Hoppa yfir valmynd
11. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sameiginlegar norrænar áskoranir ræddar á fundi félags- og heilbrigðisráðherra Norðurlanda

Af fundinum í morgun. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, stýrði í dag fundi félags- og heilbrigðisráðherra Norðurlandanna sem haldinn var að frumkvæði Íslands. Ísland fer nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og Guðmundur Ingi er samstarfsráðherra Norðurlanda. Um aukafund var að ræða sem fram fór á netinu og sat Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, fundinn sömuleiðis fyrir hönd Íslands.

Norræna ráðherranefndin hefur markað framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030 og samþykkt framkvæmdaáætlun fyrir fyrstu fjögur ár tímabilsins. Framtíðarsýnin felst í að Norðurlöndin eiga að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030. Vinna stendur nú yfir við mótun framkvæmdaáætlunar fyrir síðari hluta tímabilsins, árin 2025-2030, og var markmið fundarins í dag að ræða sýn ráðherranna vegna hennar.

„Ég vildi blása til fundar vegna þess að ég tel mikilvægt að við tryggjum góða og viðvarandi umræðu um norrænt samstarf á sviði félags- og heilbrigðismála. Við áttum á fundinum gagnlegar umræður um sameiginlegar norrænar áskoranir og þá möguleika sem við höfum til framtíðar í norrænu samstarfi á þessu sviði,“ segir Guðmundur Ingi.

„Meðal þess sem við ræddum er staða ungs fólks sem alltof margt er óhamingjusamt, einmana og einangrað. Við ræddum einnig mikilvægi þess að væntanleg græn umskipti á Norðurlöndunum verði samfélagslega sjálfbær og að allir geti tekið þátt. Á það var lögð mikil áhersla að jaðarhópar svo sem innflytjendur, fatlað fólk og hinsegin geti tekið þátt. Þá nefndu ráðherrarnir að saman gætum við tekist betur á við áskoranir eins og öldrun þjóðanna og hvernig við mætum breytingum í heilbrigðiskerfinu, meðal annars með virkum fyrirbyggjandi aðgerðum. Þessa þræði og fleiri tökum við nú áfram við mótun framkvæmdaáætlunarinnar.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum