Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingar um málefni útlendinga

Aðgerðir sem tilgreindar eru í framkvæmdaáætlun Alþingis og aðgerðir velferðarráðuneytisins á undanförnum misserum taka á þeim þáttum sem Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við árið 2015.  Stofnunin ítrekar því ekki fyrri athugasemdir sínar.

Ríkisendurskoðun hefur birt eftirfylgniskýrslu um málefni útlendinga og innflytjenda á Íslandi í framhaldi af skýrslu stofnunarinnar sem kom út í mars 2015. Í þeirri skýrslu beindi stofnunin þremur athugasemdum til velferðarráðuneytisins sem fólu í sér að jafna þyrfti aðstöðumun flóttafólks, auka stuðning við innflytjendur og innleiða löggjöf sem bannar mismunun.

Frá því að skýrslan 2015 var birt hefur Alþingi samþykkt þingsályktun í málefnum innflytjenda (nr. 63/145). Málefni flóttafólks eru ein af stoðum þeirrar áætlunar og hefur velferðarráðuneytið unnið að skilgreindum aðgerðum sem þar koma fram og miða að því að jafna aðstöðumun flóttafólks.

Í eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar um viðbrögð velferðarráðuneytisins við ábendingum stofnunarinnar frá árinu 2015 segir m.a:

,,Velferðarráðuneyti hefur jafnframt beitt sér fyrir aðgerðum sem eiga að stuðla að virkri þátttöku innflytjenda í íslensku samfélagi og auka stuðning við þá. Í fyrrgreindri framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda eru skilgreindar aðgerðir sem taka m.a. á þeim þáttum sem Ríkisendurskoðun benti á að bæta þyrfti úr, m.a. íslenskukennslu, menntun, túlkaþjónustu og atvinnuþátttöku. Viðhorf almennings til innflytjenda hafa verið könnuð, sbr. rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands (febrúar 2017), og ráðgert er að endurtaka slíkar kannanir á gildistíma áætlunarinnar. Söfnun og aðgengi að tölfræðiupplýsingum um stöðu innflytjenda hefur verið bætt og stofnanir ráðuneytisins, þ.á.m. Fjölmenningarsetur og Vinnumálastofnun, unnið að framgangi einstakra aðgerða í samstarfi við aðra opinbera aðila. Síðan 2015 hefur erlendum ríkisborgurum á atvinnuleysisskrá fjölgað en samkvæmt svari velferðarráðuneytis leitast Vinnumálastofnun við að tryggja atvinnuleitendum jöfn tækifæri óháð uppruna. Ríkisendurskoðun telur að þær aðgerðir sem eru tilgreindar í framkvæmdaáætluninni komi til móts við þá ábendingu að auka þurfi stuðning við innflytjendur og að velferðarráðuneyti hafi unnið að því markmiði. Ábendingin er því ekki ítrekuð en Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að vinna með markvissum hætti að framgangi áætlunarinnar.

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur boðað að frumvörp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna verði lögð fram á Alþingi í febrúar 2018. Þótt samhljóða frumvörp hafi áður ekki náð fram að ganga telur Ríkisendurskoðun að velferðarráðuneyti hafi fyrir sitt leyti brugðist við ábendingu stofnunarinnar um að innleiða þurfi löggjöf sem bannar mismunun og er hún því ekki ítrekuð.“

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum