Hoppa yfir valmynd
9. mars 2007 Innviðaráðuneytið

Frumvarpi um alþjóðlega skipaskrá vísað til samgöngunefndar

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra mælti í dag á Alþingi fyrir lagafrumvarpi um íslenska alþjóðlega skipaskrá. Markmið þess er að stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi, íslenskra sem erlendra.

Með frumvarpi um skipaskrá er lagt til að komið verði á fót íslenskri alþjóðlegri skipaskrá sem heimilar skráningu kaupskipa að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Frumvarpið setur ramma um slíka skipaskrá og hefur jafnframt verið unnið frumvarp hjá fjármálaráðuneytinu um þau skattalegu og rekstrarlegu atriði sem nauðsynlegt er að taka á til að slík skrá verði virk.

Í framsöguræðu sinni sagði samgönguráðherra meðal annars: ,,Meginmarkmiðið með stofnun slíkrar skipaskrár er að fá íslenskar kaupskipaútgerðir til að skrá kaupskip sín hér á landi en einnig er stefnt að því að erlendar kaupskipaútgerðir sjái hag í því að skrá kaupskip sín hér á landi. Þau kaupskip sem skráð verða á íslenska alþjóðlega skipaskrá verða íslensk, þau munu sigla undir íslenskum fána, um þau gilda íslensk lög og lögsaga, auk þess sem skoðun og eftirlit verður á íslenskum höndum.”

Fram kom í máli ráðherra að hann teldi mikilvægt að stjórnvöld sem hagsmunaaðilar standi saman og með myndarbrag að stofnun íslenskrar alþjóðlegrar skipaskrár. Sagði hann stofnun skipaskrárinnar geta hleypt nýju lífi í menntunarmál farmannastéttarinnar og því væri vert fyrir menntamálayfirvöld að fylgja málinu eftir með átaki í menntun og þjálfun og eflingu menntastofnana sem sjá um menntun farmanna.

Undir lok ræðunnar sagði samgönguráðherra meðal annars: ,,Samkeppnin er hörð og kaupskipaútgerðirnar leita þangað sem bestu kjörin eru og besta þjónustan fæst. Því þarf að vanda vel til verka þannig að útgerðir sjái sér hag í að flytja skráningu kaupskipa sinna til Íslands.

Því má ekki gleyma að staðan í dag er sú að engin kaupskip eru skráð hér á landi - sem þýðir að engin íslensk kaupskip eru til - engar tekjur eru af slíkum skipum eða tengdri starfsemi hér á landi - hvorki í formi skatta né á annan hátt. Það er því engu að tapa heldur allt að vinna með því að koma á fót íslenskri alþjóðlegri skipaskrá.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum