Hoppa yfir valmynd
24. júní 2016 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar til umsagnar

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Félags- og húsnæðismálaráðherra birtir hér með til umsagnar drög að frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar. Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem unnið hefur verið að um árabil. Frumvarpsdrögunum fylgja einnig tvö fylgiskjöl, þ.e. drög að kostnaðarmati og drög að mati á kynbundnum áhrifum frumvarpsins.

Umsagnarfrestur er til 31. júlí 2016. Umsagnir skal senda með tölvupósti á netfangið [email protected] og merkja í efnislínu: Umsögn um almannatryggingafrumvarp


Aðdragandi og markmið endurskoðunar

Frumvarpið byggist á tillögum nefndar um endurskoðun almannatryggingar sem skilaði skýrslu til ráðherra í byrjun mars sl. Efni þess byggist á þeirri stefnu stjórnvalda að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku, einfalda almannatryggingakerfið og bæta samspil þess við lífeyrissjóðakerfið ásamt því að auka stuðning við þann hóp aldraða sem hefur mjög lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga.

Markmiðið með frumvarpinu er einnig að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna hækkandi hlutfalls eldri borgara af mannfjölda og lengingar meðalævinnar.  Lagt til að auka sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku og skapaður hvati fyrir aldraða til áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir vilja og getu hvers og eins auk þess að lífeyristökualdur verður hækkaður í skrefum um þrjú ár yfir 24 ára tímabil.

Almenn samstaða hefur verið um nauðsyn þess að endurskoða lög um almannatryggingar í heild sinni sem og uppbyggingu lífeyristrygginga almannatrygginga og hefur endurskoðun löggjafarinnar staðið yfir allt frá árinu 2005. Frá þeim tíma hafa fimm starfshópar og nefndir komið að endurskoðuninni. Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga í nóvember 2013. Í henni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, Landssambands eldri borgara, Landssamtakanna Þroskahjálpar, samtaka aðila vinnumarkaðarins og Öryrkjabandalags Íslands. Nefndin skilaði skýrslu sinni og tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra í byrjun mars 2016 og byggist meðfylgjandi frumvarp að stærstum hluta á tillögum hennar.

Meginefni frumvarpsins

Breytt bótakerfi almannatrygginga

  • Lagt er til að bótaflokkarnir grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu, sem nú er kveðið á um í lögum um félagslega aðstoð, verði sameinaðir í einn bótaflokk, ellilífeyri. Fjárhæð sameinaðs bótaflokks verði 212.776 kr. á mánuði (sem samsvarar framfærsluviðmiði þeirra sem búa með öðrum í janúar 2016) eða kr. 2.553.312 á ári.

  • Lagt er til að svokölluð frítekjumörk verði afnumin og að fjárhæð ellilífeyris almannatrygginga lækki um sama hlutfall eða 45% vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum Í dag er þetta hlutfall mismunandi eftir tegund tekna. Áfram er gert ráð fyrir að ákveðnar tegundir tekna, svo sem greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, verði undanskildar við útreikning á tekjuviðmiðinu.

  • Lagt er til að heimilisuppbót til ellilífeyrisþega verði áfram greidd sem viðbót handa þeim sem halda heimili einir. Fjárhæð uppbótarinnar verði 34.126 kr. á mánuði (miðað við janúar 2016) eða 409.512 kr. á ári og lækki hún um 7,5% af samanlögðum tekjum lífeyrisþegans frá öðrum en almannatryggingum, utan séreignarlífeyrissparnaðar og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. 

Sveigjanleg starfslok

  • Lagt er til að heimilað verði að fresta lífeyristöku lengur en nú er með varanlegum áhrifum á fjárhæð lífeyrisins til hækkunar eða til 80 ára aldurs í stað 72 ára.

  • Lagt til það nýmæli að heimilað verði að flýta lífeyristöku hjá almannatryggingum með varanlegum áhrifum á fjárhæð lífeyrisins til lækkunar frá 65 ára aldri.

  • Lagt er til að heimilt verði að taka hálfan ellilífeyri frá lífeyrissjóði og fresta töku hins helmingsins sem hækki í samræmi við reglur viðkomandi lífeyrissjóð og samhliða verði heimilt að fá hálfan ellilífeyri frá almannatryggingum. Heimild þessi komi til framkvæmdar síðar þar sem forsenda heimildarinnar byggist á því að breytingar verði gerðar á lögum nr. 129/1997 sem er á málefnasviði fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

  • Lagt er til að lífeyrisþegar fái hærri lífeyri ef lífeyristöku er frestað en lægri lífeyri ef lífeyristöku er flýtt. Breytingin byggi á ákveðinni hlutfallstölu fyrst í stað en síðar verði breytingar á fjárhæð lífeyris við frestun eða flýta lífeyristöku byggðar á tryggingafræðilegum grunni.

Hækkun lífeyristökualdurs

  • Lagt er til að lágmarkslífeyristökualdur, sem nú er 67 ár, hækki í skrefum í 70 ár. Hækkunin verði tveir mánuðir á ári fyrstu 12 árin og einn mánuður á ári næstu 12 ár. Samhliða framangreindum breytingum er lagt til að upphafsviðmiðunaraldur þegar réttindaávinnsla til ellilífeyris hefst, sem í dag er frá 16 ára aldri, verði hækkaður í 18 ár.

Samstarfsverkefni um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats

  • Lagt er til að sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga, samtaka aðila vinnumarkaðarins og helstu hagsmunasamtaka fólks með skerta starfsgetu skuli komið á um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats og í kjölfarið að efla atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu.

Tilraunaverkefni um nýtt greiðslufyrirkomulag um greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum

  • Lagt er til að komið verði á laggirnar tilraunaverkefni um breytingar á fyrirkomulagi um greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem felst meðal annars í að íbúar á hjúkrunarheimilum haldi sínum lífeyrisgreiðslum og greiði milliliðalaust fyrir almenna framfærslu á heimilunum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira