Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2009 Innviðaráðuneytið

Óskað upplýsinga um reglur um afslátt fasteignaskatta sveitarfélaga

Samgönguráðuneytið hefur óskað eftir því við sveitarfélög landsins að þau upplýsi ráðuneytið um reglur þeirra varðandi afslátt á fasteignaskatti elli- og örorkulífeyrisþega og hvernig háttað sé birtingu þeirra. Óskað er eftir þessum upplýsingum eigi síðar en 2. febrúar næstkomandi.

Tilefnið er úrskurður samgönguráðuneytisins á síðasta ári í máli er varðaði ágreining um hvort sveitarfélagi væri heimilt að veita flatan afslátt á fasteignaskatti eða binda hann eingöngu við tekjur. Í málinu kom fram að sveitarfélag hafði um árabil veitt elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt af fasteignaskatti og eftir atvikum fellt hann niður. Í því sambandi hafi verið tekið mið af tekjum viðkomandi. Árið 2003 var hins vegar gerð sú viðbót við tekjutengda afsláttarkerfið að boðinn var flatur afsláttur fyrir ákveðinn aldurshóp. Fasteignaskattur umræddra aðila féll þannig niður þegar árstekjur voru undir ákveðnum viðmiðunarmörkum en við önnur mörk var veittur 80% afsláttur. Fyrir utan þennan tekjutengda afslátt var öllum elli- og örorkulífeyrisþegum veitt föst fjárhæð í afslátt og þeir sem voru 70 ára og eldri fengu hærri afslátt.

Úrskurður samgönguráðuneytisins var á þá leið að slíkur flatur afsláttur væri ekki í samræmi við 4. málsgrein 5. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Þar kæmi skýrt fram að afsláttarheimildin ætti einungis við tekjulitla einstaklinga. Úrskurðinn má nálgast hér.

Af þessu tilefni hefur samgönguráðuneytið skrifað sveitarfélögum og óskað eftir upplýsingum um fyrrgreindar afsláttarreglur þeirra. Vísað er til leiðbeininga um túlkun og beitingu fyrrgreindrar lagagreinar sem sjá má hér.

Þess er vænst að upplýsingarnar berist ráðuneytinu eigi síðar en 2. febrúar næstkomandi.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum