Hoppa yfir valmynd
8. maí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 6/2007. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 8. maí 2007

í máli nr. 6/2007:

Viðeyjarferjan ehf.

gegn

Reykjavíkurborg

Með bréfi 30. mars 2007 kærði Viðeyjarferjan ehf. þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að hyggjast ganga til samninga við annan aðila en kæranda í kjölfar samningskaupaferils á grundvelli samningskaupalýsingar nr. 10885 ,,Viðey – Samþætting þjónustu vegna ferjusiglinga og veitingareksturs“.

Kærandi krefst þess að hin kærðu samningskaup og samningsgerð í kjölfar þeirra verði stöðvuð án tafar. Hann krefst þess jafnframt að lagt verði fyrir kærða að bjóða út að nýju sömu þjónustu og í hinum kærðu samningskaupum. Þá krefst hann þess að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart honum. Loks er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað af því að hafa kæruna uppi. Kærði krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að hann verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Með ákvörðun 4. apríl 2007 tók kærunefnd útboðsmála afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar og var henni hafnað.

Með bréfi kæranda, dags. 23. apríl 2007, var gerð krafa um að honum yrði veittur aðgangur að öllum gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. maí 2007, krafðist kærði þess að trúnaðar yrði gætt um umrædd gögn.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til framangreindrar kröfu kæranda um afhendingu gagna þegar í stað. Úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

Kærandi vísar til stuðnings kröfu sinni um aðgang að öllum gögnum málsins til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og telur að ekki fái staðist að kærði geti borið fyrir sig trúnaðarskyldu.

II.

Kærði vísar til þess að í athugasemdum hans frá 3. apríl 2007 hafi verið gerð krafa um að gætt yrði trúnaðar varðandi tilboð Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. og önnur gögn varðandi bjóðandann, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga. Vísað er til þess að umrædd gögn hafi að geyma viðskiptahugmyndir og verðtilboð sem eðlilegt sé að leynd hvíli yfir. Vegi þeir verndarhagsmunir þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá umbeðnar upplýsingar þar sem í húfi séu viðskiptahugmyndir samkeppnisaðila sem hann geti mögulega nýtt sér. Þá sé hætta á að stöðu á samkeppnismarkaði verði raskað ef tilboðsverð verði gefin upp. Þau gögn, sem kærði krefjist að ekki verði afhent kæranda, hafi að geyma tilboð samkeppnisaðila hans, fundargerðir frá fundum með honum í samningskaupaferlinu, upplýsingar í skjali þar sem tilboðin tvö séu borin saman og samning hans og kærða frá 22. apríl 2007. Hafa þessi gögn að mati kærða að geyma upplýsingar um mikilvæga einkahagsmuni fyrirtækisins, þar á meðal fjárhagsupplýsingar og upplýsingar um samkeppnisstöðu þess. Af þeim sökum er þess krafist að hagsmunir kæranda víki fyrir mun ríkari einkahagsmunum Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf., enda komi í gögnunum fram upplýsingar um fjárhagsmálefni, rekstraráætlun og viðskiptahugmyndir sem mikilvægt sé að leynt fari. Hafi kærði hagsmuni af því að gögnin verði ekki afhent þar sem það geti skekkt samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem keppi á viðkomandi markaði og leitt til aukins kostnaðar fyrir kærða vegna þeirrar þjónustu sem um sé að ræða. Sé ljóst að hagmunir kærða og Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. af því að umbeðin gögn verði ekki afhent séu mun ríkari en hagsmunir kæranda af því að fá að notfæra sér vitneskju úr þeim. Sé því eðlilegt að takmarka aðgang kæranda að þeim gögnum sem merkt hafi verið sem trúnaðarmál. Þessu til stuðnings er vísað til ákvörðunar kærunefndar útboðsmála í máli nr. 24/2006 þar sem niðurstaðan hafi verið sú að hafna kröfu kæranda um aðgang að tilboði annars bjóðanda og að verðlista sem fylgdi samningi á milli bjóðandans og kærða í málinu. Sérstaklega er tekið fram að samningur kærða við Hvalaskoðun Reykjavíkur hafi verið undirritaður 22. apríl 2007 og hafi hann verið sendur kærunefnd útboðsmála, en þess verið krafist að gætt yrði trúnaðar um hann, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Í tölvupósti sem nefndinni barst frá kærða 7. maí 2007 er tekið fram að í fylgiskjali 8 séu fundargerðir frá fundum samningshóps kærða og kæranda frá 26. febrúar og 15. mars 2007 sem hafi fyrir mistök verið yfirstrikuð. Sé þessi gögn jafnframt að finna í fylgiskjali 6 sem kærandi hafi fengið fullan aðgang að.

III.

Kærandi hefur óskað eftir aðgangi að þeim gögnum málsins sem kærði hefur krafist að gætt verði trúnaðar um og að ekki verði afhent kæranda. Um er að ræða tilboð Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. og gögn í tengslum við það sem lögð voru fram af félaginu í samningskaupaferlinu, greinargerð samningshóps menningar- og ferðamálasviðs kærða frá 26. mars 2007, skjal þar sem fram kemur mat á því hvernig bjóðendur uppfylltu samningsmarkmið kærða sem fylgdi ofangreindri greinargerð, skjal þar sem tilboð Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. er metið í þriðja þrepi samningskaupaferlisins sem fylgdi einnig ofangreindri greinargerð og loks samning kærða og Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. frá 22. apríl 2007. Þá hefur kæranda verið veittur aðgangur að eftirfarandi gögnum með yfirstrikunum kærða: fundargerðum frá fundum samningshóps kærða og Hvalaskoðunar Reykjavíkur, dags. 22. febrúar, 13. mars og 23. mars 2007 og skjal þar sem borin eru saman tilboð bjóðenda í öðru þrepi samningskaupaferlisins sem fylgdi ofangreindri greinargerð kærða frá 26. mars 2007.

Umrædd gögn voru send kærunefnd útboðsmála með athugasemdum kærða 3. apríl 2007 og með tölvupósti 25. sama mánaðar. Teljast þau því til málsgagna í því stjórnsýslumáli sem rekið er fyrir kærunefnd útboðsmála á milli málsaðila. Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls almennt rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál hans varða. Hefur óheftur aðgangur að gögnum máls verið talinn nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og leiðrétta fyrirliggjandi gögn nýtist að fullu. Gerðar eru þröngar undantekningar frá þessari meginreglu í 16. og 17. gr. laganna. Samkvæmt 17. gr. laganna er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Með einkahagsmunum er meðal annars átt við upplýsingar um fjárhagsmálefni, svo sem upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu fyrirtækis.

Kemur þá til skoðunar hvort þær upplýsingar sem finna má í umræddum gögnum séu þess eðlis að uppfyllt séu skilyrði 17. gr. stjórnsýslulaga til að takmarka aðgang kæranda að þeim. Að mati kærunefndar útboðsmála hefur tilboð Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. og gögn sem félagið lagði síðar fram í tengslum við það að geyma upplýsingar um mikilvæga einkahagsmuni þess, þ. á m. upplýsingar sem varða viðskiptahugmyndir og samkeppnisstöðu félagsins. Þykja hagsmunir kæranda af aðgangi að tilboðinu og öðrum gögnum sem tengdust því eiga að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf., sbr. 17. gr stjórnsýslulaga. Hins vegar telur nefndin að veita beri kæranda aðgang að greinargerð samningshóps menningar- og ferðamálasviðs frá 26. mars 2007 að öðru leyti en því að strikað hefur verið yfir fjárhagslegar upplýsingar og tilteknar viðskiptahugmyndir Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. sem þar koma fram. Í þessu skjali er gerð grein fyrir því hvernig tilboð Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. uppfyllir samningsmarkmið og lágmarkskröfur sem lagt var upp með í samningskaupaferlinu og er það mat nefndarinnar að hagsmunir kæranda af því að nýta sér vitneskju úr skjalinu vegi í þessu tilviki þyngra. Með sömu rökum telur nefndin að veita eigi kæranda aðgang að skjali þar sem fram kemur mat á því hvernig bjóðendur uppfylltu samningsmarkmið kærða og að skjali þar sem tilboð Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. er metið í þriðja þrepi samningskaupaferlisins, að öðru leyti en því að strikað hefur verið yfir einingarverð í síðastnefndu skjali. Nefndin telur jafnframt að veita eigi kæranda aðgang að samningi kærða og Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. frá 22. apríl 2007, að öðru leyti en því að strikað hefur verið yfir fjárhagslegar upplýsingar og upplýsingar sem teljast varða einkahagsmuni. Fallist er á að kærða hafi verið heimilt að strika yfir upplýsingar í fundargerðum samningshóps vegna funda með Hvalaskoðun Reykjavíkur, dags. 22. febrúar, 13. mars og 23. mars 2007 og jafnframt að honum hafi verið heimilt að strika yfir einingarverð Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. í skjali þar sem borin voru saman tilboð bjóðenda í öðru þrepi samningskaupaferlisins.

Ákvörðunarorð:

           Kæranda, Viðeyjarferjunni ehf., er veittur aðgangur að eftirfarandi skjölum:

1.      Greinargerð samningshóps menningar- og ferðamálasviðs kærða, Reykjavíkurborg, frá 26. mars 2007 að öðru leyti en því að strikað hefur verið yfir fjárhagslegar upplýsingar og tilteknar viðskiptahugmyndir Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf.

2.      Skjali þar sem fram kemur mat á því hvernig bjóðendur uppfylltu samningsmarkmið kærða og fylgdi þeirri greinargerð sem greinir í lið 1.

3.      Skjali sem hefur að geyma mat á tilboði Hvalaskoðunar ehf. í þriðja þrepi samningskaupaferlisins og fylgdi þeirri greinargerð sem greinir í lið 1, að öðru leyti en því að strikað hefur verið yfir einingarverð.

4.      Samningi kærða og Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. frá 22. apríl 2007, að öðru leyti en því að strikað hefur verið yfir fjárhagslegar upplýsingar og upplýsingar sem varða einkahagsmuni.

Hafnað er kröfu kæranda um aðgang að tilboði Hvalaskoðunar Reykjavíkur ehf. og gögnum tengdum því.                                                         

Reykjavík, 8. maí 2007.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

                                                              

                                                                            

                                                              

                                                              

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 8. maí 2007.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum