Hoppa yfir valmynd
9. maí 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 195/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 9. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 195/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040065

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 524/2018, dags. 28. nóvember 2018, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Fyrir liggur að kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 3. desember 2018. Kærandi lagði fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 7. desember sl. og þann 12. desember sl. barst fyrri beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Beiðnum kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og endurupptöku málsins var synjað af kærunefnd með úrskurðum nr. 9/2019 og 21/2019, dags. 15. janúar 2019.

Þann 4. apríl sl. lagði kærandi öðru sinni fram beiðni um endurupptöku máls síns. Með beiðninni lagði kærandi fram greinargerð og fylgigögn. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í máli kæranda dagana 15. apríl og 9. maí 2019.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er því haldið fram að kærandi hafi upplifað hræðilega hluti á stuttri lífsleið. Faðir kæranda hafi verið drepinn af talibönum þegar kærandi hafi verið 17 ára og hafi kærandi í kjölfarið flúið frá Afganistan til Tyrklands og loks til Grikklands. Meðan kærandi hafi dvalið í flóttamannabúðum á eyjunni Chios í Grikklandi hafi hann verið beittur kynferðisofbeldi. Vísar kærandi í því sambandi til lögregluskýrslu sem hann hafi lagt fram með umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Í kjölfar árásarinnar hafi kærandi lifað við stöðugan ótta um líf sitt og öryggi. Kvörtunum hans til lögreglu hafi ekki verið sinnt og hann hafi aftur orðið fyrir alvarlegri líkamsárás. Vísar kærandi í því sambandi til fyrirliggjandi mynda og annarra gagna sem hann hafi lagt fram með umsókn sinni. Þá kveður kærandi að hann hafi verið smánaður og hótað kynlífsþrælkun. Í Grikklandi hafi hann ekki fengið sálræna aðstoð, verið einangraður og dvalist í allt að 20 daga í gámi án matar. Flutningur um set þar í landi hafi lítið hjálpað þar sem sögur um hann hafi borist á milli staða.

Þá er því haldið fram í greinargerð kæranda að hann hafi verið metinn með áfallastreituröskun og í sjálfsvígshættu. Hann sé afar viðkvæmur vegna fyrri reynslu, slæmrar andlegrar heilsu og líkamlegra meiðsla. Enn fremur sé hann án alls baklands í Grikklandi en talsmaður hans segir fjölskyldu sína vilja annast hann og veita honum stuðning. Kærandi óttist að verða fyrir illri meðferð við endursendingu til Grikklands, m.a. þar sem honum hafi ítrekað verið hótað kynlífsþrælkun. Kveður kærandi að það sé þekkt í Grikklandi að ungir strákar séu misnotaðir kynferðislega og neyddir í vændi. Þá séu flestir þolendur kynlífsþrælkunar ungir strákar af afgönskum og sýrlenskum uppruna. Vísar kærandi í því sambandi til ýmissa frétta og skýrslna. Að mati kæranda hafi grísk stjórnvöld ekki gripið til viðeigandi ráðstafana til að stemma stigu við framangreindu. Kærandi hafi verið heppinn að flýja þann hræðilega raunveruleika og tilhugsunin um að verða sendur aftur í sams konar aðstæður sé yfirþyrmandi og óhugsandi. Íslenskum yfirvöldum beri skylda til að senda kæranda ekki þangað sem hann óttist illa og vanvirðandi meðferð.

Í greinargerð sinni vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 92/2019, frá 13. mars sl., í máli einstaklings frá Afganistan með alþjóðlega vernd í Grikklandi sem hafi verið 17 ára við komuna til landsins en orðið 18 ára við málsmeðferðina. Telji kærandi framangreindan úrskurð hafa fordæmisgildi í máli sínu. Kærandi glími ekki einungis við slæma andlega heilsu heldur einnig líkamleg meiðsli. Í framlögðum heilsufarsgögnum komi m.a. fram að kærandi sé með slit á fremra krossbandi og sé í meðferð hjá sjúkraþjálfara, sem kærandi kveður að sé mjög óæskilegt sé að rjúfa. Þá sé fyrirhugað að kærandi gangist undir aðgerð hjá bæklunarskurðlækni vegna framangreinds.

Kærandi kveður að hann hafi tengst fjölskyldu talsmanns síns sterkum böndum og þá ábyrgist talsmaður hans allan kostnað hans vegna. Kærandi komi ekki til með að verða byrði á íslenskum skattgreiðendum heldur langi hann til að stunda atvinnu og nám hér á landi. Þá segir kærandi í greinargerð sinni að íþróttafélagið […] hafi lýst því yfir að það vilji fá kæranda í sínar raðir vegna knattspyrnuhæfileika hans. Félagið sé þá í átaki í þeim tilgangi að fjölga iðkendum af erlendum uppruna og telji að kærandi myndi vera góð fyrirmynd fyrir allan þann fjölda barna af erlendum uppruna sem búi í Kópavogi.

Með beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram ljósrit af dvalarleyfiskorti og flóttamannavegabréfi, útgefnum af grískum yfirvöldum, vottorð og beiðni bæklunarskurðlæknis, meðferðaráætlun sérfræðings í íþróttasjúkraþjálfun og yfirlýsingu frá framkvæmdastjóra […].

III.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 28. nóvember 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærunefnd mat kæranda í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Svo sem fram hefur komið lagði kærandi m.a. fram með endurupptökubeiðni sinni meðferðaráætlun sérfræðings í íþróttasjúkraþjálfun, dags. 29. mars 2019, þar sem kemur m.a. fram að hann hafi slitið krossband við knattspyrnuiðkun sl. sumar og undirgangist nú sjúkraþjálfun hér á landi vegna þess. Samkvæmt beiðni bæklunarskurðlæknis um sjúkraþjálfun, dags. 9. maí 2019, gekkst kærandi undir aðgerð vegna liðþófaáverka á hné þann 8. maí 2019.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 28. nóvember sl. og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu, þ. á m. framlagða meðferðaráætlun sérfræðings, vottorð og beiðni bæklunarskurðlæknis og upplýsingar um tengsl kæranda við íþróttafélagið […] og fjölskyldu talsmanns síns hér á landi. Þau nýju gögn sem lögð hafa verið fram, m.a. varðandi heilsufar kæranda, benda ekki til þess að um verulega breyttar aðstæður hans sé að ræða frá því að úrskurður kærunefndar lá fyrir í máli hans. Við ákvörðunartöku í máli kæranda var lagt til grundvallar, með vísan til framburðar hans, framlagðra gagna frá Grikklandi og fyrirliggjandi gagna um aðstæður þar, að hann gæti leitað sér viðhlítandi heilbrigðisþjónustu þar í landi vegna heilsufarsvandamála sinna. Þá lá jafnframt fyrir við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar að kærandi væri ungur að árum og glímdi við kvíða, streitu og afleiðingar ofbeldis og sýndi einkenni áfallastreituröskunar. Var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar kærunefndar nr. 92/2019 frá 13. mars 2019 verður þá tekið fram að kærunefnd telur málin ekki sambærileg, m.a. þar sem kærandi í framangreindu máli var barn við komuna hingað til lands, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017.

Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kæranda, sem hann ber fyrir sig í máli þessu, í úrskurði kærunefndar frá 28. nóvember 2018. Þá ítrekar kærunefnd það sem fram kom í áðurgreindum úrskurði nefndarinnar þess efnis að kærandi, sem handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi, á rétt á sambærilegri félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og fyrirliggjandi gagna, þ.m.t. framlagðra gagna kæranda, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að áðurgreindur úrskurður hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Vegna framlagðrar yfirlýsingar framkvæmdastjóra […] vekur kærunefnd athygli á því, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, að í 63. gr. laga um útlendinga er kveðið á um heimildir einstaklinga til að öðlast rétt til dvalar hér á landi vegna starfa sem íþróttafólk hjá íþróttafélögum innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Umsóknum um slík dvalarleyfi skal beina til Útlendingastofnunar. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli lagaskilyrði til að fá útgefið dvalarleyfi á þeim grundvelli.

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                        Ívar Örn Ívarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum