Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2009 Félagsmálaráðuneytið

Aðgerðir til að efla atvinnuástand

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur ýtt úr vör vinnu við fjölbreyttar aðgerðir gegn atvinnuleysi í samræmi við fyrstu tillögur starfshóps þar um.

Í tillögum starfshópsins kom fram að grípa þyrfti til margvíslegra úrræða til að bregðast við gríðarlegum samdrætti í byggingariðnaði. Nauðsynlegt væri að beina sjónum fyrst og fremst að viðhaldsverkefnum í ljósi offramboðs á fasteignum og lækkandi fasteignaverðs. Tillögurnar lúta að því að rýmka verulega heimildir Íbúðalánasjóðs til lána vegna stórra og smárra viðhaldsverkefna, innan húss sem utan og jafnt vegna leiguhúsnæðis í eigu félaga, félagasamtaka og jafnvel sveitarfélaga, ekki síður en eignaríbúða einstaklinga eins og heimildir sjóðsins hafa miðast við hingað til. Félags- og tryggingamálaráðherra hefur þegar staðfest tvær reglugerðir um starfsemi Íbúðalánasjóðs þar sem meðal annars er kveðið á um endurbótalán vegna leiguíbúða sem vænst er að ýta muni undir framkvæmdir og fjölga störfum. Þar er kveðið á um nýja lánaflokka, rýmri útlánareglur og heimildir til veðlánaflutninga.

Lagt er til að stjórnvöld hlutist til um tímabundna breytingu á lögum þannig að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis verði hækkuð í allt að 100% í stað 60% eins og núgildandi lög kveða á um. Félags- og tryggingamálaráðherra hefur beint þessu erindi til fjármálaráðuneytisins.

Lagt er til að skipaður verði vinnuhópur með fulltrúum stjórnvalda, sveitarfélaga og stærstu framkvæmdaaðila af hálfu hins opinbera sem finni leiðir til að auka mannaflsfrekar framkvæmdir. Forsætisráðuneytinu er falið að hafa forgöngu um þetta verkefni.

Starfshópurinn lagði áherslu á að bæta þyrfti samspil Atvinnuleysistryggingasjóðs og Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem annmarkar á samspili þessara kerfa geri í ýmsum tilvikum óhagstætt og nánast ómögulegt fyrir atvinnulausa einstaklinga að hefja nám sem lánshæft er hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Í samræmi við þetta hefur félags- og tryggingamálaráðherra ákveðið að skipa vinnuhóp undir forystu ráðuneytis síns með fulltrúum menntamálaráðherra og aðila vinnumarkaðarins og hefur þegar verið óskað tilnefninga í hópinn.

Í ljósi gjörbreytts atvinnuástands og þeirrar reynslu sem fengist hefur af lögunum um atvinnuleysistryggingar hvað varðar réttindi atvinnulausra til atvinnuleysisbóta og mögulega framlengingu á nýju úrræði um hlutabætur, leggur starfshópurinn til að þegar verði hafist handa við endurskoðun laganna í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Ráðist verður í þetta verkefni á næstu dögum af hálfu félags- og tryggingamálaráðuneytisins.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira