Hoppa yfir valmynd
19. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra leiddi umræður um viðskiptamál á fundi með Visegradríkjum

Guðlaugur Þór Þórðarson leiðir umræður á fundinum í morgun.  - myndUtanríkisráðuneytið

Staða mála gagnvart Rússlandi, öryggis- og varnarmál, samskiptin við Bandaríkin og þróun mála í Evrópu voru á meðal dagskrárefna á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna, Eystrasaltsríkja og Visegradríkjanna svonefndu (Póllands, Ungverjalands, Slóvakíu og Tékklands) í Stokkhólmi sem lauk nú fyrir stundu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sótti fundinn og leiddi umræðu um samskiptin við Bandaríkin og viðskiptamál. Sagði Guðlaugur Þór samskiptin vestur um haf mikilvægari en oft áður á tímum óvissu og áskorana í alþjóðamálum. Minnti ráðherra einnig á mikilvægi frjálsra viðskipta og gildi fyrirsjáanlegra leikreglna í alþjóðaviðskiptum.

„Ég hef ávallt verið talsmaður fríverslunar og frjálsra viðskipta. Það vinnur enginn viðskiptastríð. Í slíku stríði tapa allir,“ segir Guðlaugur Þór sem jafnframt undirstrikaði mikilvægi Atlantshafstengslanna sem ættu sér langa sögu og byggðu á gildum sem ávallt þyrfti að halda á lofti.

Utanríkisráðherrar Norðurlanda, Eystrasaltsríkjanna og Visegrad-ríkja á fundi í Stokkhólmi
Utanríkisráðherrar Norðurlanda, Eystrasaltsríkjanna og Visegrad-ríkja á fundinum í Stokkhólmi í morgun. 

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í næsta mánuði var einnig til umræðu, sem og orkuöryggismál, netöryggi og blandaðar ógnir. Þá skapaðist umræða um innflytjendamál í Evrópu og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og lagði Guðlaugur Þór áherslu á að forðast viðskiptahindranir í Evrópu við viðskilnað. 

„Þessi vettvangur tólf Evrópuríkja er mjög áhugaverður, meðal annars fyrir þær sakir að þarna koma fram ólík sjónarmið í einstaka málaflokkum. Það er gagnlegt að eiga slík samtöl sem endurspegla þá gerjun og þróun sem á sér stað í Evrópu,“ segir utanríkisráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum