Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Tónleikar til styrktar „Þú getur!“

Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra

Forvarna- og fræðslusjóðurinn ÞÚ GETUR!

Tónleikar í Háskólabíó

miðvikudagskvöldið 12. nóvember 2008.

 

 

Ágætu tónleikagestir og stofnendur forvarna og fræðslusjóðsins Þú getur!

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í kvöld. Hér finn ég, svo ekki verður um villst, að þrátt fyrir yfirstandandi erfiðleika í íslensku samfélagi eru góð málefni að fá meðbyr. Verkefni eins og stofnun forvarna-og fræðslusjóðsins Þú getur, verður að veruleika fyrir tilstuðlan öflugra einstaklinga sem vilja auka forvarnir og heilsueflingu á sviði geðheilsu.

Í Helsinkiyfirlýsingunni, sem er Evrópuyfirlýsing um geðheilbrigðismál og samþykkt var af heilbrigðisráðherrum aðildarríkja Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í janúar 2005 er lögð áhersla á að stuðla að bættu geðheilbrigði fyrir alla og efla skilning á mikilvægi góðrar geðheilsu. Þar að auki er talið brýnt að unnið sé gegn fordómum, mismunun og ójafnræði.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er þetta meðal annars gert með því að leggja áherslu á aukinn stuðning við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik. Fyrir réttu ári voru 150 milljónir króna veittar í verkefni á þessu sviði og hefur þjónustan við börn og ungmenni aukist þannig að verulega hefur dregið úr biðtíma eftir þjónustu. Einnig er í stefnuyfirlýsingunni lögð áhersla á að efla starfsendurhæfingu. Gerðir hafa verið samningar við fjölmarga aðila um atvinnutengda endurhæfingu sem miðast að því að auka þátttöku einstaklinga sem átt hafa við veikindi að stríða á vinnumarkaði.

Frá því að ég tók við embætti heilbrigðisráðherra hefur mér orðið tíðrætt um gildi forvarna og heilsueflingar. Heilsuefling er í allra þágu. Ég legg hins vegar áherslu á að forvörnum skuli ávallt beint að skilgreindum hópi þar sem markmiðin eru skýr og aðgerðir raunhæfar. Ég tel að leggja beri enn meiri áherslu en gert hefur verið á forvarnir á sviði  geðheilbrigðis. Í þessu sambandi vil ég nefna að á næstu dögum verður kynnt sérstök heilsustefna heilbrigðisráðherra þar sem meðal annars eru settar fram aðgerðir sem snúa að heilsueflingu og forvörnum á sviði geðheilbrigðismála.


Ágætu gestir

Það er hverju þjóðfélagi mikilvægt að geta boðið upp á fjölbreytt úrræði þegar kemur að stuðningi við einstaklinga sem hafa greinst með geðræn veikindi og því fagna ég sérstaklega stofnun þessa sjóðs sem ætlað er að styðja þá til náms sem hafa átt við geðræn veikindi að stríða, efla nýsköpun á sviði geðheilbrigðismála, efla fræðslu og forvarnir og standa fyrir aðgerðum sem draga úr fordómum í samfélaginu.

Ég þakka öllum þeim sem hér eiga hlut að máli og óska ykkur alls hins besta í starfi ykkar í framtíðinni.


(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum