Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Aðstoð fulltrúa að eigin vali við atkvæðagreiðsluna

Með breytingum á lögum um kosningar til Alþingis sem tóku gildi í október síðastliðnum varð kjósanda sem sakir sjónleysis eða þess að honum er hönd ónothæf heimilt að fá aðstoð fulltrúa við atkvæðagreiðsluna sem hann hefur valið sjálfur í stað kjörstjóra eða kjörstjórnarmanns, eins og verið hafði um langa hríð. Því hafa kjósendur, sem lögin taka til, nú með tilteknum skilyrðum sjálfir rétt til að ákveða hver aðstoði þá við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi.

Eyðublöð fyrir þagnarheit fulltrúa
Kjósanda sem sakir sjónleysis eða þess að honum er hönd ónothæf er heimilt að óska þess við kjörstjóra eða kjörstjórn á viðkomandi kjörstað að fulltrúi sem hann hefur valið sjálfur aðstoði hann við atkvæðagreiðsluna. Þennan vilja sinn verður kjósandinn að tjá kjörstjóra eða kjörstjórn óþvingað með skýrum hætti og að fjarstöddum fulltrúanum sem hann hefur valið sjálfur. Ef þetta gengur eftir skal orðið við ósk kjósandans og fulltrúi hans undirrita þagnarheit á sérstöku eyðublaði áður en hann aðstoðar kjósandann við atkvæðagreiðsluna.
Innanríkisráðuneytið hefur gert viðeigandi eyðublöð sem eru aðgengileg og útfyllanleg hér á vefnum, bæði fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og atkvæðagreiðslu á kjördag.

Hlutverk réttindagæslumanns
Vakin er sérstök athygli á því ákvæði í löggjöfinni er varðar kjósanda, sem óskar aðstoðar fulltrúa sem hann hefur valið sjálfur  við atkvæðagreiðsluna, sakir sjónleysis eða þess að hann getur ekki notað höndina og getur auk þess ekki með skýrum hætti tjáð kjörstjóra eða kjörstjórn þennan vilja sinn. Kjósandinn leggur þá fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandinn hafi valið sjálfur tiltekinn nafngreindan fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Innanríkisráðuneytið hefur gert eyðublað fyrir þessi vottorð réttindagæslumanna sem verða í vörslu hvers réttindagæslumanns en velferðarráðherra hefur ráðið átta einstaklinga í stöður réttindagæslumanna fatlaðs fólks í samræmi við 4. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011. Sjá upplýsingar um réttindagæslumenn og starfssvæði þeirra hér á vef velferðarráðuneytisins.

Aðeins má aðstoða einn kjósanda
Fulltrúa kjósanda er óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu. Þá mæla lögin fyrir um að það sé refsivert fyrir fulltrúa kjósandans að segja frá því hvernig kjósandinn greiddi atkvæði.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum