Hoppa yfir valmynd
3. ágúst 2010 Félagsmálaráðuneytið

ÞOR - átak gegn langtímaatvinnuleysi

Frá kynningu verkefnisins
Átaksverkefnið ÞOR

Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun kynntu í dag nýtt átak gegn langtímaatvinnuleysi og afleiðingum þess. Yfirskrift átaksins er ÞOR – þekking og reynsla. Markmið átaksins er að virkja þá sem verið hafa atvinnulausir í tólf mánuði eða lengur til þátttöku í fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum og stefnir Vinnumálastofnun að því að haft verði samband við þá alla fyrir 1. nóvember næstkomandi.

Um 4.000 manns hafa verið án atvinnu í eitt ár eða lengur, þar af um 3.200 á suðvesturhorni landsins. Á næstu mánuðum verða þeir allir kallaðir til ráðgjafafundar hjá Vinnumálastofnun og þeim kynnt tækifæri og skyldur til þátttöku í úrræðum sem eiga að bæta möguleika þeirra við atvinnuleit. Vinnumálastofnun hefur leitað samstarfs við fjölda fræðsluaðila, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka um virkniúrræði. Einnig hefur stofnunin átt í viðræðum við símenntunardeildir háskólanna um að kraftar þeirra verði nýttir til hagsbóta fyrir fólk í atvinnuleit.

Samstarf við VIRK Starfsendurhæfingarsjóð

Vinnumálastofnun mun greiða fyrir þau vinnumarkaðsúrræði sem boðið verður upp á í tengslum við átakið ÞOR og hefur til þess um 450 milljónir króna. Ráðnir hafa verið fimm ráðgjafar til að starfa við verkefnið auk þess sem því bætist liðsstyrkur tveggja ráðgjafa sem starfað hafa hjá Vinnumálastofnun við verkefnið Ungt fólk til athafna. Stefnt er að því að semja við VIRK Starfsendurhæfingarsjóð um að veita þjónustu þeim einstaklingum sem ráðgjafar telja að þurfi mögulega á einstaklingsbundinni starfsendurhæfingu að halda.

Góður árangur af verkefninu Ungt fólk til athafna

Í ársbyrjun 2010 hófst hjá Vinnumálastofnun átaksverkefnið Ungt fólk til athafna sem beindist að atvinnuleitendum yngri en 25 ára. Við upphaf þess voru um 3.000 ungmenni á þessu aldursbili án atvinnu eða atvinnutengdra úrræða en nú hafa um 90% hópsins verið virkjuð til þátttöku í margvíslegum verkefnum. Ákveðið hefur verið að verkefnið Ungt fólk til athafna nái til aldurshópsins 16–29 ára en að átaksverkefnið ÞOR muni beinast að aldurshópnum 29–70 ára.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira