Hoppa yfir valmynd
20. desember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Efling samfélags á Vestfjörðum – ráðherra skipar starfshóp

Einar K. Guðfinnsson - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna tillögur um aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið á Vestfjörðum.

Gert er ráð fyrir að tillögur hópsins snúi að jarðhitaleit, aukinni orkuöflun, þjóðgarði á Vestfjörðum, eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum, sem og eftirfylgni með tillögum sem starfshópur um raforkumál á Vestfjörðum skilaði í fyrra. Þá ber starfshópnum að hafa samráð við stofnanir og haghafa eftir því sem við á.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum hefur kallað eftir að stjórnvöld styrki samkeppnisstöðu Vestfjarða til búsetu. Ýmsar áhugaverðar hugmyndir hafa kviknað hjá íbúum á svæðinu um hvernig bregðast skuli við þessari áskorun. Stjórnvöld, og samfélagið og atvinnulífið á Vestfjörðum þurfa að taka höndum saman við að móta frekar þessar hugmyndir. Það er von mín að tillögur starfshópsins verði lóð á þær vogarskálar og að þær muni efla og styrkja Vestfirði.“

Starfshópinn skipa:

Einar K. Guðfinnsson, formaður

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar,

Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð.

 

Með hópnum starfa Kjartan Ingvarsson, Steinar Kaldal og Erla Sigríður Gestsdóttir, frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Starfshópurinn á að skila tillögu til ráðherra fyrir 1. maí 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum