Hoppa yfir valmynd
3. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Starfsfólk UN Women í Úkraínu á vergangi í eigin landi

Ljósmynd: UN Women - mynd

Nánast allt alþjóðlegt starfsfólk UN Women í Úkraínu hefur verið flutt burt úr landinu og til nágrannaríkja en um þrjátíu innlendir starfsmenn hafa kosið að vera áfram og sinna störfum sínum undir gjörbreyttum aðstæðum. Flestir þessara starfsmanna eru konur með börn og þau hafa verið flutt til svæða Úkraínu sem teljast enn sem komið örugg, að því er fram kemur í frétt landsnefndar UN Women á Íslandi.

Erika Kvapilova fulltrúi UN Women í Úkraínu segir hún stöðuna afar flókna. Töluvert hafi verið um að fólk snúi aftur til Úkraínu þrátt fyrir ótryggt ástand og viðvarandi átök. Ástæðurnar séu margþættar, en flestir snúi aftur heim vegna fjárhagserfiðleika og til þess að sameinast aftur fjölskyldu sinni. „Staðan er flókin og aðstæður breytast dag frá degi. Starfsfólk UN Women í Úkraínu er sjálft á vergangi innan eigin ríkis þar sem það þarf að flýja heimili sín í kjölfar átakanna. Það haldi þó starfi sínu áfram þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður,“ útskýrir Erika.

Helsta þörfin núna, að hennar sögn, er að tryggja aukið fjármagn til frjálsra félagasamtaka sem sinna þörfum fólks á flótta og jaðarsettra hópa í Úkraínu.

Verið að rannsaka nauðganir sem stríðsvopn

Á síðustu vikum hafa hryllilegar sögur borist um að rússneskir hermenn nauðgi úkraínskum konum og að nauðgunum sé markvisst beitt sem stríðsvopni. Aðspurð hvort verið sé að bregðast við slíkum tilkynningum segir Erika að sérstök nefnd á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna (HRC) og embætti mannréttindafulltrúa SÞ séu að rannsaka tilkynningar um slík mannréttindabrot. Mannréttindaráðið hafi nú þegar 75 tilkynningar til rannsóknar.

„Rannsókn slíkra mála heyrir ekki undir UN Women. Við aftur á móti tryggjum þolendum viðeigandi aðstoð og sjáum til þess að stofnanir, félagasamtök og stjórnvöld séu meðvituð um hvernig eigi að meðhöndla slík mál; hvert eigi að beina þeim og hvernig eigi að tikynna þau. Þá höfum við barist fyrir því að öryggisgæsla sé aukin, í von um að tryggja öryggi kvenna og stúlkna. Við höfum jafnframt gert samstarfssamning við samtök lögfræðinga sem munu sjá um að reka þessi mál fyrir hönd þolenda.“

Erika segir eitt mikilvægasta verkefni UN Women núna sé að styðja með öllum ráðum við frjáls félagasamtök sem enn eru við störf í Úkraínu, m.a. við kvennaathvörf og gistiskýli fyrir heimilislausar konur.“

Erika bendir á að þarfir kvenna í Úkraínu séu ólíkar eftir landssvæðum. Í austurhluta landsins, þar sem átökin eru hvað hörðust, þurfa konur á brýnni neyðaraðstoð að halda. Á öðrum svæðum sé áhersla lögð á að tryggja konum á flótta húsnæði og fjárhagslegan stuðning.

„Í austurhluta landsins, þar sem átökin eru hvað verst, liggur mest á að koma neyðaraðstoð til kvenna og fjölskyldna þeirra, þar með talið mat, vatni, lyfjum, hreinlætisvörum og öðrum nauðsynjum. Staðan er allt önnur í vesturhluta landsins og verkefnin miða frekar að því að sinna flóttafólki; finna þeim húsnæði, veita þeim fjárhagslega aðstoð, heilbrigðisþjónustu, lögfræðiþjónustu og áfallahjálp ásamt því að aðstoða þau við atvinnuleit og koma börnum í skóla. Önnur mikilvæg verkefni eru að ná til viðvkæmra hópa, t.d. fólk með fatlanir, Róma fólk og heimilislausa og finna viðunandi húsnæði fyrir þá. Svo eru það konur með HIV, sem þurfa nauðsynlega á lyfjum sínum að halda en hafa ekki fengið.“

UN Women heldur áfram að veita kvenmiðaða neyðaraðstoð til kvenna sem flúið hafa stríðið í Úkraínu. Hægt er að hjálpa með því að senda sms-ið KONUR í  númerið 1900 (1.900 kr).

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum