Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Umsagnarferli vegna vinnslu frumvarps til laga um jafnréttismál stendur til 10. ágúst

Í byrjun mars 2007 skilaði nefnd um endurskoðun gildandi jafnréttislaga tillögum sínum til félagsmálaráðherra í formi frumvarps til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Tillaga nefndarinnar hefur frá því í vor verið í opnu umsagnarferli á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins þar sem öllum hefur gefist tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við ráðuneytið.

Endurskoðun gildandi laga var hrint af stað í tilefni af því að þrjátíu ár eru liðin frá því að fyrstu lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru samþykkt á Alþingi. Guðrún Erlendsdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, var skipuð formaður nefndarinnar og aðrir nefndarmenn voru Bjarni Benediktsson, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bryndís Bjarnarson, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokks, Daníel Helgason, tilnefndur af þingflokki Frjálslynda flokksins, Mörður Árnason, tilnefndur af þingflokki Samfylkingarinnar, Valgerður H. Bjarnadóttir, tilnefnd af þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu.

Þar sem félagsmálaráðherra hefur ákveðið að leggja fram á komandi þingi frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla vill félagsmálaráðuneytið vekja athygli á að á heimasíðu ráðuneytisins verður unnt að koma að athugasemdum við tillögu nefndarinnar til 10. ágúst næstkomandi. Að þeim tíma liðnum hefst smíði endanlegrar útgáfu frumvarpsins í ráðuneytinu.

Hefurðu skoðun á frumvarpstillögu nefndar um endurskoðun jafnréttislaga?

Frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er í opnu umsagnarferli.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum