstur um að undirrituð kæra þyrfti að berast úrskurðarnefndinni eða rafræn kæra í gegnum heimasíðu nefndarinnar ásamt afriti af þeirri ákvörðun sem hann væri að kæra. Með tölvupósti 26. janúar 2018 upplýsti kærandi að hann væri kominn með lögfræðing í málið. Með tölvupósti úrskurðarnefndar sama dag var kærandi upplýstur um að nefndin myndi ekki vinna í málinu svo lengi sem engin formleg kæra bærist.   

Með rafrænni kæru, móttekinni 10. nóvember 2018, kærði kærandi til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. október 2017 um stöðvun greiðslna og endurkröfu ofgreiddra bóta, ákvörðun stofnunarinnar frá 29. október 2018 þar sem kæranda var synjað um endurupptöku á örorkumati og ákvörðun stofnunarinnar frá 29. október 2018 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 397/2018 staðfesti úrskurðarnefndin synjanir Tryggingastofnunar frá 29. október 2018 um örorkulífeyri og endurupptöku á örorkumati og vísaði frá þeim hluta kæru er varðaði ákvörðun Tryggingastofnunar frá 26. október 2017 um stöðvun greiðslna til kæranda og endurkröfu ofgreiddra bóta. Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis sem lauk máli sínu með áliti nr. 9989/2019, dags. 31. desember 2019. Í niðurstöðu sinni beinir umboðsmaður Alþingis þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka málið til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá kæranda.

Með tölvupósti 7. mars 2019 óskaði kærandi eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um hver hefði tilkynnt stofnuninni um búsetu hans í B. Með tölvupósti 14. mars 2019 var kæranda tilkynnt um að Tryggingastofnun hafi ekki fengið ábendingu heldur hafi hann komið upp á eftirlitslista þar sem hann hafi skráð sig inn á „Mínar síður“ frá B. Með tölvupósti 13. mars 2019 kærði kærandi til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja honum um upplýsingar um hver hefði veitt stofnuninni upplýsingar um búsetu hans í B, sbr. kærumál nr. 107/2019. Með tölvupósti úrskurðarnefndar sama dag var kærandi upplýstur um að undirrituð kæra þyrfti að berast úrskurðarnefndinni eða rafræn kæra í gegnum heimasíðu nefndarinnar. Kærandi mótmælti því með tölvupósti sama dag. Með bréfi, dags. 16. október 2019, var kæranda tilkynnt um að málið yrði ekki tekið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þar sem kæra uppfyllti ekki formskilyrði.

Með beiðni, dags. 18. janúar 2020, krafðist kærandi endurupptöku á kærumálum sínum hjá úrskurðarnefndinni. Úrskurðarnefndin féllst á beiðni kæranda um endurupptöku kærumála nr. 397/2018 og 107/2019. Kæranda var greint frá þeirri ákvörðun með bréfi, dags. 22. janúar 2020, og þar kom jafnframt fram að kærumál nr. 107/2019 yrði sameinað kærumáli nr. 397/2018. Með bréfi úrskurðarnefndar til Tryggingastofnunar, dagsettu sama dag, var óskað eftir að stofnunin skilaði greinargerð vegna ákvörðunar stofnunarinnar frá 26. október 2017 um stöðvun greiðslna örorkulífeyris til kæranda frá 1. febrúar 2017 og endurkröfu ofgreiddra bóta. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 6. febrúar 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 10. febrúar 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 10. og 13. febrúar 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 17. febrúar 2020. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 18. febrúar 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 19. febrúar 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

Með tölvupósti 9. mars 2020 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir ákvörðun Tryggingastofnunar vegna kröfu kæranda um upplýsingar um hver hafi tilkynnt um búsetu hans í B. Umbeðin gögn bárust sama dag og voru send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Ráða má af gögnum málsins að kærandi krefjist þess að felld verði úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2017, um stöðvun örorkulífeyris og endurkröfu ofgreiddra bóta. Einnig má ráða af gögnunum að kærandi geri kröfu um að felld verði úr gildi synjun Tryggingastofnunar um örorkulífeyri, dags. 29. október 2018, og að greiðslurnar verði veittar. Þá má ráða af gögnum málsins að kærandi geri kröfu um greiðslur örorkulífeyris í tvö ár aftur í tímann fyrir gildistöku fyrsta örorkumats, dags. 1. október 2008. Að lokum verður ráðið að kærandi kæri afgreiðslu Tryggingastofnunar frá 14. mars 2019 á beiðni kæranda um upplýsingar um hver hefði tilkynnt stofnuninni um búsetu hans í B.

Þá krefst kærandi miskabóta að fjárhæð 40.000.000 kr. frá Tryggingastofnun og að fjárhæð 80.000.000 kr. frá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna lögbrota.

Í kæru vegna kærumáls nr. 397/2018 kemur fram að Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda um örorkumat vegna lögheimilis erlendis en stofnunin hafi ekki vald til þess.

Tryggingastofnun hafi einnig synjað kæranda um leiðréttingu á greiðslum tvö ár aftur í tímann frá því að örorka hans hafi byrjað. Þessi krafa sé byggð á úrskurði umboðsmanns Alþingis um að Tryggingastofnun hafi alltaf átt að gera þetta en hafi aldrei gert.

Í athugasemdum kæranda vegna kærumáls nr. 397/2018, mótteknum 17. desember 2018, segir að Tryggingastofnun telji að sumt sé hreinlega fyrnt og ekki eigi að bæta þann missi samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Tryggingastofnun hafi átt að leiðbeina kæranda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga, en hafi ekki gert það. Kærandi vilji meina að Tryggingastofnun hafi brotið 72. gr., 139. gr. og 140 gr. almennra hegningarlaga, auk fleiri brota og sé fyrningarfresturinn 15 ár ef brot varði meira en 10 ára fangelsi.

Á árinu 2009 hafi úrskurðarnefnd almannatrygginga úrskurðað að Tryggingastofnun ætti að fella niður kröfu á hendur kæranda að öllu leyti vegna bágrar fjárhagsstöðu hans. Í september 2017 hafi komið krafa frá Tryggingastofnun um ofgreiðslu upp á 2,3 miljónir með 25% álagi. Kærandi spyrji hvernig fjárhagur hans hafi breyst. Seinustu 14 mánuði hafi kærandi og fjölskylda hans eingöngu verið með 67.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóði.

Í athugasemdum kæranda vegna kærumáls nr. 397/2018, mótteknum 2. janúar 2019, kemur fram að síðustu tvö árin hafi verið mjög erfið fyrir kæranda og fjölskyldu hans, eiginkonu og son. Fyrir einstakling eins og hann, sem sé með geðræn vandamál, þá aukist veikindin við árásir Tryggingastofnunar, Þjóðskrár og ríkisins.

Úrskurðarnefndinni sé bent á að lífeyrissjóðir kæranda hafi fyrir mörgum árum samþykkt að ekki væri þörf á endurmati sem segi að veikindi hans séu þess eðlis að engin von sé um bata. Í öll þessi ár sem kærandi hafi þurft að endurnýja örorkumat sitt með vottorði frá lækni. Þá hafi að minnsta kosti fimm mismunandi læknar staðfest veikindi hans.

Ástæða fyrir dvöl kæranda og fjölskyldu hans sé margþætt. Fyrir það fyrsta hafi eiginkona hans greinst með X á meðgöngu sonar þeirra. Að greinast með X í B jafngildi dauðadómi. Eiginkona hans vilji vera með fjölskyldu sinni í veikindum sínum. Þau geti ekki búið á Íslandi þar sem Útlendingastofnun gerir kröfu um framfærslu og öruggt húsnæði sem þau hafi ekki. Aðstæður fjölskyldunnar séu erfiðar og þau vilji bara fá að lifa sem bestu lífi þar til eiginkona hans muni deyja.

Í kæru vegna kærumáls nr. 107/2019 segir að 4. janúar 2017 hafi Tryggingastofnun sent Þjóðskrá erindi og viljað vita hvar kærandi, eiginkona hans og sonur dveldust. Tryggingastofnun hafi sagt að það væri vegna gruns um að þau væru búin að vera búsett erlendis í átta eða níu ár. Það bendi til þess að þetta hafi ekki verið grunur heldur upplýsingar sem Tryggingastofnun hafi fengið frá einhverjum. Kærandi kæri Tryggingastofnun fyrir að synja honum um þessar upplýsingar sem hann eigi rétt á samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga.

Í beiðni kæranda um endurupptöku fer kærandi fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála taki allar kærur hans til umfjöllunar. Fram kemur að hann byggi kröfu sína á áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9989/2019. Kærandi krefst þess einnig að fá uppgefinn fjölda þeirra einstaklinga sem hafi lent í sömu lögbrotum hjá úrskurðarnefndinni.

Í athugasemdum kæranda frá 10. febrúar 2020 segir að Tryggingastofnun ljúgi hvernig málið hafi byrjað. Málið hafi byrjað þannig að systir kæranda hafi nýtt sér tilkynningarhnapp hjá Tryggingastofnun. Í þessari tilkynningu segi að kærandi og fjölskylda hafi verið búsett í átta til níu ár í B. Kærandi spyr hvernig Tryggingastofnun hefði annars átt að vita um hve langan tíma væri um að ræða. Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um staðfestingu á því að systir hans hafi tilkynnt þau til stofnunarinnar sem sé brot á 15. gr. stjórnsýslulaga.

Fram kemur að kærandi beri fyrir sig 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segi að þeir sem séu öryrkjar eigi rétt á fjárhagsstuðningi. Tryggingastofnun hafi brotið þetta ákvæði gagnvart kæranda 1. janúar 2017. Einnig beri Tryggingastofnun fyrir sig að ef kærandi hefði verið búsettur innan EES eða í Bandaríkjunum hefði kærandi mátt halda lögheimili sínu á Íslandi og þar með örorkubótum. Þetta sé mismunum samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar. Stjórnarskrá sé æðri lögum og reglugerðum.

Tryggingastofnun láti líta svo á að Þjóðskrá hafi að eigin frumkvæði flutt lögheimili þeirra. Það sé rangt. Tryggingastofnun hafi krafist rannsóknar á því. Samkvæmt lögum sé Þjóðskrá heimilt að rannsaka aðsetur einstaklinga að eigin frumkvæði en ekki samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun sem séu ólöglega fengnar.

Kærandi gerir athugasemdir við að hafa ekki getað kært í byrjun þegar Tryggingastofnun hafi skrifað Þjóðskrá bréf. Hann telji að Tryggingastofnun hefði átt að veita honum andmælarétt þegar bréfið hafi verið skrifað til Þjóðskrár. Þegar Þjóðskrá hafi flutt lögheimilið í september 2017 hafi kæranda gefist nokkrir dagar til þess að andmæla og svo hafi verið klippt á alla framfærslu frá Tryggingastofnun og barnabæturnar hafi horfið líka. Það sé brot á lögum að hætta allri framfærslu á meðan mál sé í kæruferli og þetta mál sé enn í kæruferli. Þessi lögbrot Tryggingastofnunar og úrskurðarnefndar velferðarmála hafi skaðað kæranda og fjölskyldu hans mjög mikið. Kærandi krefjist þess að fá allar örorkubætur frá 4. janúar 2017 til þess dags er hann fái örorkubætur sínar aftur frá Tryggingastofnun.

Kærandi telji alla starfsmenn úrskurðarnefndar velferðarmála vanhæfa til að úrskurða í málinu þar sem hann hafi þurft að leita til umboðsmanns Alþingis.

Í athugasemdum kæranda frá 13. febrúar 2020 gerir kærandi athugasemdir við niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 3/2016 sem Tryggingastofnun vísar til í greinargerð. Fram kemur að Tryggingastofnun hafi viðurkennt að stofnuninni hafi borist tilkynning um að viðkomandi væri búsett í „c“. Þetta sé ólöglegt líkt og í máli kæranda. Þessi tilkynning hafi verið brot á persónuverndarlögum og þessi tilkynningarhnappur hafi verið dæmdur ólöglegur af Hæstarétti Íslands. 

Í athugasemdum kæranda frá 9. mars 2020 segir að kærandi telji það mjög gróft brot á lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga að Tryggingastofnun njósni um skjólstæðinga sína með skráningum þeirra inn á „Mínar síður“.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærumáls nr. 397/2018 kemur fram að kærðar séu tvær ákvarðanir stofnunarinnar, dags. 29. október 2018. Annars vegar ákvörðun um að synja umsókn kæranda um endurmat á örorkulífeyri og hins vegar ákvörðun um að synja kæranda um greiðslur örorkulífeyris í tvö ár áður en örorka kæranda byrjaði.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Tryggingastofnun greiði út lífeyri til þeirra einstaklinga sem séu í tryggingum og með lögheimili hér á landi, sbr. 4. gr. laga um almannatryggingar. Einnig greiði stofnunin lífeyri til þeirra einstaklinga sem hafi búsetu í þeim löndum sem Ísland hafi gert samninga við, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar ákvarði Tryggingastofnun sjálfstætt hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi eða ekki. Einstaklingur teljist tryggður hafi hann búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar, en með búsetu sé átt við skráningu á lögheimili samkvæmt lögheimilislögum, sbr. 5. lið 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Einstaklingar sem flytji búsetu sína frá Íslandi teljist ekki tryggðir nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá skuli Tryggingastofnun halda sérstaka skrá um tryggingaréttindi einstaklinga. Skráin skuli vera til viðbótar við Þjóðskrá. Jafnframt segi í 17. gr. að lífeyrisþegar sem taki upp búsetu innan Evrópska efnahagssvæðisins eigi rétt á að halda skráningu sinni sem tryggðir hjá almannatryggingum. Þá ákvarði Tryggingastofnun hvort einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar og áðurnefndri reglugerð, sbr. 20. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar skuli sækja um allar bætur samkvæmt lögunum.

Í 2. mgr. 53. gr. sé fjallað sérstaklega um greiðslu bóta aftur í tímann. Þar segi að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berist stofnuninni. Um sé að ræða undantekningarákvæði sem eingöngu skuli beita í undantekningartilfellum.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi frá 1. febrúar 2007 til 31. janúar 2017 verið á greiðslum hjá Tryggingastofnun ríkisins. Fyrst á endurhæfingarlífeyri frá 1. febrúar 2007 til 30. september 2008 og síðan hafi kærandi fengið örorkulífeyri og tengdar bætur frá 1. október 2008 til 31. janúar 2017. 

Kærandi hafi fengið greiðslur frá Tryggingastofnun á meðan að hann hafi uppfyllt skilyrði almannatrygginga um búsetu til þess að njóta þeirra greiðslna. Við eftirlit hjá Tryggingastofnun hafi vaknað grunsemdir um að kærandi byggi á B og hafi gert í lengri tíma, en ekki á Íslandi. Í kjölfarið hafi því verið send ábending um það til Þjóðskrár Íslands. Eftir rannsókn Þjóðskrár Íslands hafi lögheimili kæranda svo verið fært til B og hafi sá flutningur gilt frá 1. febrúar 2017. Kæranda hafi verið veitt tækifæri til andmæla með bréfi, dags. 19. september 2017, sem kærandi hafi svarað með tölvupósti, mótteknum 20. sama mánaðar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. október 2017, hafi kæranda verið tilkynnt endanlega um stöðvun greiðslna og endurkröfu. Sú ákvörðun Tryggingastofnunar hafi ekki verið kærð á sínum tíma og kærufrestur sé því löngu liðinn.

Með umsókn, dags. 4. október 2018, hafi kærandi óskað eftir endurmati á örorkulífeyri. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 29. október 2018, hafi honum verið synjað um endurmat þar sem hann hafi hvorki uppfyllt skilyrði örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. né örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar.

Með erindum þann 16. og 18. október 2018, hafi kærandi farið fram á að fá greiðslur örorkulífeyris í tvö ár áður en að örorka hans hófst. Tryggingastofnun hafi synjað þeim erindum með bréfi, dags. 29. október 2018.

Þessar tvær synjanir hafi nú verið kærðar.

Ekki sé deilt um það í málinu að kærandi sé búsettur í B og hafi verið með skráð lögheimili þar frá 4. janúar 2017. Samkvæmt ákvörðun Þjóðskrár Íslands, sem sé þar til bært stjórnvald, sé kærandi skráður með lögheimili þar. Þá sé ekki deilt um það í málinu að ekki sé í gildi samningur við B um gagnkvæm almannatryggingaréttindi ríkisborgara Íslands og B.

Eins og fram hafi komið þá sé eitt af skilyrðum 18. gr. laga um almannatryggingar að kærandi þurfi að hafa verið búsettur á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en að umsókn hafi verið lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert áður en umsóknin hafi verið lögð fram.

Einnig hafi komið fram að Tryggingastofnun skuli greiða út lífeyri til þeirra einstaklinga sem séu í tryggingum og með lögheimili hér á landi, sbr. 4. gr. laga um almannatryggingar. Einnig greiði stofnunin lífeyri til þeirra einstaklinga sem hafi búsetu í þeim löndum sem Ísland hafi gert samninga við, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar.

Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddan örorkulífeyri eða örorkustyrk samkvæmt 18. og 19. gr. laga um almannatryggingar sjái Tryggingastofnun ekki að forsendur ákvörðunarinnar, dags. 26. október 2017, hafi breyst. Synjun Tryggingastofnunar, dags. 29. október 2018, standi því.

Þessi niðurstaða Tryggingastofnunar sé í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um almannatryggingar og einnig fyrri fordæmi úrskurðarnefndar og megi þar meðal annars benda á mál nr. 19/2012 og 9/2016.

Varðandi kröfu kæranda um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris þá hafi kærandi sent inn erindi þessi efnis, dags. 16. og 18. október 2018. Þeim erindum hafi verið synjað.

Í lögum um almannatryggingar sé ekki fyrir hendi nein heimild til þess að greiða bætur afturvirkt fyrir tímabil áður en skilyrði bóta séu uppfyllt. Tryggingastofnun sé því ekki heimilt að greiða kæranda örorkulífeyri fyrir tímabil þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði örorkulífeyris.

Sú heimild til afturvirkni greiðslna, sem kærandi vísi til í erindum sínum, sé að finna í 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Þar sé kveðið á um að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta. Þetta ákvæði eigi þó aðeins við ef umsækjandi hafi uppfyllt skilyrði lífeyrisgreiðslna á þessum tveimur árum. Þetta sé hins vegar ekki réttur til greiðslna bóta áður en skilyrði örorkulífeyris séu uppfyllt.

Við meðferð kærunnar í þessu máli hafi verið farið yfir málið og kannað hvort kærandi ætti einhvern frekari rétt ef litið væri á erindin, dags. 16. og 18. október 2018, sem beiðni um endurupptöku á upphaflegu örorkumati kæranda, dags. 3. desember 2008. Ósk um slíka endurupptöku hefði einnig verið synjað.

Þann 4. desember 2008 hafi farið fram örorkumat kæranda. Samkvæmt mati tryggingalæknis hafi kærandi uppfyllt skilyrði staðals um hæsta örorkustig og hafi hann því átt rétt á greiðslu örorkulífeyris. Örorkumatið hafi gilt frá 1. október 2008 til 30. september 2009, en hafi síðar verið framlengt. Fram að örorkumati hafi kærandi verið á endurhæfingarlífeyri frá 1. febrúar 2007 til 30. september 2008, eða í 20 mánuði.

Í samræmi við 2. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar geti einstaklingur ekki fengið bæði örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri á sama tíma og sé því ljóst að kærandi eigi ekki rétt á örorkulífeyri fyrir það tímabil sem hann hafi fengið endurhæfingarlífeyri.

Hvað varði tímabilið fyrir 1. febrúar 2007 þá sé samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en til örorkumats komi. Endurhæfingarlífeyrir samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé greiddur þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys og því ótímabært að meta einstaklinginn til örorku. Það hafi verið mat Tryggingastofnunar að ekki hafi verið tímabært að meta kæranda til örorku á þessum tíma.

Í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað sé endurupptöku á, nema veigamiklar ástæður mæli með því. Tryggingastofnun telji að á sínum tíma hafi kærandi fengið öll þau réttindi sem hann hafi átt rétt á og því sé ekki hægt að sjá að veigamiklar ástæður séu til að endurupptaka málið.

Auk þess sé krafan hugsanlega fyrnd en réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, sbr. 6. gr. sömu laga.

Þessi niðurstaða sé einnig í samræmi við fyrri fordæmi úrskurðarnefndar og megi þar á meðal benda á niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. 204/2015. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að endurskoða ákvörðun, dags. 29. október 2018.

Í greinargerð Tryggingastofnunar vegna endurupptöku segir að borist hafi beiðni frá úrskurðanefnd velferðarmála varðandi efnislega greinargerð í enduruppteknu máli nr. 397/2018. Eftir að farið hafi verið yfir fyrirliggjandi gögn líti Tryggingastofnun svo á að sú beiðni snúi einvörðungu að ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva greiðslur til kæranda frá og með 1. febrúar 2017 og endurkrefja hann um ofgreiddar bætur frá 1. febrúar 2017 til 30. október 2017. Sú ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda með bréfum, dags. 19. september 2017 og 26. október 2017.

Samkvæmt 45. gr. almannatryggingalaga skuli Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Í 2. mgr. 45. gr. komi fram að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Í 3. mgr. 45. gr. komi svo fram að leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi sé heimilt að fresta greiðslum tímabundið á meðan mál sé rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. laganna. Í 5. mgr. 45. gr. segi að komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skuli greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi.

Við eftirlit hjá Tryggingastofnun hafi vaknað grunsemdir um að kærandi byggi á B, og hefði gert í lengri tíma, en ekki á Íslandi. Í kjölfarið hafi ábending um það verið send til Þjóðskrár Íslands. Eftir rannsókn Þjóðskrár Íslands hafi lögheimili kæranda verið fært til B og hafi sá flutningur gilt frá 1. febrúar 2017.

Kæranda hafi verið veitt tækifæri til andmæla með bréfi, dags. 19. september 2017, og kærandi hafi svarað því með tölupósti, dags. 20. sama mánaðar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. október 2017, hafi kæranda svo verið tilkynnt endanlega um stöðvun greiðslna og endurkröfu.

Ekki sé deilt um það í málinu að kærandi hafi verið búsettur í B og með skráð lögheimili þar frá 4. janúar 2017 til 30. október 2017 sem sé það tímabil sem varði kæruefnið. Samkvæmt ákvörðun Þjóðskrár Íslands, sem sé þar til bært stjórnvald, hafi kærandi verið skráður með lögheimili þar. Einnig sé ekki deilt um það í málinu að ekki sé í gildi samningur við B um gagnkvæm almannatryggingaréttindi ríkisborgara Íslands og B. Einnig hafi komið fram að Tryggingastofnun skuli greiða út lífeyri til þeirra einstaklinga sem séu í tryggingum og með lögheimili hér á landi, sbr. 4. gr. laga um almannatryggingar. Þá greiði stofnunin lífeyri til þeirra einstaklinga sem hafi búsetu í þeim löndum sem Ísland hafi gert samninga við, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddan örorkulífeyri eða örorkustyrk samkvæmt 18. og 19. gr. laga um almannatryggingar á tímabilinu. Tryggingastofnun beri því skylda til þess að innheimta ofgreiddar bætur til kæranda á tímabilinu 1. febrúar til 30. október 2017 á grundvelli 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar sem kærandi hafi sannarlega látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur þurfi kærandi að endurgreiða þá fjárhæð að viðbættu 15% álagi.

Þessi niðurstaða Tryggingastofnunar sé í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um almannatryggingar og einnig fyrri fordæmi úrskurðarnefndar og megi þar meðal annars benda á mál nr. 9/2016.

IV.  Niðurstaða

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af málsástæðum kæranda að kæra lúti að fjórum ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins. Í fyrsta lagi ákvörðun, dags. 26. október 2017, um stöðvun greiðslna og endurkröfu ofgreiddra bóta vegna búsetu kæranda í B frá 4. janúar 2017. Í öðru lagi ákvörðun, dags. 29. október 2018, þar sem kæranda var synjað um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris frá fyrsta mati, dags. 4. desember 2008. Í þriðja lagi ákvörðun, dags. 29. október 2018, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri vegna búsetu hans í B. Í fjórða lagi afgreiðslu Tryggingastofnunar frá 14. mars 2019 á beiðni kæranda um upplýsingar um hver hefði tilkynnt stofnuninni um búsetu hans í B.

A. Stöðvun greiðslna og endurkrafa ofgreiddra bóta

Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 19. september 2017, að í ljósi breytinga á lögheimili hans frá Íslandi til B þann 4. janúar 2017 væri fyrirhuguð stöðvun allra greiðslna til hans. Kærandi andmælti ákvörðun stofnunarinnar með tölvupósti 21. september 2017 en ákvörðunin var látin standa og var kæranda tilkynnt með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2017, um stöðvun greiðslna frá 1. febrúar 2017 og kröfu að fjárhæð 2.210.618 kr. með 15% álagi.

Með tölvupósti til úrskurðarnefndar velferðarmála 2. nóvember 2017 kærði kærandi til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar frá 26. október 2017 um stöðvun greiðslna og endurkröfu ofgreiddra bóta. Úrskurðarnefndin taldi að kæran uppfyllti ekki formskilyrði og leiðbeindi kæranda um hvernig hann gæti bætt úr þeim með tölvupósti sama dag. Kæra, sem uppfyllti formskilyrði, barst 10. nóvember 2018. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9989/2019, dags. 31. desember 2019, segir meðal annars að tölvupóstur kæranda frá 2. nóvember 2017 hafi markað upphaf kærumáls hjá úrskurðarnefndinni. Þar með hafi stofnast skylda hjá úrskurðarnefndinni til þess að leiða málið til lykta með formlegum hætti, burtséð frá því hvort á málinu væru einhverjir annmarkar. Þá segir meðal annars svo í álitinu:

„Að því er þetta mál varðar verður einnig að líta til þess að í þeim gögnum sem fyrir liggja í því verður ekki séð að úrskurðarnefndin hafi sett [kæranda] tiltekinn frest til þess að koma kærunni í rétt form eða að hann hafi verið upplýstur um hverju það varðaði ef hann brygðist ekki við. Þrátt fyrir það virðist nefndin hafa lagt til grundvallar að erindið hefði borist og auk þess lagt mat á hvort formskilyrði væru uppfyllt og þar með tekið það til skoðunar en upplýst [kæranda] að „ekki [yrði unnið] í málinu“ á meðan ekki yrði bætt úr umræddum formkröfum. Með vísan til þess að almennt eru ekki gerðar sérstakar kröfur um form kæru til stjórnvalda [...] er ekki unnt að fallast á þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að taka kæru [kæranda] ekki til meðferðar þegar hún barst 2. nóvember 2017 og leiða hana til lykta þegar af þeirri ástæðu einni að hún uppfyllti ekki formkröfur.“

Með vísan til þeirra annmarka á málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar, sem umboðsmaður Alþingis vísar til, telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að líta svo á að kæra kæranda á ákvörðun Tryggingastofnunar frá 26. október 2017 hafi borist úrskurðarnefndinni 2. nóvember 2017, þ.e. innan þriggja mánaða kærufrests samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Um rétt til örorkulífeyris er fjallað í 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að rétt til örorkulífeyris hafi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, séu á aldrinum 18 til 67 ára og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert er þeir tóku hér búsetu.

Í 4. gr. laga um um almannatryggingar er fjallað um hverjir séu tryggðir samkvæmt lögunum og er ákvæðið svohljóðandi:

„Sá sem búsettur er hér á landi, sbr. 5. tölul. 2. gr., telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Tryggingavernd fellur niður þegar búseta er flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla.

Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt framangreindu er það eitt af skilyrðum greiðslu örorkulífeyris að umsækjandi sé búsettur á Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá var kærandi búsettur í B frá 4. janúar 2017 til 15. janúar 2020 og hefur kærandi ekki andmælt því. Ljóst er því að kærandi uppfyllti ekki framangreint skilyrði um búsetu á Íslandi á því tímabili. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í þeim má meðal annars veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra. Enginn slíkur samningur hefur verið gerður við B. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum örorkulífeyris, sbr. 4. og 18. gr. laga um almannatryggingar, á tímabilinu 4. janúar 2017 til 15. janúar 2020.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Um eftirlit og viðurlög er fjallað í 45. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Þá má leiða af ákvæðinu að stofnuninni sé heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum, meðal annars frá Þjóðskrá Íslands, sem nauðsynleg eru til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna. Einnig segir í 2. mgr. 45. gr. að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma betur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þá hljóðar 3. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar svo:

„Leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi er heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fer skv. 55. gr.“

Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Þá segir svo í 5. mgr. 45. gr. laganna:

„Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.“

Fyrir liggur að Tryggingastofnun greiddi kæranda örorkulífeyri vegna tímabilsins 1. febrúar 2017 til 31. október 2017, þrátt fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum. Tryggingastofnun á því endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Þá var kæranda skylt að upplýsa Tryggingastofnun um flutning sinn til B, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna. Úrskurðarnefndin telur að kærandi hafi verið meðvitaður um þá skyldu sína, enda hefur hann verið á greiðslum frá stofnuninni frá árinu 2007 og hefur ítrekað verið upplýstur um skyldu til að láta vita ef breytingar verða á aðstæðum í umsóknum sem hann hefur skilað inn til stofnunarinnar, sbr. til dæmis umsókn, móttekna 15. ágúst 2016. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur. Því ber kæranda að endurgreiða ofgreiddar bætur vegna tímabilsins 1. febrúar 2017 til 31. október 2017 með 15% álagi, sbr. 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi byggir á því að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva örorkulífeyri sökum búsetu í B brjóti gegn 65. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Fram kemur að ef hann væri búsettur innan EES, Kanada eða Bandaríkjanna myndi hann halda örorkulífeyrisgreiðslunum sínum.

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá segir í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að öllum, sem þess þurfi, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðva greiðslur örorkulífeyris vegna búsetu í B sé í samræmi við lög um almannatryggingar. Þá telur úrskurðarnefndin að framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar komi ekki í veg fyrir að löggjafanum sé heimilt að setja í lög ákvæði um búsetu og lágmarksdvöl á Íslandi til þess að einstaklingar öðlist rétt samkvæmt almannatryggingakerfinu. Það sama á við ákvæði um undanþágur frá búsetuskilyrðum. Þá er bent á að búsetuskilyrði og undanþágur frá búsetuskilyrðum með milliríkjasamningum eiga jafnt við um alla sem eru í sömu stöðu. Til að mynda á enginn sem búsettur er í B rétt á undanþágum frá búsetuskilyrðum og undanþágur sem veittar eru frá búsetuskilyrðum með EES-samningnum vegna búsetu innan EES-svæðisins ná til allra sem búsettir eru á svæðinu að öðrum skilyrðum uppfylltum. Ekki er því fallist á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins brjóti gegn 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar frá 26. október 2017 um stöðvun og endurkröfu ofgreiddra bóta með 15% álagi staðfest.

B. Synjun um endurupptöku örorkumats

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda fyrst metinn örorkulífeyrir með ákvörðun, dags. 4. desember 2008. Gildistíminn var ákvarðaður frá 1. október 2008 til 30. september 2009. Það mat var síðar framlengt. Með erindum, dagsettum 16. og 18. október 2018, fór kærandi fram á greiðslu örorkulífeyris og tengdra bóta tvö ár aftur í tímann fyrir töku örorkulífeyris, auk dráttarvaxta að viðbættu 25% álagi. Tryggingastofnun synjaði beiðni kæranda á þeim grundvelli að ekki væri fyrir hendi heimild í lögum nr. 100/2007 til að greiða örorkulífeyri fyrir tímabil þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði örorkulífeyris.

Af framangreindu verður ráðið að Tryggingastofnun hafi litið á beiðni kæranda um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris sem nýja umsókn. Ef litið er á erindið sem nýja umsókn telur úrskurðarnefnd velferðarmála ljóst að ekki sé heimilt að fallast á kröfu kæranda þegar af þeirri ástæðu að ekki er heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og nauðsynleg gögn hafa borist stofnuninni, sbr. 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur aftur á móti að líta beri á beiðni kæranda um greiðslu örorkulífeyris tvö ár aftur í tímann frá upphafstíma fyrsta örorkumats sem beiðni um endurupptöku á því mati. Tryggingastofnun fjallaði um það í greinargerð sinni í málinu að skilyrði endurupptöku væru ekki heldur uppfyllt og úrskurðarnefndin telur að í framangreindri umfjöllun felist synjun um endurupptöku.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga er svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laganna segir að í 2. mgr. ákvæðisins sé að finna skilyrði sem sett séu til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd og sé ætlað að koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka mjög gömul mál sem erfitt geti verið að upplýsa. Markmiðið með ákvæðum 2. mgr. sé að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt sé. Þá kemur fram að telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.

Samkvæmt þágildandi 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fellur skuld eða önnur krafa, sem ekki hefur verið viðurkennd eða lögsótt innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í lögunum, úr gildi fyrir fyrningu. Kröfur um lífeyri fyrnast á fjórum árum samkvæmt þágildandi 2. tölul. 3. gr. laganna, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 16. október 2003 nr. 549/2002. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því allt sem bendir til þess að krafa kæranda um greiðslu örorkulífeyris aftur í tímann sé fyrnd. Þegar af þeirri ástæðu mæla veigamiklar ástæður ekki með því að Tryggingastofnun taki örorkumat kæranda til endurskoðunar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um endurupptöku örorkumats frá 4. desember 2008. 

C. Synjun um örorkulífeyri

Eins og áður hefur komið fram var kærandi búsettur í B þegar Tryggingastofnun ríkisins synjaði honum um örorkulífeyri með ákvörðun, dags. 29. október 2018. Ljóst er því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar um búsetu á Íslandi á þeim tíma. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorkulífeyri staðfest.

D. Afgreiðsla á beiðni um upplýsingar

Um upplýsingarétt aðila máls er fjallað í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, en þar segir í 1. máls 1. mgr. ákvæðisins að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál hans varði. Þá er í 19. gr. stjórnsýslulaga fjallað um rökstuðning synjunar og kæruheimild. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Ákvörðun stjórnvalds um að synja málsaðila um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann að nokkru leyti skal tilkynnt aðila og rökstudd í samræmi við V. kafla laga þessara.

Kæra má synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra skal borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina.“

Kærandi krefst þess að Tryggingastofnun veiti honum upplýsingar um hver hafi tilkynnt stofnuninni um búsetu hans í B. Samkvæmt því sem kemur fram í tölvupósti Tryggingastofnunar 14. mars 2019 fékk stofnunin ekki ábendingu frá einhverjum einstaklingi um búsetu kæranda í B heldur hafi hann komið upp á eftirlitslista sökum þess að hann hafi skráð sig inn á „Mínar síður“ frá B. Af framangreindu verður ráðið að þær upplýsingar sem kærandi óskar eftir eru ekki til. Úrskurðarnefndin telur ekki forsendur til að draga staðhæfingar Tryggingastofnunar í efa.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga má kæra synjun eða takmörkun á aðgangi að gögnum máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Skýra ber ákvæðið svo að einungis sé hægt að kæra ákvörðun sem felur í sér synjun eða takmörkun á aðgangi að gögnum. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst svar þess efnis ekki vera synjun stjórnvalds í skilningi 19. gr. stjórnsýslulaga. Þeim hluta kæru, sem varðar beiðni kæranda um gögn, er því vísað frá úrskurðarnefndinni.

E. Aðrar málsástæður kæranda

Kærandi byggir á því að Tryggingastofnun hafi brotið gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga við meðferð máls hans.

Um stjórnsýslukærur er fjallað í 13. gr. laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.“

Þá segir í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála að úrskurðarnefndin skuli úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum sem kveði á um málskot til nefndarinnar.

Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um tilteknar stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Ágreiningsefni samkvæmt almennum hegningarlögum og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eiga því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Framangreindar málsástæður kæranda verða því ekki teknar til skoðunar í máli þessu.

Kærandi gerir einnig athugasemdir við að Tryggingastofnun hafi sent ábendingu til Þjóðskrár um búsetu hans í B og framkvæmd Þjóðskrár í framhaldinu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að framangreind ábending Tryggingastofnunar sé ekki stjórnvaldsákvörðun á grundvelli laga um almannatryggingar. Þá endurskoðar úrskurðarnefndin ekki ákvarðanir Þjóðskrár. Úrskurðarnefndin tekur því framangreindar málsástæður ekki til skoðunar í máli þessu.

Kærandi gerir jafnframt kröfu um miskabætur á hendur Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála. Í lögum um almannatryggingar er ekki heimild til greiðslu miskabóta. Úrskurðarnefndin felst því ekki á þá kröfu kæranda.

Kærandi krefst þess einnig að fá uppgefinn fjölda þeirra einstaklinga sem hafi lent í sömu lögbrotum hjá úrskurðarnefndinni. Úrskurðarnefndin telur ekki ljóst til hvaða lögbrota kærandi sé að vísa en bendir á að úrskurðir nefndarinnar eru birtir á vefsíðu stjórnarráðsins.

Að lokum byggir kærandi á því að allir nefndarmenn úrskurðarnefndar velferðarmála séu vanhæfir til þess að afgreiða mál hans sökum þess að hann hafi þurft að leita til umboðsmanns Alþingis með mál sitt. Um vanhæfisástæður er fjallað í 3. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að vanhæfisástæður, sem tilgreindar eru í 1. til 5. tölul. 3. gr. laganna, eiga ekki við. Þá telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að umboðsmaður Alþingis hafi gert athugasemdir við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar séu ekki fyrir hendi ástæður sem til þess séu fallnar að draga óhlutdrægni nefndarmanna úrskurðarnefndarinnar í efa með réttu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laganna. Í því sambandi skal tekið fram að starfsmaður verður almennt ekki vanhæfur til að fara með á mál á ný við endurupptöku máls, enda þótt hann hafi áður tekið ákvörðun í því eða komið að úrlausn þess á fyrri stigum. Ekki er því fallist á að nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar séu vanhæfir til þess að afgreiða mál þetta.  

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og endurupptöku á örorkumati hans, eru staðfestar. Ákvörðun stofnunarinnar um stöðvun örorkulífeyrisgreiðslna og endurkröfu ofgreiddra bóta með 15% álagi er staðfest. Þeim hluta kæru, sem varðar beiðni kæranda um gögn, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum