Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundur ráðherra og forstjóra Barnaverndarstofu

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra, og Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu ræddu saman um helstu áherslur í starfi Barnaverndarstofu og verkefnin framundan á fundi í velferðarráðuneytinu í dag.

Á fundinum rakti Bragi helstu verkefnin sem stofnunin sinnir og hvernig áherslur í barnaverndarstarfi hafa þróast á liðnum árum.

Barnaverndarstofa er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir ráðherra og starfar á grundvelli barnaverndarlaga. Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að samhæfa barnaverndarstarf á landsvísu, efla faglega starfsemi á þessu sviði, vera til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum og hlutast til um þróunar- og rannsóknarstarf. Barnaverndarstofa annast einnig fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu og hefur eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt lögunum.

Fram kom í máli Braga að þótt Barnaverndarstofa gegni stjórnsýsluhlutverki sé  hlutverk hennar á sviði þjónustu umfangsmikið, vegna sérhæfðrar þjónustu sem ekki eru forsendur fyrir að veita á sveitarstjórnarstigi. Þar vegi starfsemi Barnahúss þungt og einnig Stuðlar – meðferðarstöð ríkisins, sem sinni greiningu og jafnframt meðferð barna til skemmri tíma, auk þess sem þar er rekin lokuð deild þar sem barnaverndarnefndir geta bráðavistað börn á aldrinum 13 – 18 ára þegar tryggja þarf öryggi barna vegna meintra afbrota eða alvarlegra hegðunarerfiðleika meðan önnur úrræði eru undirbúin. Á vegum Barnaverndarstofu eru jafnframt rekin þrjú meðferðarheimili á landsbyggðinni, fyrir börn á aldrinum 13 – 18 ára, þ.e. Háholt í Skagafirði, Laugaland í Eyjafjarðarsveit og Lækjarbakki á Rangárvöllum.

Á síðari árum hafa áherslur í barnaverndarstarfi þar sem þörf er fyrir sérhæfð úrræði færst í vaxandi mæli frá stofnanaþjónustu yfir í einstaklingsmiðuð úrræði sem sniðin eru að börnum og foreldrum þeirra og veitt í nærumhverfi þeirra, s.s. MST - fjölkerfameðferð og PMTO - foreldrafærni. Samhliða þessari þróun hefur dregið úr þörf fyrir rekstri meðferðarheimila fyrir börn og hefur þeim fækkað á liðnum árum.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, þakkaði Braga í lok fundarins fyrir greinargóða yfirferð um verkefni og áherslur í starfi Barnarverndarstofu.

Samkvæmt barnaverndarlögum ber velferðarráðuneytið ábyrgð á stefnumótun í barnavernd. Ráðherra skal leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarskosningum. Næst verður kosið til sveitarstjórna í maí 2018. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum