Hoppa yfir valmynd
28. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Niðurstaða EFTA-dómstóls um réttindi útsendra erlendra starfsmanna á Íslandi

EFTA-dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 5. og 7. gr. laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007, brjóti gegn ákvæði EES-samningsins um frjálsa för og tilskipun Evrópusambandsins um lágmarksvernd þessara starfsmanna.

Eftirlitsstofnun EFTA stefndi íslenska ríkinu 19. ágúst á síðastliðnu ári vegna þessa máls og var dómur kveðinn upp hjá EFTA-dómstólnum í dag.

Óheimilt að kveða á um aukinn rétt starfsmanna

Með setningu laga nr. 45/2007 var í 5. og 7. gr. kveðið á um réttindi útsendra starfsmanna til launa í veikindum og um slysatryggingu þeirra við störf hér á landi. Þetta taldi Eftirlitsstofnun EFTA brjóta í bága við ákvæði samnings Evrópska efnahagssvæðisins um frjálsa för og tilskipun Evrópusambandsins um lágmarksvernd útsendra starfsmanna. Var það álit stofnunarinnar að ekki mætti kveða á um réttindi útsendra starfsmanna umfram þá skyldubundnu lágmarksvernd sem kveðið er á um í tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 1996 (96/71/EB). Eins taldi stofnunin að ákvæði 5. og 7. gr. laganna væru íþyngjandi fyrir erlend fyrirtæki sem senda starfsmenn til starfa hér á landi og brytu þannig gegn ákvæði samnings Evrópska efnahagssvæðisins um frjálsa för.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir dóminn valda vonbrigðum. Ákvæðum laganna um veikindarétt og slysatryggingu hafi verið ætlað að tryggja öllum erlendum starfsmönnum á vegum erlendra fyrirtækja hér á landi sama rétt og starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði hvað þetta varðar:

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra„Þetta þýðir að starfsmenn frá löndum þar sem réttindi launafólks eru minni en hér á landi njóta aðeins lágmarksverndarinnar sem tryggð er í tilskipun Evrópusambandsins.“ Guðbjartur segir að niðurstaða dómsins sé skýr og að óbreyttu sé því ekki um annað að ræða en að endurskoða ákvæði 5. og 7. gr. laganna í samræmi við hana. Aftur á móti standi nú yfir endurskoðun á tilskipun Evrópusambandsins hvað þetta varðar sem náið verði fylgst með af hálfu íslenskra stjórnvalda í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Guðbjartur hyggst einnig taka málið upp á vettvangi norrænna vinnumálaráðherra og ráðherra annarra Evrópuríkja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum