Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2022 Matvælaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Matvælaráðherra flutti yfirlýsingu Íslands á COP27

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, flutti í dag yfirlýsingu Íslands á aðildarríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP27. Þingið er haldið í Sharm El Sheikh í Egyptalandi.

Ráðherra sagði frá sjálfstæðu markmiði Íslands um 55% minnkun á losun á beina ábyrgð Íslendinga fyrir árið 2030 og þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að styðja áfram við að markmiðið um að hitastig jarðar hækki ekki meira en um 1,5 gráðu miðað við upphaf iðnbyltingar. Einnig kom fram í máli ráðherra að í samræmi við  stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verði ekki gefin út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Svandís greindi jafnframt frá auknum fjárframlögum Íslands til alþjóðlegra loftslagsmála.

Í yfirlýsingunni sagði ráðherra að auki frá sameiginlegu verkefni sem Ísland og Síle munu ýta úr vör á ráðstefnunni. Markmið verkefnisins er að vernda frosin landsvæði jarðar eða svokölluð freðhvolf með skilvirkum loftslagsaðgerðum. Verkefnið heitir á ensku „Ambition on Melting Ice“ og hafa sextán lönd staðfest þátttöku.

Ráðherra talaði um þann áþreifanlega veruleika loftslagsbreytinga sem heimsbyggðin upplifir, öfgaveður, vatnsskort vegna hörfandi jökla, hækkun sjávarborðs, skógarelda, flóð og skriðuföll sem eru orðin hluti daglegs lífs jarðarbúa. Einnig gerði ráðherra að umtalsefni sínu þau afdráttarlausu skilaboð vísindafólks að loftslagsbreytingar verði talsvert meiri í náinni framtíð ef ekki næst að halda heimshlýnun innan við 1,5 gráðu.

Að lokum fór ráðherra yfir stærstu aðsteðjandi ógnir Íslands vegna loftslagsbreytinga s.s. súrnun sjávar, bráðnun jökla, hækkun sjávarborðs og breytingar á úrkomu, en allir þessir þættir hafa áhrif á vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni. Hún sagði að Ísland legði áherslu á aðgerðir byggðar á vísindalegri þekkingu með þátttöku hagsmunaaðila og sveitarfélaga.

Matvælaráðherra mun næst taka til máls á morgun á tveimur fundum um freðhvolfið og skrifa undir yfirlýsingu með ráðherrum frá Kosta Ríka, Fídjí, Nýja-Sjálandi, Noregi og Sviss vegna samnings um loftslagsbreytingar, viðskipti og sjálfbærni. Á fimmtudag mun ráðherra funda með svissneska umhverfisráðherranum um samstarf á sviði loftslagsmála og jafnframt með formanni milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum