Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Málþing um einelti á netinu

Ögmundur Jónasson

heilbrigðisráðherra

Ávarp Ráðherra

Málþing um einelti á netinu

HÍ, Skriðu, Stakkahlíð 10. feb 2009 kl: 14.30 -16.15

Kæru gestir

Allt frá því veraldarvefurinn kom til sögunnar varð ljóst að þar var komið tæki sem gerði mannkyninu kleift að afla, miðla og skiptast á upplýsingum með hætti sem við höfðum aldrei kynnst áður. Tölvan sem fyrst í stað veitti skemmtun og hafði komið í stað ritvélarinnar sem verkfæri tók nú á sig nýtt hlutverk og varð að einskonar upplýsingagátt inn á hvert heimili og vinnustað í hinum vestræna heimi. Börn og unglingar, sem eru afar móttækileg fyrir nýungum, bundust strax ákveðnum böndum yfir þessari nýju tækni. Jafnframt því að tileinka sér snemma samskiptamöguleika farsímans voru börn og ungmenni einnig fljót að aðlaga sig og nýta tölvurnar sem samskipta- og upplýsingatæki.

Nú er svo komið að það finnst varla barn eða ungmenni sem ekki á farsíma eða tölvu. Segja má að tölvurnar hafi gerbreytt því hvernig við eigum samskipti. Samskipti án talaðra orða. Auðvitað höfum við áður átt samskipti án talaðra orða t.d. með bréfaskrifum og bréfdúfum hér áður fyrr en sá hraði og aðgengileiki sem tæknin hefur veitt okkur hefur valdið stakkaskiptum. Unglingar og börn hafa verið sérstaklega dugleg við að tileinka sér þennan nýja samskiptamáta.

Við könnumst öll við unglinginn sem kemur heim eftir skólann og kveikir á fartölvunni og loggar sig inn á sitt heimasvæði. Opnar spjallforritið MSN og sér að þar eru nokkrir vinir inni. Skoðar heimasíðuna sína og athugar hvort einhver hafi skrifað í gestabókina. Einn hefur skrifað inná síðuna. Þar standa niðrandi orðin „hæ ljóta, þú ert feit“. Á meðan þetta gerist hafa fimm vinir bæst í hóp þeirra sem unglingurinn er að spjalla við á MSN um áhugamálin, skólann og fleira. ´Hæ’ frá vini á MSN skýtur upp kollinum. Hún vill ekki fara af spjallinu á meðan vinkonur hennar eru þar enn inni því þá gætu þær jafnvel talað illa um hana. Það er að nálgast háttatíma en hún vill ekki vera fyrst til að fara.

Öll þekkjum við til slíkra samskiptamynstra barna og unglinga á netinu. Samskipti barna og ungmenna á netinu eru að öllu jöfnu jákvæð og uppbyggileg. En ef til vill má segja að sakir eðlis samskiptamiðilsins, mögulegs nafnleysis og fjarlægðarinnar milli aðila aukist líkurnar á neikvæðum samskiptum. Það að áreita og niðurlægja einstakling ítrekað munnlega hefur niðurrífandi áhrif. Það á ekkert síður við um samskipti á netinu. Það er þekkt að einelti er einn af orsakavöldum þunglyndis og annara lyndisraskanna. Einelti hefur niðurrífandi áhrif á sjálfsmynd og sjálfstraust. Langvarandi einelti getur varpað löngum skugga á líf einstaklinga. Það er þekkt að gæði samskipta er einn af fjölmörgum áhrifaþáttum heilbrigðis. Við viljum öll að við séum virt sem manneskjur og að framkoma annarra í okkar garð sé uppbyggjandi. Börn og ungmenni eru enn að læra og þroskast og meðan við leiðbeinum þeim og kennum þeim að fóta sig í samskiptum við aðra er ekki síður mikilvægt að kenna þeim að sömu reglur gildi í samskiptum á netinu og öðrum samskiptum. Það gilda sömu umgengisreglur í samskiptum við annað fólk í netsamfélaginu og almennt, enda netsamfélagið órofahluti af samfélaginu.

Á vegum heilbrigðisráðuneytisins kom út á síðasta ári Heilsustefna sem í er að finna 11 markmið og 30 aðgerðir til heilsueflingar. Eitt af markmiðum stefnunnar er að „stuðla að heilbrigðum lífsháttum meðal barna á grunnskólaaldri“. Ein aðgerðin undir því markmiði er að hvetja og aðstoða grunnskóla við að útfæra heilsustefnu útfrá skólanámskrá sinni. Slíkar heilsustefnur eiga tvímælalaust að taka til eineltis í hvaða formi sem það birtist.

Ég tel tækifæri fyrir ný skólaráð grunnskólanna, sem í sitja foreldrar, skólastjórnendur, aðilar úr grenndarsamfélaginu og nemendur, að útfæra heilsustefnu skólans sem hluta af skólanámskránni sinni. Við slíka vinnu fengju skólaráðin aðstoð heilbrigðisráðuneytis og Lýðheilsustöðvar samkvæmt Heilsustefnunni.

Í dag er alþjóðlegi netöryggisdagurinn. Við megum ekki gleyma því að án öryggis er ekkert frelsi. Þetta á ekki hvað síst við á netinu. Með þetta að leiðarljósi lýsi ég þetta málþing um rafrænt einelti sett.

(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum