Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2013 Innviðaráðuneytið

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hvetur sveitarfélög til lækkunar skulda og hagræðingar

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, EFS, ritaði nýlega sveitarfélögum landsins bréf er varða ýmis atriði um fjármál sveitarfélaga. Er þar annars vegar minnt á fjárhagsleg viðmið um fjármál sveitarfélaga og hins vegar óskað eftir upplýsingum varðandi daglega fjármálastjórn. Þá hvetur nefndin sveitarstjórnir til að lækka skuldir og gæta leita hagræðingar.

Í bréfinu er minnt á mikilvægi fjárhagsáætlana og að þær feli í sér bindandi ákvarðanir um allar fjárhagslegar ráðstafanir sveitarfélags. Fjárhagsáætlanir séu mikilvægt stjórntæki sveitarfélaga og gegni lykilhlutverki við eftirlit með samanburði við rauntölur úr rekstri. Vegna þessara þátta óskar EFS eftir upplýsingum um með hvaða hætti sveitarfélög stýri og hafi eftirlit með fjármálum sínum frá einum mánuði til annars. Er óskað upplýsinga um árshlutauppgjör, greiðslu- og launaáætlanir og útkomuspá fyrir yfirstandandi fjárhagsár. Spurt er hvort framangreindir þættir séu fyrir hendi og hvernig og hversu oft sveitarstjórn meti fjármálastöðuna. Einnig er óskað upplýsinga um verkaskiptingu milli sveitarstjórnar og stjórnenda vegna eftirlits með fjármálastjórn. Óskað er eftir því að sveitarfélög skili umbeðnum upplýsingum eigi síðar en 1. desember næstkomandi.

Þá er í bréfinu minnt almennt á fjárhagsleg viðmið og hvatt til þess að mjög skuldsett sveitarfélög reyni með öllum tiltækum ráðum að lækka skuldir. Eigi það í raun við um öll sveitarfélög sem geti þá horft til möguleika á hagræðingu í því skyni að bæta þjónustu við íbúa. Vakin er athygli á jákvæða reynslu þeirra sveitarfélaga sem hafa fengið til liðs við sig óháða ráðgjafa við skoðun á möguleikum til hagræðingar og hafi úttektir slíkra ráðgjafa iðulega skilað árangri í rekstri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum