Hoppa yfir valmynd
15. mars 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 250/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 250/2016

Miðvikudaginn 15. mars 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 4. júlí 2016, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. apríl 2016 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu vegna meðferðar á Heilsugæslunni C þann X með umsókn sem barst Sjúkratryggingum Íslands þann 27. nóvember 2014. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að kærandi hafi leitað til heilsugæslunnar vegna mikils orkuleysis og vanlíðanar. Sá læknir sem hafi tekið á móti kæranda hafi skoðað hana illa, ekki virt umkvartanir hennar og talið að of hár blóðþrýstingur væri eflaust ástæða veikindanna. Kærandi hafi talið það ólíklegt en þrátt fyrir mótbárur hennar hafi hún verið send heim með uppáskrifað blóðþrýstingslyf. Jafnframt hafi læknirinn talið að kærandi væri hugsanlega að fá taugaáfall og hafi ekki séð ástæðu til frekari rannsókna eða skoðana en blóðþrýstingsmælingar. Síðar hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með alvarlegan sjúkdóm sem valdi bráðanýrnabilun og sé nú með varanlega nýrnabilun.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda um bætur með ákvörðun, dags. 14. apríl 2016, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. júlí 2016. Með bréfi, dags. 8. júlí 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 18. júlí 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júlí 2016, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. apríl 2016 verði endurskoðuð og að viðurkennt verði að hún hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna læknismeðferðar samkvæmt 1. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Greint er frá því í kæru að kærandi hafi leitað á Heilsugæsluna C þann X vegna mikils orkuleysis og vanlíðanar sem hafi varað frá deginum áður. Hún hafi átt erfitt með að komast á milli herbergja sökum lasleika á þeim tímapunkti. Að mati kæranda hafi læknir skoðað hana illa og ekki virt umkvartanir hennar. Læknirinn hafi talið að ástæða einkenna kæranda væri of hár blóðþrýstingur. Einu lífsmörkin sem læknirinn hafi mælt á henni hafi verið blóðþrýstingur. Kærandi hafi talið ólíklegt að hár blóðþrýstingur væri að orsaka veikindi hennar, enda lengi verið með blóðþrýsting í hærra lagi og ekki haft álíka einkenni því samfara auk þess sem hún hafi verið á blóðþrýstingslyfjum. Hún hafi því verið send heim án frekari rannsókna. Að morgni X hafi kærandi ekki lengur þolað við heima og leitað á bráðamóttöku Landspítala. Þar hafi verið teknar blóðprufur og þá hafi komið í ljós að hún var með alvarlegan nýrnasjúkdóm.

Kærandi telur ljóst að hún hafi ekki verið rétt greind á Heilsugæslunni C þegar hún leitaði þangað X og þar af leiðandi hafi meðferð við sjúkdómnum ekki hafist fyrr en hún leitaði á Landspítalann þann X. Kærandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni sem megi að öllum líkindum rekja til tafar á réttri greiningu.

Tekið er fram að í 1. mgr. 3. gr. laga um sjúklingatryggingu segi að greiða skuli bætur fyrir tjón sem hljótist af því að sjúkdómsgreining sé ekki rétt í tilvikum sem nefnd séu í 1. eða 2. tölul. 2. gr. Þá taki 1. tölul. 2. gr. laganna til þess tjóns sem ætla má að hefði mátt komast hjá ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Í lögunum sé slakað á almennum sönnunarkröfum tjónþola og honum nægi að sýna fram á að tjón hans megi að öllum líkindum rekja til þeirra tilvika sem nefnd séu í 1.-4. tölul. 2. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. Í þessu felist að líkindin þurfi að vera meiri en 50%, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 82/2013. Af þessu megi álykta að tjónþola nægi að sýna fram á einungis 51% líkur.

Kærandi telji ljóst að hefði meðferð á heilsugæslu verið hagað eins vel og unnt hefði verið þá hefði hún verið send í blóðrannsókn. Hún telji að ástand hennar hefði átt að gefa tilefni til frekari rannsókna vegna einkenna sem hún hafi verið að glíma við. Í þessu samhengi bendi kærandi á vottorð D læknis, dags. 2. júlí 2015, þar sem fram komi varðandi sjúkdóm hennar að fyrstu „[…] einkenni eru oft ósértæk, einkum slappleiki og stundum flensulík einkenni. Þegar einstaklingur leitar til læknis mælist blóðþrýstingur oft hækkaður og eftir atvikum geta önnur teikn verið fyrir hendi, svo sem bjúgur og fölvi vegna blóðleysis. Í slíkum tilvikum er ástæða til að framkvæma blóðrannsóknir, m.a. mælingu kreatíns í sermi.“

Bent er á að kærandi hafi lengi verið með blóðþrýsting í hærra lagi og ekki haft einkenni í líkingu við þau sem hún hafi verið að glíma við þegar hún hafi leitað á heilsugæsluna auk þess sem hún hafi verið á blóðþrýstingslyfjum. Þegar kærandi hafi leitað á heilsugæsluna hafi líðan hennar verið mjög slæm en hún kveðst vart hafa staðið undir sér, þurft stuðning og verið gráföl. Samkvæmt vottorði D hafi því einkenni sem kærandi hafi glímt við ásamt hækkuðum blóðþrýstingi og fölva átt að gefa ástæðu til að framkvæma blóðrannsóknir en það hafi ekki verið gert í tilviki kæranda heldur hafi hún verið send heim með aukinn skammt af blóðþrýstingslyfjum.

Kærandi gerir einnig athugasemd við að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands virðist einungis byggð á áliti landlæknis, dags. 27. nóvember 2015. Hún hafi beint kvörtun vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu á Heilsugæslunni C þann X til embættisins á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Í áliti landlæknis sé tekið fram að æskilegt hefði mátt telja að lögð hefðu verið drög að frekari rannsókn strax eftir heimsókn kæranda. Landlæknir telji hins vegar skort á slíkum ráðstöfunum ekki til mistaka eða vanrækslu.

Þá bendir kærandi á að ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu geri ekki ráð fyrir að tjón hennar megi rekja til saknæmrar háttsemi eða vanrækslu meðferðaraðila. Það sem ráði úrslitum sé hvort komast hefði mátt hjá tjóni kæranda ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Kærandi telji að vegna tafar sem hafi orðið á réttri greiningu hafi hún orðið fyrir tjóni. Hún vísi í vottorð D læknis, dags. X, þar sem fram komi að snemmkomin greining sé forsenda þess að hægt sé að fyrirbyggja þróun lokastigsnýrnabilunar og geti töf á greiningu sem nemi fáeinum dögum skipt sköpum varðandi batahorfur.

Með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi gagna telji kærandi að röng sjúkdómsgreining hafi að öllum líkindum leitt til líkamstjóns fyrir hana og að skilyrði 1. tölul. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu séu uppfyllt.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er greint frá því að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 27. nóvember 2014. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Heilsugæslunni C þann X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðila og málið í framhaldinu tekið fyrir á fundi fagteymis sem skipað sé læknum og lögfræðingum stofnunarinnar. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. apríl 2016, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi ekki verið uppfyllt.

Kærandi telji að hún hafi ekki hlotið rétta meðferð þar sem hún hafi ekki verið rétt greind á Heilsugæslunni C þann X og töf á réttri greiningu hafi leitt til tjóns.

Samkvæmt greinargerð meðferðaraðila, sem kærandi hafi leitað til þann X, hafi hún gefið upp sögu um slappleika og orkuleysi síðastliðna tvo daga. Við skoðun hafi læknirinn ekkert fundið athugavert annað en að kærandi hafi mælst hækkuð í blóðþrýstingi og hafi hann ávísað lyfjum vegna þess og ráðlagt blóðprufur ef hún yrði ekki hressari. Þá hafi hann tekið fram í greinargerðinni að einkenni og umkvartanir kæranda hafi ekki kveikt þau viðvörunarljós hjá honum sem leitt hefðu til þess að hún yrði send áfram á bráðamóttöku Landspítalans, en hafi ráðlagt frekar að hún hefði aftur samband ef breytingar yrðu ekki á líðan hennar og þá yrðu framkvæmdar blóðprufur. Ekkert í sögu kæranda hafi bent sérstaklega til að um nýrnavanda væri að ræða og því hafi hann ekki beðið um þvagprufu en slíkt sé gert þegar einkenni bendi til sjúkdóma í þvagfærum.

Samkvæmt áliti landlæknis, dags. 2. desember 2015, liggi fyrir að læknirinn er tók á móti kæranda sé ekki heimilislæknir hennar og hafi aldrei átt við hana læknisfræðileg samskipti fyrir X. Læknirinn hafi því síður verið líklegur til að átta sig á þeirri versnun almenns ástands sem hún hafi lýst. Í álitinu sé einnig tekið fram að á síðdegisvakt á heilsugæslustöðvum sé lítill tími til nákvæmrar skýrslutöku og líkamsskoðunar og við bætist að einkenni kæranda hafi verið afar almenns eðlis og algeng og þá sé oftast um að ræða skammvinna og saklausa kvilla. Erfitt sé að ætlast til að læknir á síðdegisvakt sem hitti ókunna manneskju með kvartanir um vanlíðan og þreytu geti látið sér detta í hug jafnalvarlegan sjúkdóm og reyndist vera í tilviki kæranda. Í tilvikum sem þessum teljist því vera innan ramma góðrar læknisfræði að bíða og sjá til, svo lengi sem gert sé ráð fyrir eftirfylgd ef einkenni lagist ekki eða jafnvel versni. Í tilviki kæranda hafi verið um nokkuð öra versnun að ræða eftir læknisviðtalið og hún hafi farið á bráðamóttöku einum og hálfum sólarhring síðar, þannig að ekki hafi reynt á hvort til sérstakrar eftirfylgdar kæmi af hálfu heilsugæslu.

Að lokum sé tekið fram í áliti landlæknis að þrátt fyrir að um alvarleg veikindi kæranda hafi reynst vera að ræða þá fái landlæknir ekki séð að unnt sé að ætlast til að læknir, sem ekki hafi þekkt til kæranda áður, hefði getað greint sjúkdóm hennar í stuttri heimsókn á síðdegisvakt. Æskilegt hefði mátt telja að lögð hefðu verið drög að frekari rannsókn strax eftir þessa heimsókn en þó verði ekki unnt að telja skort á slíkum ráðstöfunum til mistaka eða vanrækslu.

Samkvæmt vottorði D, yfirlæknis á nýrnalækningadeild Landspítala, sé sjúkdómur kæranda fátíður og illvígur og sé skjótvirk greining og meðferð sjúkdómsins afar brýn og einstakir dagar geti skipt sköpum fyrir árangur meðferðar. Sjúkratryggingar Íslands hafi í kjölfarið óskað eftir svari frá D um hvort eins dags töf, sem hafi orðið á greiningu, hafi ráðið miklu um endanlegt tjón kæranda. Svar hans, dags. 2. júlí 2015, hafi litlu bætt við fyrri gögn, og ekki hafi verið tekin sérstök afstaða til spurningarinnar. Því hafi ekki verið sýnt fram á að sólarhringstöf hafi leitt til tjóns.

Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki liggi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falli undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna meðferðar á Heilsugæslunni C þann X.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss eru þannig ekki bótaskyldar en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan aftur á móti sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem hefði mátt komast hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000. Hún telur að vegna tafar á réttri greiningu hafi meðferð við sjúkdómi hennar hafist síðar og hún hafi þar af leiðandi orðið fyrir tjóni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi til Heilsugæslunnar C þann X vegna slappleika og orkuleysis. Um læknisskoðun segir í samskiptaseðli að hún hafi verið „neg nema hypertensio“, þ.e. hækkaður blóðþrýstingur og var kæranda ávísað lyfi fyrir aukinni blóðþrýstingsmeðferð. Einnig segir að blóðrannsókn hafi verið ráðlögð ef kærandi myndi ekki hressast. Tveimur dögum síðar, þann X, leitaði kærandi á bráðadeild Landspítala vegna 3-4 daga sögu um slappleika og hita. Kærandi var í kjölfarið greind með alvarlegan nýrnasjúkdóm sem leiddi skjótt til lokastigsnýrnabilunar.

Í greinargerð meðferðaraðila, dags. X, segir:

„Konan leitaði á kvöldvakt Heilsugæslustöðvarinnar í C síðdegis þann X s.l. Það síðdegi voru 2 læknar að störfum og lenti A hjá undirrituðum , samskipti hófust kl. 17.35 og var A nr. 26 í röðinni af 38 sem koma þann daginn.

Hún gaf upp sögu um slappleika og orkuleysi síðustu 2 daga. Við skoðun fann undirritaður ekkert sem benti til akút uppákomu annað en það að hún mældist hækkuð í blóðþrýstingi 170/96 þrátt fyrir að hún var fyrir á Presmin combo.

Taldi ég háþrýsting geta skýrt þessa líðan og mælti ég með að bæta við blóðþrýstimeðferðina og lét hana hafa lyfseðil fyrir Seloken 47.5 mg forðatöflur 1 x 1 Ráðl. ég blóðprufur ef hún ekki hresstist.

A hafði ekki samband aftur heldur leitaði hún 2 dögum síðar á BMT Lsp. eða þann X vegna 3-4d sögu um slappleika og hita. Reyndist hún vera með nýrnabilun, anemiu, hematuriu, hækkanir á lifrarprófum og sökki.

[…]

Það er mat A að töf á greiningu hafi valdið henni tjóni.

Hef ekki færni eða innsýn í þessa sjúkdóma til að geta fullyrt að það sé rétt en almennt gildir jú að því fyrr sem gripið er inn í progressiva sjúkdóma því betri eru barahorfur. Einkenni og umhvartanir A kveiktu ekki þau viðvörunarljós hjá mér sem leitt hefði til þess að ég sendi hana áfram á BMT en ráðlagði frekar að hún hefði samband aftur og þá með blóðprufur í huga ef lyfjabreyting sú sem ég gerði breytti engu um líðan hennar. Ekkert í sögu benti sérstaklega til að nýrnavandi væri hér á ferðinni og því bað ég ekki um þvagprufu, þvagprufur eru ekki rútínupróf á síðdegisvöktum heldur eu þar gerðar ef einkenni benda til sjúkdóma í þvagfærum. Hefði mér dottið í huga að hún þjáðist af bráðum nýrnabólgusjúkdómi hefði ég að sjálfssögðu sent konuna á BMT. Þarna dugði ekki varnaglinn að biðja viðkomandi a hafa samband á ný ef það ekki lagast eða versnar.“

Í gögnum málsins liggur fyrir álit landlæknis, dags. 27. nóvember 2015, vegna kvörtunar kæranda. Niðurstaða landlæknis er sú að hvorki hafi verið um mistök né vanrækslu að ræða þegar kærandi leitaði til heilsugæslunnar þann X en hann telur þó æskilegt að lögð hefðu verið drög að frekari rannsókn strax eftir þá heimsókn. Í umfjöllun landlæknis segir meðal annars svo:

„Í máli þessu liggur fyrir að E læknir er ekki heimilislæknir kvartanda og hafði aldrei átt við hann læknisfræðileg samskipti fyrir X. Læknirinn var því síður líklegur til að átta sig á þeirri versnun almenns ástands, sem kvartandi lýsir. Á síðdegisvakt á heilsugæslustöðvum er lítill tími til nákvæmrar skýrslutöku og líkamsskoðunar og við bætist að þau einkenni, sem kvartandi leitaði læknis með, eru mjög almenns eðlis og algeng. Oftast er um að ræða skammvinna og saklausa kvilla. Erfitt er að ætlast til að læknir á síðdegisvakt sem hittir ókunna manneskju með kvartanir um vanlíðan og þreytu geti látið sér detta í hug jafn alvarlegan sjúkdóm og reyndist vera í tilviki kvartanda. Í tilvikum sem þessum telst „að bíða og sjá til“ vera innan ramma góðrar læknisfræði svo lengi sem gert er ráð fyrir eftirfylgd ef einkenni ekki lagast eða jafnvel versna. Í tilviki kvartanda er þess getið í skráðri færslu að blóðrannsókn sé fyrirhuguð ef einkenni ekki lagist. Kvartandi minnist þessa raunar ekki og telja má að æskilegt hefði verið að í samskiptaseðli væri tímarammi, þ.e. að blóðrannsókn væri ákveðin innan tiltekins tíma, eftir einn til tvo sólarhringa til dæmis, ef bati léti á sér standa. Í tilviki kvartanda varð um nokkuð öra versnun að ræða eftir þessa læknisheimsókn og fer hann á bráðamóttöku um einum og hálfum sólarhring síðar, þannig að ekki reyndi á hvort til sérstakrar eftirfylgdar kæmi af hálfu heilsugæslu.

Þrátt fyrir að um alvarleg veikindi kvartanda hafi reynst vera að ræða þá fær landlæknir ekki séð að unnt sé að ætlast til að læknir, sem ekki þekkti til kvartanda fyrir hefði getað greint sjúkdóm hennar í stuttri heimsókn á síðdegisvakt. Æskilegt hefði mátt telja að lögð hefðu verið drög að frekari rannsókn strax eftir þessa heimsókn. Landlæknir telur þó ekki unnt að telja skort á slíkum ráðstöfunum til mistaka eða vanrækslu.“

Í færslu í sjúkraskrá þann X er skráð svo um komu kæranda á Heilsugæsluna C þann dag:

„Slöpp og orkulaus í dag og gær. Sk. neg nema hypertensio. Er á Presmin combo. Ráðl. blpr ef ekki hressist og Rp. Seloken.“

Einnig kemur fram í sjúkraskrárfærslunni að blóðþrýstingur kæranda hafi verið 170/96 og greiningin sem kærandi fékk var „Hypertensio arterialis“. Læknisheimsókninni er lýst á sama hátt í samskiptaseðli E læknis, dags. X. Þá liggur fyrir læknisvottorð E, dags. X, þar sem engu er bætt við fyrri skráningu.

Af framangreindum gögnum þar sem lýst er læknisskoðun kæranda þann X, verður dregin sú ályktun að önnur atriði hafi ekki verið skoðuð en þau sem getið er um í gögnunum. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefði heilsugæslulækninum mátt vera ljóst af þeirri lýsingu sem kærandi veitti á ástandi sínu að tilefni var til nánari skoðunar til þess að útiloka að einkenni stöfuðu af alvarlegum sjúkdómi. Þrátt fyrir að kærandi hafi leitað á síðdegisvakt heilsugæslunnar þar sem miklar annir eru og stuttur tími ætlaður hverjum sjúklingi, verður að gera ráð fyrir að þeirri þjónustu sem þar er veitt sé hagað eins vel og unnt er og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði eins og áskilið er í 1. tölul. 2. gr. laganna.

Þegar um vangreiningu eða ranga greiningu er að ræða hefur verið miðað við hvað gegn og skynsamur læknir hefði gert undir sömu kringumstæðum. Úrskurðarnefndin telur að rétt hefði verið að kanna til dæmis hvort kærandi hafi áður upplifað svipuð einkenni við hækkun á blóðþrýstingi. Einnig hvort hún fyndi fyrir alvarlegum einkennum sem fylgt geta óeðlilega háum blóðþrýstingi, svo sem höfuðverk eða brjóstverk. Auk mælingar á blóðþrýstingi og púlstalningu telur nefndin að nauðsynlegt hefði verið að kanna hjartastarfsemi nánar, svo sem með hlustun hjarta og lungna. Í skráningu á læknisskoðun hefði átt að geta lýsingar á starfsemi taugakerfis og á almennu yfirbragði kæranda, svo sem hvort hún hafi verið veikindaleg að sjá. Þá hefði átt að tilgreina innan hvaða tímamarka kærandi mátti vænta þess að einkenni hennar rénuðu með þeirri meðferð sem var ávísað. Jafnframt hefði átt að greina henni frá því hvert hún ætti að snúa sér ef einkenni versnuðu í stað þess að batna. Að auki telur nefndin að viðkomandi læknir hefði átt að kanna sjúkrasögu kæranda betur, sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt gögnum málsins var hann ekki heimilislæknir kæranda og því ekki kunnugur sögu hennar og heilsufari.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að sjúkdómsgreiningu við komu kæranda til læknis við Heilsugæsluna C þann X hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

Kærandi leitaði ekki aftur læknis vegna einkenna sinna fyrr en hún leitaði á bráðadeild Landspítala að morgni X samkvæmt sjúkraskrá spítalans. Þá var farið að nálgast tvo sólarhringa frá því hún hafði verið á heilsugæslunni en skráð er að samskipti við heilsugæslulækni hafi byrjað kl. 17:35 þann X. Í gögnum málsins liggur fyrir bréf D, yfirlæknis nýrnalækninga við Landspítala, dags. X. Þar segir:

„Ofangreind, A, veiktist af alvarlegum nýrnasjúkdómi í X sl. og leiddi sjúkdómurinn skjótt til lokastigsnýrnabilunar. Sjúkdómur þessi hefur verið nefndur and-GBM gauklabólga á íslensku en á ensku heitir hann anti-glomerular basement membrane nephritis. Þessi fátíði sjúkdómur er afar illvígur og leiðir skjótt til óafturkræfrar nýrnabilunar ef ekki tekst að bregðast tímanlega við með meðferð er beinist að því að fjarlægja meinvaldandi mótefni gegn grunnhimnu gaukla (and-GBM mótefni). Skjótvirk greining og meðferð sjúkdómsins er því afar brýn og geta einstakir dagar skipt sköpum fyrir árangur meðferðar.“

Enn fremur kemur fram í bréfi D, dags. X, um áhrif tafar á greiningu á endanlegt heilsutjón kæranda:

„Snemmkomin greining er forsenda þess að unnt sé að koma við blóðvökvaskiptum í því skyni að fjarlægja meinvaldandi sjálfsmótefni og ónæmisbælandi lyfjameðferð og þannig mögulega fyrirbyggja þróun lokastigsnýrnabilunar. Litlar líkur eru á að unnt sé að koma í veg fyrir nýrnabilun með meðferð ef kreatínin í sermi er 500 µmól/L við komu á sjúkrahús. Tap á nýrnastarfsemi sem þessu nemur getur myndast á nokkrum dögum. Því getur töf á greiningu sjúkdómsins sem nemur fáeinum dögum skipt sköpum varðandi batahorfur.“

Ljóst er að um afar illvígan sjúkdóm var að ræða í tilviki kæranda sem nauðsynlegt var að bregðast hratt við til að koma í veg fyrir óafturkræfa nýrnabilun. Ráða má af framangreindu áliti D nýrnalæknis að skjótvirk greining og meðferð sjúkdómsins er afar brýn og töf um fáeina daga getur skipt sköpum varðandi batahorfur. Líkt og fyrr greinir liðu tæplega tveir sólarhringar frá því kærandi leitaði á Heilsugæsluna C og þar til hún hlaut greiningu og meðferð á Landspítalanum. Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að meiri líkur en minni séu á því að kærandi hafi hlotið tjón af þeirri töf sem varð á greiningu nýrnabilunar. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að viðurkenna bótaskyldu vegna rangrar greiningar og meðferðar við nýrnasjúkdómi kæranda hjá Heilsugæslunni C þann X. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til mats á tjóni kæranda vegna sjúklingatryggingaratburðarins.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er felld úr gildi. Bótaskylda er viðurkennd og er málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til mats á tjóni kæranda vegna sjúklingatryggingaratburðarins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum