Hoppa yfir valmynd
12. maí 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 191/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. maí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 191/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22040004

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Hinn 13. mars 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. desember 2018, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...] , vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Írak (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

    Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 18. mars 2019. Hinn 25. mars 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Hinn 1. apríl 2019 barst kærunefnd greinargerð kæranda. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 180/2019, dags. 13. apríl 2019, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Hinn 4. apríl 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 13. mars 2019.

    Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kærenda

    Beiðni kæranda er reist á tvíþættum grundvelli, annars vegar á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin og hins vegar að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum.

    Í endurupptökubeiðni gerir kærandi athugasemdir við trúverðugleikamat kærunefndar í úrskurði nefndarinnar frá 13. mars 2019, þ. á m. við mat nefndarinnar að kærandi hafi ætlað að villa um fyrir nefndinni með því að halda fram að honum hafi ekki verið heimilt að gefa upp nafn skólans við lögreglu.

    Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi m.a. til meðfylgjandi frumgagna, þ. á m. íraksks persónuskilríkis og vottorða um að kærandi sé með írakskan ríkisborgarétt og hafi lokið BA-námi í Írak. Kærandi telur að umrædd gögn kunni að hafa grundvallarþýðingu fyrir mat á trúverðugleika frásagnar hans. Þau sýni með óyggjandi hætti fram á auðkenni hans og hafi ekki legið fyrir við meðferð kærumáls hans. Eina gagnið sem hafi þá legið fyrir um auðkenni kæranda hafi verið ljósrit af vegabréfi hans.

    Í ljósi framangreinds telur kærandi að skýr og haldgóð rök séu fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli hans. Framlögð gögn feli í sér ný atriði sem hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun var tekin á fyrri stigum. Kærunefnd beri því að endurupptaka málið og kanna umrædd gögn til hlítar. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til þess að kærunefnd hafi endurupptekið mál við minna tilefni, en nefndinni beri að gæta jafnræðis. Þá vísar kærandi til rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og þeirra hagsmuna sem séu í húfi í málinu.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda hinn 13. mars 2019. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Eins og að framan greinir lagði kærandi fram ýmis gögn til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku. Kærandi telur að framlögð gögn kunni að hafa grundvallarþýðingu fyrir mat á trúverðugleika frásagnar hans, enda sýni þau með óyggjandi hætti fram á auðkenni hans og hafi ekki legið fyrir við meðferð kærumáls hans. Framlögð gögn eru sömu gögn og kærandi lagði fram við málsmeðferð kærunefndar árið 2019 er varða auðkenni hans og er því ekki um ný gögn að ræða. Er því ekki fallist á með kæranda að upplýsingar í framlögðum gögnum leggi grunn að þeirri málsástæðu kæranda að atvik í máli hans hafi breyst síðan úrskurður var kveðinn upp í kærumáli hans hinn 13. mars 2019 eða að þær upplýsingar sem nefndin byggði á þegar hún kvað upp framangreindan úrskurð hafi verið ófullnægjandi eða rangar. Enn fremur er það mat kærunefndar að ekkert í skýrslum og gögnum um aðstæður í heimaríki kæranda bendi til þess að aðstæður þar í landi hafi breyst með þeim hætti að aðstæður kæranda teljist verulega breyttar.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 13. mars 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                              Sindri M. Stephensen


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum