Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 29/2020. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 17. júlí 2020
í máli nr. 29/2020:
Mannvit hf.
gegn
Reykjavíkurborg
Veitum ohf.
Mílu ehf.
Gagnaveitu Reykjavíkur ehf.
og Eflu hf.

Lykilorð
Hafnað að aflétta stöðvun samningsgerðar. Auglýsing á EES svæðinu.

Útdráttur
Hafnað var kröfu varnaraðila um að aflétta banni við samningsgerð í kjölfar útboðsins „Tryggvagata og Naustin Endurgerð 2020-2021 Eftirlit“.

Með kæru 30. júní 2020 kærði Mannvit hf. útboð innkaupadeildar Reykjavíkurborgar fyrir hönd umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Veitna ohf., Mílu ehf. og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) „Tryggvagata og Naustin Endurgerð 2020-2021 Eftirlit“. Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð Eflu hf. í hinu kærða útboði verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila og að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað. Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum verði hafnað og kæranda gert að greiða málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í maí 2020 auglýsti varnaraðili útboð sem miðaði að því að gera samning um eftirlit með öllum framkvæmdum varnaraðila vegna endurgerðar Tryggvagötu, milli Grófar og Pósthússtrætis, og Nausta, milli Geirsgötu og Tryggvagötu. Eftirlitið tekur til jarðvinnu, lagnavinnu og yfirborðsfrágangi en einnig öryggis- og aðgengismála. Grein 0.1.3 í útboðsgögnum nefndist „kröfur til bjóðenda“ og var skipt niður í fjórar undirgreinar merktar A til D. Undirgrein A nefndist „kröfur um hæfni og reynslu“ og þar var fjallað um kröfur sem gerðar voru til boðinna starfsmanna eftir tilteknum flokkum. Fyrsti flokkurinn nefndist „Verkefnisstjóri“ og þar voru meðal annars gerðar kröfur um að verkefnisstjóri hefði 10 ára reynslu, hefði unnið að sambærilegum verkum og lokið tilteknum námskeiðum. Í flokknum „Eftirlitsmenn“ sagði meðal annars: „Miða skal við að bjóðandi hafi til ráðstöfunar minnst þrjá menn, í eftirliti með jarðvinnu, lagnavinnu og yfirborðsfrágangi. Einungis skal nefna þá sem eiga að vinna að eftirlitsverkinu.“ Kaflanum var svo skipt niður í undirkaflana „Eftirlitsmaður I“, „Eftirlitsmaður II“ og „Eftirlitsmaður í öryggismálum“. Síðasti flokkurinn nefndist „Mælingamaður“ og þar sagði meðal annars: „Gerð er krafa um að mælingamaður hafi a.m.k. 3 ára almenna starfsreynslu sem mælingamaður og að hann hafi annast mælingar við a.m.k. eitt sambærilegt útboðsverk. Eftirlitsmaður I eða II getur einnig verið mælingamaður ef hann uppfyllir kröfur um starfsreynslu sem mælingamaður“. Af útboðsgögnum, einkum grein 0.4.6 í útboðsgögnum og tilboðsblaði, verður ráðið að val tilboða skyldi ráðast af lægsta verði.

Alls bárust fjögur tilboð og við opnun þeirra 2. júní 2020 kom í ljós að kærandi átti lægsta tilboðið að fjárhæð 25.105.500 krónur en Efla hf. næst lægsta tilboð að fjárhæð 25.137.500 krónur. Kostnaðaráætlun varnaraðila var 30.000.000 króna. Með tölvupósti 26. júní 2020 tilkynnti varnaraðili að tilboð Eflu hf. hefði verið valið og að tilboð kæranda hefði ekki talist uppfylla kröfur sem fram kæmu í grein 0.1.3 í útboðsgögnum. Ástæðan var sú að í tilboðinu hefði verið „stillt upp verkefnastjóra og tveimur eftirlitsmönnum“ en gögnin hafi gert kröfu um fjögur stöðugildi að lágmarki.

Kærandi byggir á því að útboðsgögn komi ekki í veg fyrir að einn og sami maðurinn fari með fleiri en eitt hlutverk og hvergi komi fram að bjóða skuli að lágmarki fjóra starfsmenn til þess að fullnægja kröfum samkvæmt grein 0.1.3 í útboðsgögnum. Þá telur kærandi að jafnvel þótt útboðsgögn yrðu túlkuð með þeim hætti sem varnaraðilar byggi á þá hafi borið að gefa kæranda kost á að bæta úr annmörkum á tilboðinu. Varnaraðili telur að útboðsgögn hafi gert skýran áskilnað um a.m.k. fjóra starfsmenn og ekki sé skylt að gefa kæranda kost á að bæta úr slíkum annmarka á tilboði.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup skulu innkaup sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 4. mgr. 23. gr. laganna, auglýst á öllu svæðinu með milligöngu útgáfuskrifstofu Evrópusambandsins. Í 4. mgr. 23. gr. laganna segir að ráðherra skuli birta viðmiðunarfjárhæðir fyrir opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu í íslenskum krónum í reglugerð. Núgildandi reglugerð er nr. 260/2020 um útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir og innkaup samkvæmt samningi Alþjóða-viðskiptastofnunarinnar (WTO) vegna opinberra innkaupa. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur meðal annars fram að viðmiðunarfjárhæðir vegna skyldu sveitarfélaga og stofnana þeirra til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu séu 27.897.000 krónur vegna þjónustusamninga en 697.439.000 krónur vegna verksamninga.

Af gögnum málsins verður ráðið að hið kærða útboð var ekki auglýst á evrópska efnahagssvæðinu heldur einungis innanlands. Þá liggur fyrir að kostnaðaráætlun varnaraðila var 30.000.000 króna. Í auglýsingu útboðsins og útboðsgögnum er vísað til þess að gera eigi samning um „eftirlitsverk“ en ekki er ljóst af gögnunum hvort varnaraðili lítur svo á að með innkaupunum sé stefnt að gerð þjónustusamnings eða verksamnings. Samkvæmt útboðsgögnum miða innkaupin ekki að því að gera samning um verkframkvæmd heldur eftirlit með slíkri framkvæmd. Eins og málið liggur fyrir nú telur kærunefnd útboðsmála verulegar líkur á því að innkaupin lúti að gerð þjónustusamnings. Eins og áður segir var kostnaðaráætlun varnaraðila yfir viðmiðunarfjárhæð EES fyrir þjónustusamninga sveitarfélaga en útboðið var ekki auglýst í samræmi við það.

Að öllu framangreindu virtu eru verulegar líkur á að því að hið kærða útboð hafi brotið í bága við lög eða reglur um opinber innkaup sem leitt getur til ógildingar útboðsins og þar með ákvörðunar um val á tilboði, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Kröfu varnaraðila um að aflétt verði banni við samningsgerð á þessu stigi málsins verður því hafnað.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, innkaupadeildar Reykjavíkurborgar fyrir hönd umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Veitna ohf., Mílu ehf. og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., um að aflétt verði banni við samningsgerð milli varnaraðila og Eflu hf. í kjölfar útboðsins „Tryggvagata og Naustin Endurgerð 2020-2021 Eftirlit“.


Reykjavík, 17. júlí 2020


Sandra Baldvinsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Hildur Briem




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum