Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Yfirlýsing heilbrigðisráðherra frá fundi OECD í París

Heilbrigðisráðherrar OECD-ríkja - myndMynd: © OECD

Fundi heilbrigðisráðherra aðildrarríkja OECD í vikunni lauk með sameiginlegri yfirlýsingu ráðherranna. Þar er fjallað um helstu áskoranir framundan í heilbrigðismálum og eftir hvaða áherslum skuli unnið til að bæta frammistöðu heilbrigðiskerfanna, sporna við sóun og mæta sem best þörfum sjúklinga.

Í yfirlýsingu ráðherranna er vísað til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030, þar sem m.a. er fjallað um heilbrigði þjóða og aðgerðir sem stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan alla ævi.

Í yfirlýsingunni er bent á margt sem áunnist hefur á liðnum áratugum á sviði heilbrigðismála og bættrar lýðheilsu meðal aðildarríkja OECD. Þannig hafi lífslíkur við fæðingu lengst umtalsvert, öryggi heilbrigðisþjónustu og árangur meðferða aukist til muna og breyttur lífsstíll og árangur á sviði fyrirbyggjandi meðferðar hafi t.d. leitt til þess að dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma hafi minnkað um 50%. Þótt margt hafi snúist til betri vegar benda ráðherrarnir á að í mörgu þurfi að gera betur. Dregið hafi úr reykingum um fjórðung frá aldamótum en engur að síður reyki enn einn af hverjum fimm fullorðnum að jafnaði í ríkjum OECD, misnotkun áfengis sé vandamál og sömuleiðis offita og almennt hreyfingarleysi.

Þörf á nýrri sýn til framtíðar

„Þrátt fyrir að margvíslegur árangur hafi náðst standa heilbrigðiskerfi þjóða okkar frammi fyrir stórum áskorunum og þörf er á nýrri sýn fyrir framtíðina“ segir m.a. í yfirlýsingu ráðherranna. Í því sambandi er bent á ójöfnuð varðandi aðgang að heilbrigðisþjónustu og mun á heilsufari fólks sem tengist félagslegum og efnahagslegum aðstæðum. Enn fremur stafi þjóðum vaxandi ógn af loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á ýmsa þætti í umhverfinu. Bent er á aukna tíðni langvinnra og fjölþættra sjúkdóma, breyttar þarfir vegna hækkandi meðalaldurs þjóða, hættuna sem stafar af sýklalyfjaónæmi o.fl. Þessar áskoranir, samhliða þrengri útgjaldaramma kalli á breytingar þar sem áhersla sé m.a. lögð á að þróa og beita nýjum lausnum á sviði heilbrigðistækni, bæta þurfi árangursmælingar í heilbrigðiskerfinu til að stýra útgjöldum skynsamlega og draga úr sóun og miða þurfi kerfið betur að þörfum sjúklinganna. Síðast en ekki síst þurfi að efla og bæta notkun heilbrigðisupplýsinga og þeirrar gagnagnóttar (Big Data) sem fyrir liggur í heilbrigðiskerfinu.

Yfirlýsingu heilbrigðisráðherranna fylgir viðauki þar sem sérstaklega er fjallað um hagnýtingu heilbrigðisupplýsinga og settar fram leiðbeiningar hvað það varðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum