Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Viðbrögð við vaxandi fjölda barna og unglinga með fíknivanda

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun gerði Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra grein fyrir aðgerðum sem hann hefur nú til skoðunar til að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna vaxandi fjölda barna og ungmenna með fíknivanda. Um er að ræða annars vegar aðgerðir til að bregðast við bráðavanda og hins vegar aðgerðir til lengri tíma.

Unglingum sem leita meðferðar hjá Barnaverndarstofu og hafa notað sprautur og lyfseðilsskyld lyf til vímuefnaneyslu hefur fjölgað á undanförnum árum. Þá sýna tölur SÁÁ að fleiri ungmenni leita til samtakanna vegna fíknivanda en áður. Það sem af er ári hafa 74 leitarbeiðnir borist lögreglu vegna týndra barna en í flestum tilfellum er um að ræða börn sem nota vímuefni eða eiga við fíknivanda að etja. Þá hafa aldrei borist jafn margar leitarbeiðnir í einum mánuði og í nýliðnum mars en þá var 34 barna leitað. 

Forgangsraðað í þágu barna

„Við verðum að forgangsraða í þágu barnanna. Samfélag sem bregst ekki við svona þróun er óábyrgt samfélag,“ segir Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra. Að mati ráðherra er mikilvægt að gripa inn í þessa þróun sem allra fyrst og nú er til vinnslu að setja á laggirnar tilraunaverkefni fyrir unglinga sem sótt hafa meðferðarúrræði en ekki náð tökum á vanda sínum. Um væri að ræða sérhæft búsetuúrræði í framhaldi af vistun á meðferðarheimili þar sem áhersla yrði lögð á eftirmeðferð og stuðning við aðlögun að samfélaginu. Gert er ráð fyrir að einstaklingar geti dvalið í þessu úrræði til að minnsta kosti 18 ára aldurs og jafnvel lengur. Sérstökum verkefnahópi verður falið að vinna nánari útfærslu á slíku úrræði og er gert ráð fyrir að niðurstöður hans liggi fyrir eftir tvær vikur.

Fjölgun úrræða fyrir börn í fíknivanda

Ráðherra kynnti jafnframt á ríkisstjórnarfundi í morgun að sett verði af stað vinna þar sem horft verður til framtíðar og metið hvort þörf er á breyttum vinnubrögðum og hugsanlega fjölgun úrræða fyrir börn í fíknivanda. Að höfðu samráði við marga þeirra aðila sem koma að málefnum barna með fíknivanda hefur ráðherra ákveðið að skipa starfshóp til að kanna fleiri og fjölbreyttari hugsanleg úrræði fyrir þennan hóp. Áætlað er að starfshópurinn skili niðurstöðum sínum innan tveggja mánaða. „Ég hef átt fundi með fjölda foreldra, félagasamtökum og stjórnvöldum og það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða“.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum