Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra efnir til hugmyndasamkeppni um framtíð Hegningarhússins við Skólavörðustíg

Ögmundur Jónasson kynnti í ríkisstjórn í dag hugmynd um að efnt verði til hugmyndasamkeppni um framtíð Hegningarhússins við Skólavörðustíg í Reykjavík. Framkvæmdir við fangelsisbyggingu á Hólmsheiði eru að hefjast og þegar nýtt fangelsi tekur til starfa er meðal annars gert ráð fyrir að fangelsisstarfsemin í Hegningarhúsinu verði aflögð.

Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Mynd af vef Fangelsismálastofnunar.
Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Mynd af vef Fangelsismálastofnunar.

Af og til hafa komið fram í umfjöllun um fangelsismál ýmsar vangaveltur um hvernig skuli nýta Hegningarhúsið við þessi kaflaskil. Þá hafa ráðherra borist ýmsar óformlegar ábendingar og fyrirspurnir um hvað gera mætti við húsið til framtíðar.

Hegningarhúsið er gömul og söguleg bygging og þar hefur margháttuð starfsemi hins opinbera verið hýst í gegnum árin þó að síðustu áratugina hafi fangelsisstarfsemin verið þar ráðandi. Í þessari umræðu hafa verið nefndar hugmyndir um að þarna væri hentugt að reka til dæmis safn um sögu dóms- og refsimála á Íslandi, annars konar söfn og/eða veitingastarfsemi.

Áhugavert er að gefa því gaum hvernig húsið verður best nýtt í framtíðinni og er nauðsynlegt að slík hugmynd sé rædd við Reykjavíkurborg, húsafriðunarnefnd, ferðaþjónustuna, menningarsamtök og aðra þá aðila sem gætu lagt fram hugmyndir. Því er sú hugmynd sett fram að sem fyrsta skref verði efnt til opinnar hugmyndasamkeppni um notkun hússins. Að fengnum tillögum yrðu þær faldar starfshópi ýmissa aðila til frekari úrvinnslu.

Jafnframt þarf að móta og ákveða hvort ríkisstjórnin hefur áfram eignarhald með höndum eða hvort eðlilegt væri að Reykjavíkurborg kæmi þar að málum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum