Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fréttatilkynning

Á fundi félagsmálaráðherra og Valgerðar H. Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, hinn 21. júlí sl., varð samkomulag um að Valgerður léti af störfum. Er í samkomulaginu gert ráð fyrir að hún starfi til 1. september nk. við að skila af sér verkefnum.

Í ljósi þessa hefur félagsmálaráðherra ákveðið að setja Ingibjörgu Broddadóttur, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, tímabundið í stöðu framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu frá og með deginum í dag. Einnig hefur verið ákveðið að auglýsa nú þegar embættið laust til umsóknar í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Reiknað er með að nýr framkvæmdastjóri geti tekið til starfa 1. október nk. Rétt er að taka fram að Ingibjörg hyggst ekki sækja um embættið.

Ingibjörg Broddadóttir hefur BA-próf í sálfræði frá Háskóla Íslands og MA í félagsráðgjöf frá Arizona State University. Hún hefur starfað í félagsmálaráðuneytinu frá 1991 og verið deildarstjóri frá 1993. Verkefni hennar hafa m.a. snúið að félagsþjónustu sveitarfélaga, barnavernd, málefnum innflytjenda, fíkniefnaforvörnum, umsjón með aðgerðum á Ári fjölskyldunnar 1994 og jafnrétti kynjanna. Hvað hið síðastnefnda varðar hefur hún m.a. komið að endurskoðun framkvæmdaáætlunar um jafnrétti kynjanna, umsjón með úthlutunum úr sjóði til atvinnumála kvenna og undirbúningi að stofnun Lánatryggingasjóðs kvenna.

Með þessari ákvörðun er það von ráðuneytisins að starfsemi Jafnréttisstofu geti haldið áfram með eðlilegum hætti og að ákvörðunin verði til þess að efla enn frekar samband ráðuneytisins og stofunnar.

Sesselja Árnadóttir, starfandi ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, og Sigurjón Örn Þórsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, héldu norður í dag ásamt Ingibjörgu og tilkynntu starfsmönnum Jafnréttisstofu þessa ákvörðun á fundi í hádeginu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum