Hoppa yfir valmynd
11. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðadagur stúlkubarnsins haldinn í tíunda sinn

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Í dag er í tíunda sinn haldinn alþjóðlegur dagur stúlkubarnsins. Sameinuðu þjóðirnar benda á að 130 milljónir stúlkna fái enga formlega menntun. Eftir heimsfaraldur kórónaveirunnar hefur orðið gífurleg fjölgun þungana meðal unglingsstúlkna, fjölgun barnahjónabanda og fjölgun stúlkna utan skóla.

„Við ættum að hugsa um bjarta framtíð. Mín skilaboð til ungra stúlkna er að gefast ekki upp. Það er allt í lagi að vera hrædd. Það er allt í lagi að gráta. Allt slíkt er í lagi. En að gefast upp kemur ekki til greina. Eftir hverja myrka nótt, kemur bjartur morgundagur,“ segir Mursal Fasihi, 17 ára gömul afgönsk stúlka sem neitar að gefa upp vonina um að snúa aftur á skólabekk.

Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna segir í frétt, í tilefni dagsins, að stúlkum í Afganistan hafi verið vikið úr skóla eftir valdatöku Talíbana fyrir rúmu ári. Margar þeirra, ekki síst stúlkur sem líða fyrir fátækt og/eða búa afskekkt, súpi seyðið ástandinu. Þær séu þvingaðar í snemmbær hjónabönd og barneignir á unglingsaldri.

„Þessa stundina eru 1,1 milljarður stúlkna að leggja grunn að framtíð sinni. Á hverjum degi flytja þær mörk og ryðja hindrunum úr vegi. Þær takast á við málefni á borð við barnahjónabönd, ójöfnuð í menntun og heilsugæslu, ofbeldi, og loftslagsóréttlæti. Stúlkur hafa sýnt og sýna enn að ekkert stöðvar þær,“ segir í fréttinni.

Þar segir enn fremur að reynslan sýni að öðlist þær 600 milljónir unglingsstúlkna, sem nú eru í heiminum, hæfni og tækifæri, reynist þær aflvakar framfara, ekki aðeins í þágu kvenna heldur fullt eins mikið drengja og karla. „Valdefling kvenna og stúlkna og jafnrétti kynjanna eru þýðingarmikil í því að þoka áfram heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. Mikilvægt er við öll gerum reikningsskil og fjárfestum í framtíð, sem trúir á virkni, forystu og möguleika kvenna.“

Fyrir átta árum, árið 2014, var haldin hér á landi vika vitunarvakningar um stöðu unglingsstúlkna, í tengslum við alþjóðadag stúlkubarnsins. Þá voru meðal annars haldnir tónleikar í Iðnó í samstarfi með KÍTÓN, með stúlkum og hljómsveitum þar sem stúlkur og konur voru í aðalhlutverkum. Þá var gefið út meðfylgjandi myndband með túlkun þeirra á „stelpuyfirlýsingunni“ en yfirskrift vikunnar var: Sterkar stelpur – sterk samfélög. Frjáls félagasamtök í alþjóðastarfi og Þróunarsamvinnustofnun Íslands stóðu að átakinu.

  • Alþjóðadagur stúlkubarnsins haldinn í tíunda sinn - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum