Hoppa yfir valmynd
24. október 2012 Innviðaráðuneytið

Tveimur frumvörpum sem varða tekjustofna sveitarfélaga dreift á Alþingi

Tveimur nýjum lagafrumvörpum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra sem varða tekjustofna sveitarfélaga hefur verið dreift á Alþingi og er gert ráð fyrir að ráðherra mæli fyrir þeim á morgun. Annað frumvarpið varðar svonefnt B-gatnagerðargjald en hitt tekjustofna sveitarfélaga sem snýst um að styrkja og skýra hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Frumvarpið um gatnagerðargjöldin kveður á um framlengingu heimildar sveitarfélaga til að leggja á svonefnt B-gatnagerðagjald, til ársloka 2015 en það er lagt fram að beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Er það gert í þeim tilgangi að veita þeim sveitarfélögum, sem ekki hafa enn lokið framkvæmdum við lagningu bundins slitlags á eldri götur, aukið svigrúm til að ljúka því verkefni og fjármagna framkvæmdir með álagningu og innheimtu B-gatnagerðargjalds á grundvelli 1. töluliðar bráðabirgðaákvæðis í lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006. Bráðabirgðaákvæðið hefur verið í lögum frá setningu laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, og gildir það aðeins um lóðir sem úthlutað var eða veitt var byggingarleyfi fyrir 1. janúar 1997. Ástæða þess að talin er þörf á að framlengja gildistíma 1. töluliðar bráðabirgðaákvæðisins til 31. desember 2015 er sú að komið hafa fram eindregnar óskir frá sveitarfélögum á landsbyggðinni sem ekki sjá fram á að geta lokið öllum gatnagerðarframkvæmdum fyrir lok árs 2012. Meðal þeirra eru sveitarfélög sem hafa þurft að skera verulega niður í rekstri undanfarin ár vegna bágrar fjárhagsstöðu og hefur fjármagn til gatnagerðarframkvæmda því verið lítið sem ekkert.

Markmið frumvarps um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga er tvíþætt. Í fyrsta lagi er í 1. gr. kveðið á um hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og er það ákvæði samhljóða reglugerð um Jöfnunarsjóð. Í þeim tilgangi að styrkja og skýra lögbundið hlutverk Jöfnunarsjóðs er talið rétt að setja inn í lögin ákvæði þar sem hlutverk hans er skilgreint þannig að það sé ekki eingöngu kveðið á um slíkt í reglugerð eins og verið hefur. Í 1. gr. er lagt til að ný 8. gr. laganna verði svohljóðandi: „Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.“

Í öðru lagi er lagt til að við 18. gr. laganna bætist skerðingarákvæði sem leysir að hluta af hólmi reglugerð sem ráðherra setti í lok síðasta árs en sú reglugerð hafði ekki nógu skýra lagastoð og var hún í sumar afturkölluð að hluta. Ákvæði 3. gr. er svohljóðandi:

„Við 18. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í reglugerð er heimilt að kveða á um að þau sveitarfélög sem hafa heildarskatttekjur af útsvari og fasteignaskatti sem teljast verulega umfram landsmeðaltal skuli ekki njóta framlaga úr Jöfnunarsjóði skv. d-lið 11. gr. og 1. mgr. 13. gr.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum